Fríverslunarsamtök Evrópu 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 15:13:28 (3201)

1997-02-06 15:13:28# 121. lþ. 64.4 fundur 287. mál: #A Fríverslunarsamtök Evrópu 1996# skýrsl, HG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:13]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Eins og fram kemur í skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur mælt fyrir, þá hefur verið allmikið starf á vegum þessarar alþjóðanefndar. Ætla ég svo sem ekki miklu að bæta við það sem hér hefur komið fram, en vildi þó nefna nokkur atriði, bæði til umhugsunar og upplýsingar.

Hér eru rakin í aðalatriðum störf nefndarinnar þannig að það sem ég segi varðar meira atriði sem tengjast þessu starfi. Ég tel að þær heimsóknir sem þingmannanefndin hefur farið í til þjóðþinga annarra landa hafi verið mjög þarft nýmæli og í rauninni vel heppnað og skynsamlega ráðið. Formaður nefndarinnar átti frumkvæði að þeim heimsóknum báðum að ég tel og þær geta skipt máli fyrir samskipti okkar við Evrópusambandið sem auðvitað var markmiðið með því að heyra í þeim þingnefndum frá ríkjum sem voru í forustu eða ætluðu að taka forustu í Evrópusambandinu á grundvelli þeirrar hálfsárslegu skiptingar sem þar fer fram á forsæti í ráðherraráði ESB.

Heimsóknin til Írlands tengdist má segja, óbeint þó, miklum samskiptum af Íslands hálfu við Írland á þessu tímabili. Sumar þeirra heimsókna, eins og heimsókn hæstv. utanrrh. nokkru seinna en EFTA-nefndin fór til Írlands held ég, var af svipuðu tilefni geri ég ráð fyrir, að hafa samskipti við stjórnvöld í því landi sem hafði forustu í Evrópusambandinu. En við þetta bættist síðan, ég held ég muni rétt, heimsóknir þjóðhöfðingja landanna, gagnkvæmar heimsóknir af hálfu Íslands og Írlands. Þannig var um heilmikil tengsl að ræða einmitt við Írland á sl. ári. Ég held að það sé mjög af hinu góða að við ræktum samskipti við Írland alveg burt séð frá því hvar þeir eru staddir í því sem kalla mætti ,,híerarkí`` eða forustu innan Evrópusambandsins, tímabundið eins og þarna var um að ræða.

Írar hafa nokkra sérstöðu. Afstaða þeirra eða aðstaða gagnvart Evrópusambandinu helgast að nokkru leyti af tengslum þeirra og nálægð við Bretlandseyjar eða England og veldur því að þeir hafa nokkra sérstöðu að ýmsu leyti, líka á sviði utanríkismála, en það er ýmislegt sem af þeim má læra eins og öðrum þjóðum og þetta var sem sagt gagnleg heimsókn.

Sama má segja um heimsóknina til hollenska þingsins þar sem rætt var við Evrópunefnd þess og þá m.a. um málefni sem var á dagskrá og er áfram á dagskrá, hefur borið við á þessum degi í tengslum við umræður um alþjóðaskýrslu, þ.e. Schengen-samstarfið. En hollenska þingið var þá einmitt með í athugun þann samstarfssamning sem stóð til að gera við Ísland og Noreg og hafði ýmsar spurningar í því sambandi sem við reyndum að veita upplýsingar um sem þarna vorum. Við sögðum auðvitað frá þeim deildu meiningum sem eru um þetta samstarf einnig hér innan okkar þjóðþings og þetta voru gagnleg samtöl sem þarna fóru fram.

