VES-þingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 15:02:16 (3199)

1997-02-06 15:02:16# 121. lþ. 64.7 fundur 290. mál: #A VES-þingið 1996# skýrsl, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:02]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins út af Vestur-Evrópu\-sambandinu koma upp og segja nokkur orð um þá þróun sem þar hefur átt sér stað. Ég tel að mál hafi þar færst í rétta átt miðað við stefnumál okkar Íslendinga. Það eru litlar líkur á því að Vestur-Evrópusambandið glati sjálfstæði sínu sem sjálfstæð stofnun og kom það m.a. mjög skýrt fram í máli framkvæmdastjóra VES, José Cutileiro, þegar hann kom til Íslands í september í opinbera heimsókn í boði ríkisstjórnar Íslands.

Á ríkjaráðstefnunni sem nú stendur yfir virðist VES ekki leika jafnstórt hlutverk og gert var ráð fyrir þó það sé talið líklegt að samskipti Vestur-Evrópusambandsins og Evrópusambandsins verði skilgreind betur að henni lokinni. Eftir að Atlantshafsbandalagið samþykkti sveigjanlega herstjórnarkerfið og Frakkar urðu sáttir við að byggja upp evrópskt varnar- og öryggissamstarf innan Atlantshafsbandalagsins og að Vestur-Evrópusambandið tæki að sér aðgerðir þar sem bandamenn frá Norður-Ameríku verða ekki þátttakendur, þá virðist sem áhugi Evrópusambandsþjóðanna á þeirri stefnu að sameina Vestur-Evrópusambandið Evrópusambandinu hafi dvínað. Þetta er í samræmi við þær áherslur sem við Íslendingar höfum haft í þessu starfi og því ber að fagna því.

Vegna sveigjanlega herstjórnarkerfisins getur Vestur-Evrópusambandið gegnt mikilvægu hlutverki í Evrópu í varnar- og öryggismálum þrátt fyrir þetta í framtíðinni vegna þess að Vestur-Evrópusambandið hefur þá aðgang að því og er gert ráð fyrir að þetta geti einkum átt sér stað í svokölluðum Pétursborgarverkefnum, sem kennd eru við þá borg, og er þá einkum átt við verkefni á sviði friðargæslu og mannúðaraðstoðar.

Um málefni Vestur-Evrópusambandsins hefur verið mikil samstaða í þingmannanefndinni og skoðanir þingmannanna verið alveg þær sömu og ríkisstjórnar Íslands. Ég tel að sameiginlega hafi Íslendingum tekist að flytja mál sitt þar með miklum árangri og fyrir það ber að þakka og sýnir það hvernig ríkisstjórnir á hverjum tíma og þingmenn geta sameiginlega unnið málstað Íslands mikið gagn á erlendum vettvangi.