VES-þingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 14:41:42 (3198)

1997-02-06 14:41:42# 121. lþ. 64.7 fundur 290. mál: #A VES-þingið 1996# skýrsl, LMR
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:41]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Sem formaður Íslandsdeildar þings Vestur-Evrópusambandsins vil ég hér með gera grein fyrir ársskýrslu deildarinnar fyrir árið 1996, samanber þskj. 545.

Eins og fram hefur komið í umræðu nú í morgun hafa orðið miklar breytingar á Evrópusamstarfi og breytingar eru enn á fullri ferð vegna þeirra atburða sem hafa gerst á sl. áratug og þeirra nýfrjálsu ríkja, fyrrum kommúnistaríkja, sem hafa óskað eftir meiri og meiri samvinnu við lönd Vestur-Evrópu. Sú umræða sem fram fór hér áðan um hlutverk ÖSE, Evrópuráðs og VES, er kannski einmitt lýsandi fyrir það sem er að gerast í Evrópumálum í dag. Eftir að Austur-Evrópuríki fengu frelsi hefur orðið breyting á grundvallargerð ýmissa þeirra stofnana sem hafa aðallega unnið á vegum Vestur-Evrópu, og síðan með RÖSE, eða ÖSE nú, fyrir Evrópu alla og sömuleiðis í samstarfi við Bandaríkin, Kanada og að mig minnir Japan líka. Þess vegna er nýtt hlutverk stofnananna mjög í endurskoðun á grundvelli þessara aðstæðna. Þetta vildi ég að kæmi fram því ég hafði ekki nægan tíma til þess að svara í andsvari um Ervrópuráðið hér áðan.

Allt verklag innan þessara stofnana og skipulag er í stöðugri mótun og mun verða það á næstu árum, bæði hjá ÖSE og Evrópuráðinu sérstaklega, og jafnvel á öðrum vettvangi í sambandi við VES og langar mig til að koma fram með hugleiðingar í því sambandi. Mannréttindamál hafa t.d. á undanförnum árum verið einn grundvallarþátturinn í starfi Eystrasaltsráðsins sem við eigum aðild að og Ole Espersen, sem áður fyrr var aðalfulltrúi Dana í Evrópuráðinu, hefur verið formaður fyrir. Á vegum ráðsins hefur hann starfað sem sérstakur mannréttindafulltrúi (commissioner for human rights). En vegna aukins vægis mannréttinda innan ÖSE og Evrópuráðsins, sem t.d. hefur orðið með inntöku Rússlands í Evrópuráðið þar sem rætt er um mannréttindamál, hefur komið til tals innan Eystrasaltsráðsins að hlutverk þess sem stofnunar mannréttinda sé í raun og veru fallið um sjálft sig og að endurskoða þurfi markmið þess frá upphafi og yfirleitt hvort það muni halda áfram störfum sem slíkt á þann máta sem það hefur gert áður eða jafnvel enn frekar hvort leggja eigi niður þetta embætti.

[14:45]

Eins og ég sagði áðan er það ekki síst vegna aðildar allra ríkja Eystrasaltsráðsins, sem sagt Norðurlandanna, Lettlands, Eistlands og Litáens að Evrópuráðið og ÖSE hafa verið í þetta mikilli endurskoðun. En þessi dæmi eru eingöngu lítil dæmi um stöðugt endurmat sem á sér stað á grundvelli reynslu en ekki einhverra skyndiákvarðana. Ég vil líka benda á að það er ýmis önnur samvinna, eins og ég hef áður bent á í þingsal, á milli landa sem liggja að ákveðnum svæðum innan Evrópu. Þar er m.a. Mið-Evrópusambandið minnir mig að það heiti og einnig samband landa sem liggja að ákveðnum fjallaskaga innan Evrópu sem mynda með sér samtök. Síðan er það Norðurlandaráð o.s.frv. o.s.frv. Allt þetta er á örri hreyfingu miðað við þá breytingu sem orðið hefur innan Evrópu.

