Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 14:01:22 (3285)

1997-02-11 14:01:22# 121. lþ. 66.3 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., EKG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:01]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það sem í upphafi virtist vera meginatriði málsins þegar samningurinn var kynntur var útborgun arðs. Nú liggur það fyrir með yfirlýsingu hæstv. iðnrh., með skírskotun í tiltekið samkomulag, að þetta verði víkjandi atriði, klárlega víkjandi atriði. Það verði ekki greiddur út arður nema áður sé búið að tryggja raunlækkun orkukostnaðar um 2--3% á ári eftir árið 2000. Það er á hinn bóginn ljóst að eiginfjármögnunin hjá Landsvirkjun hefur gerst í ljósi óeðlilegra taxta. Gjaldskrá Landsvirkjunar hefur legið langt fyrir ofan langtímajaðarkostnað orkuverðs frá nýjum virkjunum og er nú talin 50% hærri en eðlilegt væri að öðru leyti. Þetta er hin raunverulega ástæða fyrir hinni öru eiginfjármyndun fyrirtækisins. Með skírskotun til þessa greiði ég ekki atkvæði um þessa grein.