Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 14:15:45 (3294)

1997-02-11 14:15:45# 121. lþ. 66.3 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:15]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Hér er gerð úrslitatilraun til að tryggja það markmið sem menn þykjast hafa í þessu máli, og er hér flutt tillaga sem er á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Við efnismálsgrein 8. gr. bætist nýr málsliður er orðist svo: Við verðákvarðanir skal fylgja þeirri stefnu sem kveðið er á um í samningi eignaraðila um breytingu á sameignarsamningi aðila frá 28. október 1996.``

Ég tel það satt að segja alveg ótrúlega meinbægni ef ekki má í þessari grein vitna í sameignarsamning eignaraðila sem menn í orði kveðnu eru að hæla eins og hæstv. iðnrh., og hv. formaður Alþfl. gengur sérstaklega fram í að hæla í þessari atkvæðaskýringu. Það er því athyglisvert ef stjórnarliðið telur sig nauðbeygt til að hafna tillögu af þessu tagi. En enn þá sérkennilegra er það, herra forseti, ef stjórnarandstæðingar sjálfviljugir ganga undir það jarðarmen.