Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:49:46 (3221)

1997-02-06 16:49:46# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég var að vona að við slyppum nú einu sinni í gegnum umræður um þessi mál án þess að lenda ofan í gamla (GHH: Þú skalt bara játa því.) hjólfarinu og kalda stríðinu. Það er þannig þrátt fyrir allt, herra forseti, a.m.k. er að mínu mati svo að okkur, sem búum í Evrópu, hlýtur öllum að koma öryggismálin þar við. Líf okkar allra er jafnverðmætt. Reyndar eiga skoðanir okkar allra að vera jafnverðmætar samkvæmt ýmsum sáttmálum og lögum og reglum sem undir er skrifað. En stundum finnst manni eins og einhverjir hafi tekið sér vald til að dæma um það að sumar skoðanir séu eitthvað réttlægri en aðrar af því að þeim falla þær ekki í geð eða þær kunna að vera í minni hluta þá og þá með þjóðum. Mér finnst auðvitað heldur leiðinlegt að ræða málin undir þeim formerkjum.

Já, ég er þeirrar skoðunar að það væri langbest fyrir öryggi í Evrópu og í heiminum að leysa upp hernaðarbandalögin og byggja öryggisskipan heimsins á öðrum alþjóðlegum, lýðræðislegum grunni (Gripið fram í.) en ekki á --- já, það er og hefur verið mín stefna. Á meðan NATO er hernaðarbandalag sem byggir á því að beita t.d. kjarnorkuvopnum að fyrra bragði í styrjöld þá get ég ekki sætt mig við aðild að því. Ég held að því miður sé það að mörgu leyti arfur frá liðinni tíð sem við erum að dragnast með okkur inn í framtíðina. Langbest hefði verið fyrir Evrópu að bæði hernaðarbandalögin hefðu verið leyst upp samtímis og í staðinn hefðu verðið efldar stofnanir sem tóku til Evrópu allrar. Það sem er auðvitað langmikilvægast að gera upp á framtíðaröryggishagsmuni Evrópu og heimsins yfirleitt er að afvopna heiminn. Það er að eyða sem mestu af tortímingar- og gereyðingarvopnunum og færa öryggisskipan yfir í varnaraðgerðir en ekki árásaraðgerðir. Það þarf að koma á samningum um vopnaviðskipti og annað því um líkt sem enn hefur ekki tekist m.a. vegna þess að menn eru ýmist af viðskiptalegum ástæðum eða hernaðarlegum allt of bundnir hinum gamla hugsunarhætti. Þar sem vopnin hlaðast upp þá segir sagan okkur að tilhneigingin sé sú að þau verði notuð á endanum og þá verða einhver fórnarlömb. Þannig er það. Ég held þess vegna að við ættum að reyna að ræða þetta mál á málefnalegum og rólegum nótum og virða skoðanir hvers annars. Og þó að við höfum mismunandi sjónarmið á því hvernig eigi að tryggja öryggi þá hljótum við að minnsta kosti að geta verið sammála um að við viljum öll öryggi og frið.