Staða þjóðkirkjunnar

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 15:43:39 (3314)

1997-02-11 15:43:39# 121. lþ. 66.4 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[15:43]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er afar mikilvægt og tekur á málefnum þjóðkirkjunnar. Má segja að ef það næði fram að ganga á hv. Alþingi, þá yrðu það nokkur tímamót.

Ég vil í upphafi taka fram vegna þeirra umræðna sem hafa verið hér á undan um nefndarskipan til að undirbúa frv., að við tveir hv. þingmenn, ég og Hjálmar Jónsson, komum að þessu á lokastigi þegar frv. hafði verið lengi í undirbúningi, til þess að koma því í þann búning sem það er hér, að undanteknum fjármálakafla frv. eða fjárhagsmálefnum þess. Við fjölluðum lítið um þann kafla í nefndinni sem við áttum sæti í, en ég læt að sjálfsögðu viðkomandi ráðherra eftir að útskýra hvernig nefndin var skipuð. Ég fór í þessa nefnd samkvæmt beiðni þingflokks míns. Ég hef ekki gert uppreisn í því efni og mér er efst í huga í því sambandi, af því að þetta mál berst í tal, skipun nefnda til undirbúnings frumvarpa sem lögð eru fram á hv. Alþingi, hvort við þingmenn eigum yfirleitt að taka sæti í slíkum nefndum, hvort við eigum ekki að koma að þessum málum frá þinginu án þess að vera búnir að taka þátt í undirbúningi þeirra. Það er vissulega lærdómsríkt að taka þátt í honum, en ég vil taka fram í þessu sambandi að ég hef að sjálfsögðu alla fyrirvara um að ég á eftir að koma að þessu máli sem þingmaður. Og ég hef ekki bundið mig að neinu leyti í þessu máli þó að ég hafi tekið þátt í undirbúningi þess á vegum þingflokks míns. Ég vil að það liggi alveg ljóst fyrir.

Hv. 8. þm. Reykv. beindi nokkuð orðum sínum til okkar nefndarmanna og ég tel auðvitað heiður að því. Ég vil taka fram að það er auðvitað viðkomandi ráðherra sem leggur þetta frv. fram og við höfum aðstoðað hann í því.

Það má segja að þetta frv. taki á þremur stórum meginatriðum sem sum hafa verið rakin hér og minnst hefur verið á. Í frv. er mjög veigamikill kafli um úrlausn ágreiningsmála sem upp koma í starfi kirkjunnar og skýrari reglur um úrræði í slíkum tilvikum. Gert er ráð fyrir að úrskurðarnefnd starfi samkvæmt 11. gr. frv. Hún hefur nokkuð ítarlega sundurgreint verksvið samkvæmt lögunum. Gerð er grein fyrir því nokkuð nákvæmlega.

Í öðru lagi er áfrýjunarnefnd, samkvæmt 12. gr., og síðan kenningarnefnd til að fjalla um kenningar kirkjunar. Ég tel að þessi kafli sé afar mikilvægur og að hann muni auðvelda kirkjunnar mönnum að taka á erfiðum ágreiningsmálum og styrkja stöðu kirkjunnar í samfélaginu sem full þörf er á.

Varðandi 1. gr. frv., ég les hana mínum skilningi eftir orðanna hljóðan, en þar er sú viljayfirlýsing að styrkja stöðu þjóðkirkjunnar og styðja hana, en segja má að sterkar sé til orða tekið heldur en í stjórnarskránni sem kveður á um að vernda þjóðkirkjuna. Þarna er sterkt til orða tekið en ég styð það orðalag.

Í öðru lagi er tekið í frv. á breyttri skipan kirkjuþings og þar eru áhrif leikmanna aukin. Þetta tel ég að sé í takt við breytt viðhorf og tíðarandann og það sé einnig til styrktar þjóðkirkjunni að auka áhrif leikmanna á starf hennar. Gert er ráð fyrir því. Og þar er einnig komið inn á hlutverk biskups Íslands, en hann hefur verið fundarstjóri á kirkjuþingi og undirbúið málefni þess. Hann er losaður undan því. Ég tel það til bóta og í engu er kastað rýrð á embætti hans sem æðsta yfirmanns kirkjunnar þó að þessi háttur sé hafður á. Ég tel að þetta geti orðið til þess að staða hans sem trúarleiðtoga, sem æðsta yfirmanns í trúarlegum efnum styrkist. Biskupinn er einnig formaður kirkjuráðs þannig að staða hans innan þjóðkirkjunnar er ótvíræð þó að leikmenn fái þetta aukna hlutverk í starfi kirkjuþings.

Tekið er á reglum varðandi ráðningu presta með tilliti til breyttra aðstæðna. Ég mun koma að því nánar síðar.