Síðan vildi ég nefna úr starfi nefndarinnar á liðnu ári ráðstefnu eða seminar sem var haldið í byrjun september um Evrópusambandið, ríkjaráðstefnuna og ýmislegt sem að því laut og einnig var Eftirlitsstofnun EFTA hluti af því seminari. Það var vettvangur þar sem hugmyndin af hálfu þeirra sem skipulögðu þennan fræðslufund var að fá þangað þingmenn sem vildu setja sig inn í þessi mál sérstaklega, ekki sérstaklega þingmenn úr sendinefndum EFTA eða EFTA-nefndum þjóðþinganna heldur að fara miklu víðar. Og þannig var háttað þátttöku Norðmanna á þessum fræðslufundi sem stóð í tvo daga að þaðan komu svo að dæmi sé tekið allmargir fulltrúar sem voru ekki úr EFTA-nefndum norska þingsins heldur þar fyrir utan og ég má segja að svipað hafi verið uppi hjá Svisslendingum sem voru þátttakendur að sjálfsögðu líka. Ég tel ekki til fyrirmyndar hvernig að þessu var staðið af okkar hálfu þó að eðlilegt sé að við sem erum í þessari alþjóðanefnd leggjum okkur eftir vettvangi sem þessum. Ástæðan var ekki, held ég, áhugaleysi innan þingsins heldur hvernig á þessu var haldið af forustu þingsins og beini ég nú orðum mínum til hæstv. forseta. Þátttakan var í rauninni takmörkuð við EFTA-nefndina samkvæmt fyrirmælum, ég held af einhverjum sparnaðarráðstöfunum af hálfu forustu þingsins, í staðinn fyrir að auglýsa það hér að þeir, sem vildu setja sig inn í þessi málefni, sem geta virst nokkuð flókin ef menn ekki leggja sig eftir þeim sérstaklega, þeir gætu tekið þátt í þessum fræðslufundi. Mér finnst oft á tíðum að menn séu óþarflega samhaldssamir á sumum sviðum, það er kannski nokkuð rúmt um á öðrum sviðum, þannig að það þyrfti að leggja meiri alúð í að velja og hafna í sambandi við alþjóðasamskipti okkar af hálfu Alþingis. Ég býst við að víða megi finna dæmi um þetta. Og hvernig í ósköpunum á það að vera að þingmenn á Alþingi fá ekki aðstöðu til þess að taka þátt í vel skipulögðum upplýsingafundi um þetta samhengi og samstarf EFTA og Evrópusambandsins, uppbyggingu Evrópusambandsins, framtíðarhorfur þeirra sem eru kvaddir til, eins og menn sjá það, að reifa þau mál? Svo eiga þeir uppi á Íslandi að taka afstöðu á þessum vettvangi Alþingis, afstöðu til mála sem varða þjóðarhag og oft mjög mikla hagsmuni af Íslands hálfu, og fá ekki ráðrúm til þess að leggja sig eftir vitneskju um þessi efni í þessu formi. Og ég fullyrði, þó að ég hafi ekki verið sammála ýmsu sem fram kom af hálfu þeirra sem voru til kvaddir að flytja erindi, hvorki um framtíðarhorfur né æskilega þróun í þessum efnum, að ég hafði mikið gagn af þessum fræðslufundi sem efnt var til. Ég nefni þetta sérstaklega til ábendingar fyrir forustu þingsins og bið hæstv. forseta um að flytja þetta til forsætisnefndar, að þetta verði tekið til endurmats. Þátttaka einmitt í ráðstefnum af þessu tagi getur orðið til verulegrar leiðbeiningar fyrir þingmenn og ætti að vera skylduverk a.m.k. þeirra sem eru í einhverjum tengslum og trúnaðarstörfum hjá þingflokkunum að reyna að leggja sig eftir því og sækja slíkt. Við þurfum á því að halda að menn séu vel inni í þessum málum.

Það er nú svo með EFTA-sendinefndina að hún starfar í ýmsu samhengi. Þetta er býsna flókið og það þarf heila sérfræði til og ekki von til þess að margir utan þátttakenda í nefndinni kunni skil á því flókna samhengi sem þessi hópur starfar innan. Þar á ég við það að sumir eru þátttakendur í þingmannasamstarfinu við EES. Svisslendingar eru þar utan við. Þetta veldur því að í rauninni eru tveir hópar á ferðinni sem þurfa að fara inn og út ef svo má segja með mismunandi réttindum. Sama gildir um forustu innan sendinefndanna sjálfra. Þar er líka um að ræða framkvæmdastjórn sem fer eftir ákveðnum reglum og ég átti sæti í á síðasta þingi en þar hefur nú verið breytt um eftir þeirri hefð sem hefur ríkt um þátttöku í því. Ekki meira um það.