Ég vil gjarnan segja frá því að Vestur-Evrópusambandið hefur eiginlega fengið nýtt hlutverk á sl. árum. Hlutverk þess lá niðri og var jafnvel ekki eins mikilvægt á tímabili vegna sterkrar þátttöku NATO í varnarmálum Austur-Evrópu. Að undanförnu hefur verið rætt mikið um að Evrópa ætti að taka eigin öryggismál í sínar hendur. Vegna þess var VES nánast endurvakið ef svo má segja í sterkari mynd sem varnarbandalag og þá sem Evrópustoð NATO.

Vegna aðildar Íslands að NATO stóð Alþingi lengi til boða að senda áheyrnarfulltrúa á fundi VES-þingsins. Alþingi þekktist boð VES-þingsins árið 1993, en árið áður hafði Ísland fengið aukaaðild að VES sem tók þó ekki formlega gildi fyrr en í mars 1995. Í kjölfar þessa var samþykkt að stofna Íslandsdeild VES-þingsins. Tilnefnd af þingflokkunum til setu í Íslandsdeildinni voru Lára Margrét Ragnarsdóttir, Sjálfstæðisflokki, Össur Skarphéðinsson, Alþýðuflokki, og Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki, sem aðalmenn, og Kristján Pálsson og Guðmundur Hallvarðsson, Sjálfstæðisflokki, og Ásta R. Jóhannesdóttir, Þjóðvaka, sem varamenn. Undirrituð, Lára Margrét Ragnarsdóttir, var kjörin formaður og Össur Skarphéðinsson varaformaður. Ritari deildarinnar er Gústaf Adolf Skúlason alþjóðaritari.

Það eru einnig nokkrar undirnefndir í VES og eru það forsætis-, stjórnar- og stjórnmálanefnd þar sem Lára Margrét Ragnarsdóttir situr sem aðalfulltrúi, varnarmálanefnd þar sem Össur Skarphéðinsson situr sem aðalfulltrúi og nefnd um almannatengsl, tækni- og geimvísinda-, fjármála- og stjórnsýslu- og þingskapanefnd sem Siv Friðleifsdóttir situr sem aðalfulltrúi.

Á síðasta starfsári urðu mikil tímamót í sögu VES á ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í júní. Þar var samþykkt svonefnd ,,CJTF``-áætlun (Combined Joint Task Forces, sem erfitt er að þýða en í grófum dráttum er þetta sameiginlegur verkefnahópur þar sem fleiri eða færri aðildarríkjum VES er gert kleift að takast á hendur verkefni á sviði öryggis- og varnarmála og nýta til þess búnað og herstjórnarkerfi Atlantshafsbandalagsins, á meðan pólitísk og hernaðarleg stjórn sem og ábyrgð væri í höndum VES. Samstaða hefur verið um það meðal aðildarríkja VES að uppbygging sérstaks herstjórnarkerfis fyrir VES væri allt of kostnaðarsöm, enda hafa flest ríkjanna skorið niður framlög til hernaðarmála á undanförnum árum. Sömuleiðis hefur samvinna og þjálfun innan Evrópuríkjanna verið svo til eingöngu innan ramma NATO-samstarfsins. Með þessu samkomulagi milli VES og NATO hefur sjálfstæði Evrópuríkjanna í öryggis- og varnarmálum verið eflt án þess að á nokkurn hátt hafi verið dregið úr hlutverki Atlantshafsbandalagsins sem ég tel vera af hinu góða.

Staða og hlutverk VES hefur hins vegar verið mjög til umræðu á árinu, jafnt á VES-þinginu sem á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. VES hefur verið skilgreint sem Evrópustoð Atlantshafsbandalagsins annars vegar en varnarmálaarmur ESB hins vegar. Vilji er á því meðal nokkurra aðildarríkja Evrópusambandsins að VES verði sameinað eða fellt undir ESB. Við slíkar kringumstæður yrði staða aukaaðildarríkjanna þriggja, Íslands, Noregs og Tyrklands, óljós, þar sem viðkomandi ríki eru ekki aðilar að ESB en eru á hinn bóginn aðilar Atlantshafsbandalagsins. Erfitt er að koma auga á hvernig slíkt samband gæti áfram skilgreint sig sem Evrópustoð Atlantshafsbandalagsins en slík þróun byði jafnframt heim hættunni á að Bandaríkin og Kanada teldu minni ástæðu en ella til að gegna virku hlutverki í öryggismálum Evrópu.

