Framlag til þróunarsamvinnu

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 17:19:59 (3230)

1997-02-06 17:19:59# 121. lþ. 64.10 fundur 103. mál: #A framlag til þróunarsamvinnu# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[17:19]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir orð hans hér og að vissu leyti undirtektir við tillöguna og kom svo sem ekki á óvart að hæstv. ráðherra vill að sjálfsögðu veg okkar meiri en hann er í þessum efnum. Það held ég að allir hljóti að gera sem þekkja til frammistöðu okkar á þessu sviði.

Þrátt fyrir að segja þetta, og vísa ég þá að sjálfsögðu til fjárveitinganna en ekki þess sem við höfum verið að reyna að gera fyrir það takmarkaða fé, þá tek ég einmitt undir það að ég held að reynslan af þeim verkefnum sem Íslendingar hafa sinnt gefi síður en svo tilefni til þess að ætla annað en að við getum með fullum sóma teflt því fram sem við höfum verið að leggja af mörkum. Gallinn er bara sá að það er of lítið. Við höfum lagt of litla fjármuni í þetta, langt, langt undir því sem við ættum að gera hlutfallslega miðað við ríkidæmi þjóðarinnar. Það er t.d. alveg ljóst að við getum aðstoðað fjölmargar þjóðir við nýtingu á sjávarauðlindum sínum og við veiðiskap og það er held ég engin deila um að þar hafa Íslendingar staðið sig vel og lagt heilmikið af mörkum við uppbyggingu og þróun á fjölmörgum svæðum.

Það vekur líka athygli þegar maður skoðar hverjir hafa tekið þátt í þessum verkefnum fyrir Íslands hönd að það virðist ekki vera neinn skortur á mjög miklu hæfileikafólki og vel menntuðu til þess að verja jafnvel árum af ævi sinni í einmitt slík störf og búa jafnvel við mjög erfiðar aðstæður og kröpp kjör að ýmsu leyti árum saman, í raun og veru af hugsjón í þessu sambandi. A.m.k. þykist ég geta borið um það að af þeim sem ég þekki og hafa sinnt störfum að þessum málum, bæði fiskifræðingar, mannfræðingar, skipstjórnarmenn og ýmsir slíkir, þar hefur mjög margt hæfileikafólk átt í hlut. Því hefur staðið allar dyr opnar en það hefur eftir sem áður valið að verja hluta ævi sinnar í raun og veru af hugsjónar- og mannúðarástæðum í þessi verk.

Það má að sjálfsögðu alltaf deila um hvernig tekjuöflun væri skynsamlegust í þessu sambandi og út af fyrir sig gæti ég alveg tekið undir það að ef pólitískur veruleiki gæfi manni einhverja trú á að við næðum að hækka þessi framlög án eyrnamerktra tekjustofna, þá væri ég að sjálfsögðu alveg sammála því og hlynntastur því að það væri gert, ósköp einfaldlega með beinum hækkunum fjárframlaga úr ríkissjóði á grundvelli hins almenna tekjuöflunarkerfis. En það er bara ekki pólitískur veruleiki og pólitískt raunsæi sem segir mér að líklegra sé að við náum þessu hlutfalli eitthvað upp á við með sérstakri tekjuöflun. Ég held líka að hvað sem öllum prinsippum líður og skattapólitík að þjóðin mundi í raun og veru skilja það mjög vel og taka því vel að þarna yrði farið út í einhverja sérstaka tekjuöflun, sérstaklega ef menn hefðu á tilfinningunni að þar væri verið að reyna að leita sæmilega réttlátra eða sanngjarna leiða við að dreifa þeim byrðum. Þess vegna var lagt til, við getum sagt sem sýnishorn, að þetta yrði gert í formi sérstaks álags á hátekjuskatt einstaklinga, þ.e. hátekjufólksins, og álags á tekjuskatt af hagnaði fyrirtækja. Ég minni á í því sambandi vegna orða hæstv. ráðherra að búið er að lækka tekjuskattsprósentu fyrirtækjanna mjög myndarlega hér á undanförnum árum eða úr 45% eins og hún var í um nokkurt skeið og niður í 33%. Ég held að miðað við afkomu þeirra margra og stöðu ætti ekki að vera nein frágangssök að þau legðu eitthvað meira af mörkum.

Það er að sjálfsögðu alveg ljóst að utanrrn. sem slíkt getur ekki sparað neinar þær fjárhæðir úr rekstri sínum að um þær dragi eitthvað í þessum efnum. Mér er það alveg ljóst og er í sjálfu sér ekki að gera neinar tillögur um slíkt. Þó svo að menn gripu til þess ráðs að loka eins og einu sendiráði á Norðurlöndunum eða eitthvað í þeim dúr þá mundi það ekki skipta miklu í þessu sambandi. Þar eru líka ýmis ný verkefni sem mikil þörf er á við getum sinnt, t.d. að gæta hagsmuna okkar í fjarlægum heimsálfum eins og Asíu þar sem viðskiptahagsmunir okkar eru mjög vaxandi.

Ég vona sem sagt, herra forseti, að hv. utanrmn. taki þessa tillögu til vandaðrar skoðunar og vísa í það sem ég hef sagt um það efni og líka í orð hæstv. utanrrh. sem er því sammála að þingið þurfi að taka sér tak í þessum efnum. Ég tel að mörgu leyti eðlilegt að utanrmn. vísi því til efh.- og viðskn. að fjalla sérstaklega um tekjuöflunarþáttinn. Ef vilji væri til þess að skoða það mál, þá gæti það sem best gerst í góðu samstarfi nefndanna.

Það er að lokum alveg rétt sem hæstv. utanrrh. var að segja að þinginu er það ekki vansalaust, það er ekki vansalaust fyrir Alþingi að láta málið standa eins og það stendur því að í gildi er afdráttarlaus samþykkt Alþingis á grundvelli tillögu sem var flutt sameiginlega af utanrmn. á síðasta áratug um að stórhækka þessi framlög. Sú samþykkt er í fullu gildi, herra forseti, og það er okkur öllum til vansa að láta málin standa eins og þau standa. Þingið verður að lokum að gera það upp við sig hvort pólitískur vilji er fyrir hendi til þess að auka þessi framlög eða ekki og fella þá frekar þessa samþykkt úr gildi ef það er orðin niðurstaða manna að menn séu svo aumir hér uppi á Íslandi að þeir ætli einir velmegunarþjóða að skorast algjörlega úr leik þegar að því kemur að leggja bágstöddum meðbræðrum annars staðar í heiminum lið.

Ríkisendurskoðun hefur nýverið gagnrýnt Alþingi og ríkisstjórnir fyrir það að hafa veitt fjármuni til hafnarframkvæmda án þess að hafnaráætlanir hafi verið samþykktar af Alþingi en má þá ekki líka snúa því við og spyrja: Er ekki jafnámælisvert að standa þá ekki við þær ályktanir sem hafa verið samþykktar afdráttarlaust? Vill ekki Ríkisendurskoðun líta á hvort það sé til fyrirmyndar að samþykkja slíkar ályktanir og gera síðan ekkert með þær? Auðvitað má segja að þingið ákveði sjálft að ómerkja þær hverju sinni við afgreiðslu fjárlaga. En eftir stendur að það á ekki að láta almennar samþykktir sem eru stefnumótandi og bindandi að þessu leyti vera í gildi ef ekkert er gert með þær ár eftir ár.

Herra forseti. Ég vonast sem sagt til þess að þessi tillaga nái tilgangi sínum sem er fyrst og fremst sá að koma þessum málum á einhverja hreyfingu á nýjan leik.