Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 13:43:37 (3275)

1997-02-11 13:43:37# 121. lþ. 66.3 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[13:43]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég verð að segja það eins og er að mér finnast þetta vera afar furðulegar aðstæður sem uppi eru hér við afgreiðslu þessa máls. Ég held að illu heilli hafi þá 2. umr. verið lokið. Það var greinilega ótímabært að ljúka þeirri umræðu í ljósi þess sem síðar hefur gerst. Mér finnast það að mörgu leyti eðlilegar óskir að atkvæðagreiðslan fari ekki fram fyrr en þessi mál hafa verið betur skýrð. (Gripið fram í.) Það er hægt að fresta því að láta atkvæðagreiðsluna fara fram þó að 2. umr. sé lokið, er það ekki satt? Mér finnst það nokkuð sérkennilegt hvernig formaður iðnn. kemur hér upp og ber ónafngreinda félaga sína í nefndinni þungum sökum og fer satt best að segja með mjög sérkennilegar ræður. Er eitthvað í efni þessa máls að það þoli ekki dagsbirtuna? Er það það sem formaður iðnn. er að segja? Að það hafi þurft að pukrast þannig með þetta mál að það sé sérstakur glæpur að fjölmiðlar fái veður af því sem þar er á ferðinni, þessu svokallaða samkomulagi eða bókun eigendanna?

Auk þess kemur það hér fram, herra forseti, og munar nú um minna að það virðist vera grundvallarágreiningur milli borgarstjórans í Reykjavík og iðnrh. Þeir lesa í þetta samkomulag alveg í 180°. Annar fullyrðir að fyrst eigi að lækka rafmagnið og síðan borga úr arð en hinn mótmælir því og segir að samkomulagið haldi, fyrst eigi að borga út arðinn og svo eigi að sjá til með að lækka raforkuverðið. Ég segi það alveg eins og er, herra forseti, að mér finnst forseti kjarkmikill, og auðvitað er hann það, ef hann ætlar að láta sig hafa það að láta atkvæðagreiðsluna fara fram engu að síður í ljósi þess hvernig staðan er.