Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 13:36:05 (3268)

1997-02-11 13:36:05# 121. lþ. 66.3 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., StG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[13:36]

Stefán Guðmundsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Vegna þeirra orða sem hér féllu hjá hv. þm. Svavari Gestssyni vil ég segja að við héldum fund í iðnn. þingsins um þessi mál og til fundarins mætti ráðuneytisstjóri í iðnrn. Einnig komu á fund okkar fulltrúar frá Ríkisendurskoðun og borgarstjórinn í Reykjavík sem fór yfir þetta mál með okkur vegna þeirra umræðna sem hér höfðu orðið um málið, gagnlegra umræðna og ítarlegra. Eftir það hafa málin skýrst. Ég ætla ekki að fara yfir það mál nú. Nefndarmönnum var afhent sú yfirlýsing sem þar lá fyrir sem trúnaðarskjal. Mér urðu það hins vegar vonbrigði, og er rétt að taka það fram hér, að eitt af því fyrsta sem fréttamenn sýndu mér þegar þeir báðu mig að tjá mig um málið var sú yfirlýsing sem ég hafði afhent nefndarmönnum mínum sem algjört trúnaðarskjal. Ég ætla þess vegna ekki að ræða það hér og nú en ég mun gera það síðar þegar þetta mál kemur til 3. umr.