Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 15:53:43 (3205)

1997-02-06 15:53:43# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:53]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Kristjánssyni fyrir að hafa flutt skýrslu nefndarinnar. Það kom fram í máli hans hvað menn hafa verið að ræða á Norður-Atlantshafsþinginu og þeim vettvangi síðustu missirin og réttilega gat hann þess að efst á baugi væri stækkun NATO til austurs. Það kom einnig fram hjá honum að Ísland og Íslandsdeildin hefur ekki viljað ganga jafnlangt og ýmsir aðrir í að þrýsta á um stækkun.

Herra forseti. Innan skamms verða teknar ákvarðanir um það hvernig á að standa að stækkun NATO og um það hafa spunnist umræður bæði hér og í ýmsum þeim stofnunum sem Íslendingar og Alþingi Íslendinga eiga fulltrúa á. Mér finnst nauðsynlegt vegna þess leiðtogafundar sem er fram undan að það liggi alveg ljóst fyrir hver er stefna Íslendinga og Alþingis Íslendinga um einstök atriði sem þetta varðar.

Við ræddum hér í kjölfar heimsóknar Solanas, framkvæmdastjóra NATO, í fyrra hvernig leiða ætti afstöðu Íslendinga til lykta. Hæstv. utanrrh. á þökk skilið fyrir að vera viðstadur umræðuna hér og það væri þess vegna lofsvert af honum að koma og skýra afstöðu sína til ákveðinna þátta í þessum hluta utanríkisstefnu Íslendinga sem miklu varðar. Ég hef hér áður, og við jafnaðarmenn, lýst því yfir að við erum þeirra skoðunar að það eigi að taka undir óskir Eystrasaltsþjóðanna þriggja um að þær fái sem fyrst aðild að NATO. Ég vek eftirtekt á því, herra forseti, að ég hef margsinnis lýst þessari skoðun minni og það hafa aðrir fulltrúar jafnaðarmanna gert.

Á síðasta ári hefur hins vegar mjög skýr og skelegg stefna í þessu máli af hálfu annars stjórnarflokksins komið fram. Þar á ég við að Sjálfstfl. hefur lýst því yfir hér á þessu þingi, í fjölmiðlum á Íslandi og innan Norðurlandaráðs að hann er þeirrar skoðunar að aðild Eystrasaltsþjóðanna beri að hraða sem allra fyrst. Ég spyr þess vegna hæstv. utanrrh.: Hvaða stefnu hafa Íslendingar í þessum málum? Er einhver munur á stefnu hæstv. utanrrh. í þessu efni og stefnu hæstv. forsrh.? Það liggur núna fyrir alveg skýrt að hæstv. forsrh. hefur, eins og skoðanabræður hans og -systur á vettvangi Norðurlandaráðs, uppi þá stefnu að það eigi að stuðla að því að Eystrasaltsþjóðirnar þrjár komist inn í NATO sem fyrst, að okkur beri að stuðla að því að sjálfsákvörðunarréttur þjóðanna verði þannig virtur. Ég spyr þess vegna hæstv. utanrrh.: Verður það afstaða Íslands á leiðtogafundinum í sumar að þjóðin og fulltrúar hennar muni stuðla að því með aðgerðum og í orði að þetta verði? Ég spyr líka hæstv. utanrrh.: Hvernig hyggst hann ráða til lykta afstöðu Íslendinga í þessum efnum? Hann hefur sýnt lofsvert frumkvæði að því að færa hér inn á þingið mál sem varða utanríkisstefnuna og hefur staðið sig sérlega vel við að koma að máli við utanrmn. um ýmis atriði sem þetta varðar, líka, ég tek það fram, líka varðandi þetta tiltekna mál hér.

En það vildi svo til að í umræðum í fyrra vísuðu menn til þeirra orða framkvæmdastjóra NATO í fjölmiðlum að ákvörðunin um stækkun NATO ráðist á þjóðþingum. Og það var hv. þm. Svavar Gestsson sem m.a. drap á þetta í sinni ræðu og hann reifaði ýmsar leiðir um það hvernig Íslendingar gætu lýst sinni afstöðu til þessa og hvort Alþingi Íslendinga ætti einhvern veginn að koma að því.

Hæstv. utanrrh. svaraði hv. þm. Svavari Gestssyni og ég man ekki betur en hann hafi ekki útilokað það að þetta gerðist t.d. þannig að samþykkt yrði einhvers konar þingsályktun hér sem lýsti afstöðu íslenska þjóðþingsins til þessara mála. Og ég spyr hann: Er þess að vænta að hann komi með málið einhvern veginn inn í þingið?