Ekki þarf nema horfa til ástandsins á Balkanskaga undanfarin ár og getu Evrópuríkjanna til að leysa það mál og síðan Dayton-samkomulagsins um frið í Bosníu til að sjá nauðsyn áframhaldandi virkrar þátttöku Norður-Ameríku í öryggismálum Evrópu.

Íslandsdeild VES-þingsins hefur í málflutningi sínum ásamt Bretum og Norðmönnum sérstaklega ítrekað haldið fram mikilvægi tengslanna yfir Atlantshafið, virkrar þátttöku Norður-Ameríku í öryggismálum í Evrópu og nauðsyn þess að VES haldi ákveðnu sjálfstæði gagnvart ESB. Í málflutningi okkar höfum við bent á fyrrnefndar hættur sem samruni VES við ESB getur haft í för með sér gagnvart aukaaðildarríkjunum, þátttöku Norður-Ameríku í öryggismálum Evrópu og þar með sjálfu öryggi álfunnar. Þar með höfum við varað við, í áframhaldandi umræðu í þessa veru, að þetta gæti líka skapað ákveðið vantraust milli samstarfsaðila okkar í Norður-Ameríku. Það hefur þegar borið svolítið á slíku meðal þeirra viðmælenda sem ég hef átt viðtöl við á þingum VES.

Það má benda á vaxandi tengsl VES við hin nýju lýðræðisríki í fyrrum kommúnista-Evrópu og það er rétt að benda á hversu mikilla öryggislegra hagsmuna þessi ríki hafa að gæta við þau tengsl sem skapast hafa og óskir þessara ríkja eru að auka samvinnu enn frekar við VES og jafnvel að verða þátttakendur í VES. Þar með eru þau að sjálfsögðu að banka á dyr NATO eins og mörgum er kunnugt. Þess vegna verður að segjast eins og er að við breytingu á starfsháttum þessara stofnana sem fjalla um öryggi og mannréttindamál í Evrópu eru öryggismál Evrópu í húfi í hvert skipti sem slíkar breytingar verða sem tengjast öryggis- og hagsmunamálum Austur-Evrópulandanna.

Íslandsnefndin hefur verið mjög virk í umræðu um þessi mál eins og ég sagði áðan. Við höfum haldið mjög stíft fram okkar málstað um hlutverk VES innan Evrópu og að VES ætti ekki að verða stofnun undir ESB. Þess ber að geta jafnframt því sem ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni góð orð í minn garð, að Össuri Skarphéðinssyni var falið, fyrir hönd þeirra aðila sem eru andvígir því að VES falli undir ESB, að vera með framsögu fyrir þeirra hönd sem vel var tekið eftir. Þetta gerði Össur á sérstöku aukaþingi VES-þingsins sem haldið var í febrúar vegna ríkjaráðstefnu ESB og ályktaði þingið þar með þess efnis að efla bæri samstöðu ESB og VES en jafnframt var varað við að nokkru ríki væri veitt aðild að VES sem ekki væri reiðubúið til að taka fullan þátt í varnarsamstarfi undir formerkjum Atlantshafsbandalagsins.

Þá voru ítrekuð fyrrum tilmæli þingsins um að evrópskum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins er stæðu utan ESB yrði boðin full aðild að VES. Í þessu sambandi langar mig til að minnast á ræðu sem Dehaene, forsætisráðherra Belgíu, átti í fyrravor á þingi VES þar sem hann talaði um að hann óskaði eftir eins skjótri sameiningu VES og ESB og unnt væri. Íslendingar svöruðu á móti og spurðu hvort hann sem tilvonandi forseti VES eða hans land hefði ekki hug á að halda þá samþykkt sem VES-þingið hefði gert, þ.e. að VES yrði sjálfstæður stólpi Atlantshafsbandalagsins og ekki undir ESB?

