Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:21:20 (3214)

1997-02-06 16:21:20# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:21]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir gaman að heyra og gleður mitt hjarta að heyra réttsýni hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þegar hann lýsir framtíð Framsfl. Hann hefur mikla trú á framtíð flokksins (ÖS: Og formanninum.) og formanninum. (Gripið fram í.) Já, en menn eru stundum lengi að átta sig og lengi að finna sannleikann og ég held að það sé af hinu góða ef menn finna hann að lokum. Mér heyrist að fleiri og fleiri séu einmitt að finna þann sannleika að NATO sé jafnvel ein bestu samtök sem hafa verið til á þessu jarðríki og þeim fari mjög fjölgandi þannig að það er hið ótrúlegasta fólk sem er að finna sannleikann um gjörvalla heimsbyggðina. (SvG: Framsókn er nú betri þá.) Já, ekki ætla ég að mæla á móti því.

Ég vil aðeins segja að enginn skoðanaágreiningur er um þetta mál í ríkisstjórn Íslands. Þetta er að sjálfsögðu svo alvarlegt mál og skiptir svo miklu máli, bæði fyrir Ísland og framtíðaröryggi í Evrópu, að við verðum að fjalla um það af vandvirkni, raunsæi og fullri umhyggju. Við megum ekki gleyma því að við erum ekki einir um þessar ákvarðanir. Við verðum að taka þær í samvinnu við okkar vinaþjóðir og við höfum miklu hlutverki að gegna í því, Íslendingar og Norðurlandaþjóðirnar, að niðurstaðan verði sem hagstæðust fyrir Eystrasaltsríkin. Ég ætla mér meðan ég gegni þessu embætti að vinna að málinu í þeim anda og ég hlýt að gera það með þeim hætti sem ég trúi best að verði til þess.