Þegar maður fer yfir þessar alþjóðaskýrslur og þar á meðal skýrslu þessarar sendinefndar kemst maður ekki hjá því að hrökkva við þessar skammstafanir, þennan sæg skammstafana sem tengjast alþjóðasamstarfi. Ég held að það sé umhugsunarefni ásamt mörgu öðru hvernig þetta er matreitt fyrir almenning í landinu. Ég er alveg sannfærður um að þessar skammstafnir eru stórfelld hindrun í vegi þess að almenningur átti sig á hvað er hvað. Hvað er um að ræða? Það er heil fræðigrein að setja sig inn í þessi ósköp, hvað þetta heitir allt saman sem við höfum hér fyrir okkur. Síðast voru menn að ræða VES-skýrsluna og það væri fróðlegt ef gerð væri könnun á því hve margir Íslendingar leystu þá gátu hvað er VES. Menn eru farnir að átta sig nokkurn veginn á hvað EES er, geri ég ráð fyrir. En þau eru mörg samtökin sem eru notaðar skammstafanir um í fréttaflutningi og í frásögnum. Ég held að þetta sé sparnaður á orðum og í riti og það sé mjög hæpið að ástunda að kalla hlutina þessu, a.m.k. þá sem ekki eru dags daglega uppi á borði manna. NATO geri ég ráð fyrir að sé orðið nokkuð ljóst fyrir Íslendinga hvað er. Það er búið að vera lengi á sviðinu, allt of lengi, og menn kunna skil á því, en margt af þessu sem annars ber hér við er ekki til þess fallið.

Síðan vil ég nefna, virðulegur forseti, og er ég þá bara að stikla á nokkrum atriðum sem tengjast starfi þingmannanefndarinnar hjá EFTA sem hóf samstarf við ráðherravettvanginn og hittir ráðherrana tvisvar á ári, ráðherra EFTA og fulltrúa frá Evrópusambandinu, en ekki hefur alltaf tekist til sem skyldi varðandi þátttöku þeirra ráðherra og ég vil nefna það hér, ekki ráðherrunum til hnjóðs sérstaklega, en það var efnt til fundar suður í Genf þann 16. desember sl., í miðju jólaannríki þjóðþinganna, til þess að hitta ráðherra EFTA. --- Og hvar er hæstv. utanrrh., virðulegur forseti? Það er kannski gott að hann heyri þegar ég er að nefna þá sem við áttum samræður við suður í Genf 16. desember. Það var sérstaklega valin dagsetning af hálfu ráðherra EFTA-ríkjanna. Og þegar við brjótumst þarna í svartasta skammdeginu, formaður nefndarinnar fór fyrir þessu fríða föruneyti, að vísu afar einlitu hvað kynferði snertir og er það einn meginljóður á þessari sendinefnd að sjálfsögðu að þar er mikið karlasafn og einlitt, en formaður nefndarinnar fór fyrir og menn komust á vettvang þarna suður í Ölpum, en þá brá svo við að viðmælendurnir sátu bara heima af gildum ástæðum vafalaust. Ég hef heyrt að íslenski utanrrh. hæstv. hafi verið settur í farbann af skiljanlegum ástæðum, afmæli í flokknum. Það stóð verr á hjá þeim norska. Hann sat heima vegna mikillar stjórnarkreppu í Noregi sem stendur enn má segja þar sem norska ríkisstjórnin er að týna ráðherrunum fyrir borð einum af öðrum og það var einmitt að gerast um þetta leyti. Sá eini sem hélt uppi merkinu var utanríkisráðherrann frá Liechtenstein sem kom á vettvang, kona þaðan sem fékk alveg sérstaka einkunn frá formanni íslensku sendinefndarinnar sem eftir var tekið. Þetta urðu sem sagt samtöl og þarna mættu fulltrúar ráðherranna vissulega og reyndu að leysa úr spurningum okkar.

Eitt af því sem við ræddum eins og oft á þessum vettvangi var Schengen. Og Schengen-málið hefur komið mikið fyrir á þessum vettvangi, ekki fyrir mína tilstuðlan sérstaklega eða eingöngu, langt frá því. Það hefur verið áhugamál margra að skyggnast um varðandi þennan flókna samning sem þarna var gerður þrem dögum eftir þennan ráðherrafund og signeraður af dómsmálaráðherrum landanna 19. desember sl. Þar liggur mikið efni fyrir til þýðingar og síðan aflestrar, upp á 700--1.000 síður, sem verið er að brjótast í gegnum áður en það verður lagt fyrir Alþingi Íslendinga, eftir því sem við heyrum, haustið 1997. Þá geta nú verið komnir breyttir tímar.

Ég vil þakka samstarfið innan nefndarinnar, þakka formanni fyrir ötula og vökula forustu í málefnum hennar og tel að gagn sé að því samstarfi sem þarna fer fram og að menn sinni því eins og öðrum þáttum í utanríkissamskiptum okkar.