Innan VES-þingsins hefur lengi verið meiri hluti fyrir því sjónarmiði að Íslandi, Noregi og Tyrklandi yrði boðin full aðild að VES og tillögur um samruna ESB og VES hafa ekki hlotið stuðning þingsins eins og ég hef sagt áður. Hins vegar má merkja vaxandi vilja til þessa samruna eins og ég minntist á í sambandi við Dehaene og nokkurra aðildarríkja ESB.

Íslandsdeildin hefur hins vegar einungis haft fjárhagslega burði eins og í öðru alþjóðlegu samstarfi til að sækja sjálfa þingfundina sem haldnir eru tvisvar á ári. Væri Íslandsdeildinni gert kleift að sækja nefndarfundi á milli þingfunda þá mundi það líka eins og annars staðar bæta möguleika hennar á að beita sér gegn þeirri þróun sem hér um ræðir. En skýrslur þingsins og ályktanir eru einmitt unnar og ræddar og meginákvarðanir teknar á þessum fundum. Þannig að Íslendingar eiga ekki auðvelt með að koma áhrifum sínum um þessi mál til skila á lokastigi umræðunnar.

Að lokum vil ég ítreka enn einu sinni í dag hversu mikilvægt það er að Íslendingar taki þátt í þeirri þróun sem er að verða í Evrópu. Ísland var og er, en var sérstaklega hér á árum áður, talið mjög mikilvægt í varnarkerfi Evrópuríkja og að mínu mati er það svo enn. En við verðum að halda uppi okkar merkjum og við þurfum að sýna að við séum viljug til að vera með í virkri þátttöku í umræðum um þá þróun sem er að verða í Evrópu, hvort heldur er á sviði mannréttindamála, varnarmála, efnahagsmála eða annarra mála. Einungis þannig getum við haft áhrif og komið þeim breytingum á sem nauðsynlegt er og við teljum að séu okkur til hagsbóta. Ég vil fullvissa þingheim og almenning um að þegar Íslendingar, sem ávallt hafa farið vel undirbúnir til þessara þinga, hafa hafa lagt máli lið, hafa þeir getað haft veruleg áhrif á þessum fundum. Ekki síst þess vegna tel ég mikilvægt að við höldum því áfram.

[15:00]

Það var rætt hér í dag að þessar stóru stofnanir væru oft ekki í takt við tímann. Ég vil því minnast á að í haust rétt eftir kosningarnar í fyrrum Júgólavíu, þ.e. Serbíu og Svartfjallalandi --- en viðbrögð Milosevic við þeim eru eins og almenningi er kunnugt --- var fjallað um skýrslu um öryggi í Austur-Evrópu. Í þeirri skýrslu var hvergi komið að því hvernig ástandið var í Serbíu og Svartfjallalandi, hvaða áhrif það gæti haft eða hvaða óróa það gæti breitt út í nágrannalöndum. Íslenska sendinefndin vakti hins vegar athygli á þessu og kom breytingum og ábendingum inn til þingsins sem leiddu til þess að þingsályktun VES til Milocevic var í formi orðsendingr á þá lund að þetta mundi ekki líðast af hálfu Vestur-Evrópusambandsins.

Að lokum vil ég þakka fyrir það samstarf sem ég hef átt innan Vestur-Evrópusambandsins, þingnefndar Íslendinga og þakka fyrir þann stuðning sem nauðsynlegt er fyrir alla formenn sendinefnda að fá frá samverkamönnum sínum. Ég vil einnig þakka fyrir hlý orð í minn garð í dag í sambandi við Evrópuráðið og vonast til þess að Íslendingar muni geta haldið uppi enn virkari tengslum við VES-þingið eins og við höfum gert og viljum auka við Evrópuráðið. Og að lokum vil ég benda á það, af því að hér hefur komið fram að það eru oft þeir sömu sem sækja öll þessi þing og ráð, að að sjálfsögðu er að gert með ásettu ráði. Það er til þess að fá samhengi í þá þætti sem eru eiginlega tvinnaðir saman, þ.e. annars vegar mannréttindi og hins vegar varnarmál. Þess vegna tel ég mjög nauðsynlegt að við skoðum vel og vandlega hvernig við skipum þessum málum af okkar hálfu í framtíðinni.