Afgreiðsla frumvarps um Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 14:26:16 (3301)

1997-02-11 14:26:16# 121. lþ. 66.96 fundur 183#B afgreiðsla frumvarps um Landsvirkjun# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:26]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég óska eftir því að hæstv. forseti rökstyðji það hvers vegna þörf er á slíkum asa við afgreiðslu þessa máls. Fyrir okkur hv. þingmenn, sem ekki eigum þess kost að vera svo gæfusamir að sitja á hinum sérstöku samkomulagsfundum, þá finnst mér skorta öll rök fyrir því að það þurfi í miðri þingviku við þær aðstæður sem uppi eru almennt í þingstörfunum að grípa til afbrigða til að koma þessu máli til 3. umr. og jafnvel atkvæðagreiðslu, ef það er ætlunin, á einum og sama sólarhringnum. Mér sýnist þvert á móti að allt sem hér hefur komið fram í málinu t.d. í dag um leynisamkomulag, sem er lagt til grundvallar afstöðu manna en má þó ekki segja frá og fleira í þeim dúr, kalli nú frekar á hið gagnstæða, að mönnum gefist einhver tími milli umræðna til að athuga málið. Það væri lágmark að iðnn. tæki þetta mál aftur til sín og þetta samkomulag yrði gert opinbert og lægi fyrir í einn sólarhring eins og önnur þingskjöl, eða hvað? Er þetta ekki grundvallarplagg í málinu? Það hefði því auðvitað átt að birtast í nefndaráliti og liggja hér fyrir. Ég óska eftir því að hæstv. forseti upplýsi hvað liggur á í málinu. Eru einhver ósköp að gerast í nótt eða á morgun sem kalla á að hraða verði málinu? Eða eru það eingöngu pólitísk rök eða ástæður sem ráða því að forseti velur að standa svona að málum? Er þrýstingur frá hæstv. ríkisstjórn, sem finnst óþægilegt að hafa það opið og pínir fram að svona sé að verki staðið?

Ég mótmæli þessu, herra forseti. Ég tel þetta óeðlileg vinnubrögð, ég verð að segja það. Ég hefði talið að forseti ætti við þessar aðstæður að skoða hug sinn. Hvað sem líður einhverju sem sagt var í gær í ljósi nýrra aðstæðna sem uppi eru í dag væri eðlilegast að þessi umræða færi ekki fram og mönnum gæfist meiri tími til að skoða málið.