Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 13:59:49 (3284)

1997-02-11 13:59:49# 121. lþ. 66.3 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[13:59]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér hefur það gerst að þeir, sem í orði segja að lækkun á orkuverði eigi að ganga fyrir arðgreiðslum, fella tillögur þar að lútandi og ætla að staðfesta hér með þeirri afgreiðslu mála og samþykkt þessarar greinar sem við greiðum atkvæði um hver stefnan er í þessum efnum. Þetta er eitthvert alvarlegasta mál sem komið hefur upp á Alþingi um langan tíma gagnvart jafnræði í landinu. Hér er vegið að þessu meginorkuframleiðslufyrirtæki landsmanna, Landsvirkjun, með því að ætla henni að vera þátttakandi í þeirri stefnu sem hér á að lögleiða.

En ekki eru öll kurl komin til grafar því að í nefndaráliti meiri hluta iðnn. er það boðað, sem raunar hefur heyrst frá hæstv. iðnrh., (Forseti hringir.) að senn komi inn í þingið frekari tillögur varðandi orkumál sem eigi að innleiða samkeppni á sviði orkumála í landinu og þá fara menn náttúrlega að skilja að það sé hik á stjórnarliðum að ætla að lögfesta hér lækkun á raforkuverði eftir aldamót.