Nokkuð hefur verið talað um sjálfstæði kirkjunnar, en hún fær samkvæmt frv. aukið svigrúm til að stjórna sínum málum, sbr. 49. gr. um sóknir, prestaköll og prófastsdæmi. Ég heyri að hv. 8. þm. Reykv. finnst ekki nógu langt gengið í þessum efnum, hann vill hafa sjálfstæði kirkjunnar meira. Ég tók það ekki svo að hann væri að mæla fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju, en hins vegar að þessi löggjöf ætti að þjóna sem rammalöggjöf í ríkari mæli en hún gerir. Ég ber fulla virðingu fyrir þeirri skoðun. Hún hefur verið rædd, var rædd ítarlega í starfi nefndarinnar, en ég undirstrika að þetta frv. var samkomulag og byggist á samkomulagi og umfjöllun kirkjuþings og víðtæku samráði. Þetta er því afurð, ef svo má segja, eftir það samráð. Auðvitað verður Alþingi að vanda sína þinglegu meðferð á þessu frv. og ræða þessi sjónarmið ítarlega, kalla á ráðgjöf í því sambandi og umsagnir. Ég ætla ekki að leggjast í neina nauðaleit að ákvæðum í frv. sem mættu detta út í krafti þessa. Ég vil skoða þetta mál í nefnd og hlusta á sjónarmiðin um hvort hér sé of langt gengið í að segja fyrir um starfsemi kirkjunnar í lögum.

Varðandi 39. gr. um val á prestum til þjónustu í kirkjunni, þá hefur verið mjög mikið fjallað um það mál, m.a. á kirkjuþingi, en mér er fullljóst að um það eru skiptar skoðanir. Nefndin féllst á og tók þá ákvörðun að láta þetta ákvæði fara eins og það stendur í frv. Þar er gert ráð fyrir að embætti sóknarprests sé veitt með setningu í eitt ár og að skipað skuli í embættið ótímabundið að þeim tíma liðnum, nema meiri hluti kjörmanna prestakallsins sé sammála um að óska þess að biskup Íslands auglýsi embættið að nýju. Hér vilja margir að samræmi sé í þessum ráðningum og í öðrum opinberum störfum, að eftir fimm ár sé ráðningartíminn útrunninn. Það verður einnig að fara mjög rækilega yfir þetta mál í nefnd og kalla eftir umsögnum um það. Þetta fyrirkomulag er sett fram í ljósi þess að í 11. gr. eru ákvæði um úrskurðarnefndir í ágreiningsmálum sem upp koma og nefndin áleit að þetta væri stórt skref fram á við frá því fyrirkomulagi sem gildir nú. Hins vegar er mér kunnugt um að um þetta eru skiptar skoðanir, bæði hér á Alþingi og úti í þjóðfélaginu. Alþingi verður því að vanda yfirferð á þessari grein, hlusta á rök og gagnrök og meta málið í ljósi þeirra.

Eins og ég sagði upphaflega höfum við ekki fjallað sérstaklega um fjármálalegu hliðina í þeirri nefnd sem undirbjó frv. eftir að ég kom í hana. Hún var það samkomulag sem fylgir frv. og var gerð eftir starf annarrar nefndar en við áttum sæti í. En þar er gert samkomulag um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar. Ég er samþykkur þessum atriðum í megindráttum. Ég held hins vegar að skoða þyrfti nánar nokkur atriði í þessum fjármálalegu samskiptum og vitna þá í þá umsögn sem er við frv. frá fjmrn. þar sem segir, að óljóst sé hvernig fara skuli með önnur rekstrargjöld biskupsstofu en laun o.s.frv. Ég held að það sé öllum fyrir bestu að um þetta gildi skýrar viðmiðanir. Ég er að mörgu leyti sammála því sem kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv. að hér ætti að ákveða viðmiðanir og kirkjan hefði svo svigrúm til þess að ráðstafa þeim fjármunum.

Ég hef auðvitað aðstöðu til þess sem nefndarmaður í allshn. að óska eftir nánari yfirferð á þessum atriðum. Ég tel til bóta að hér gildi um sem skýrastar reglur á fleiri sviðum heldur en varða laun presta og ákveðins fjölda starfsmanna biskupsstofu. Það sé best fyrir báða aðila, bæði ríkisvaldið og þjóðkirkjuna.

Ég tel að hlutverk kirkjunnar í íslensku þjóðfélagi verði seint ofmetið. Ég er stuðningsmaður þess að kirkjan sé þjóðkirkja. Ég er ekki stuðningsmaður aðskilnaðar ríkis og kirkju. Ég tel að ef þarna væri skilið á milli, þá mundi trúarlegt starf í landinu færast út í einkarekna söfnuðinn og ég hef ekki trú á að það væri til góðs fyrir trúarlíf landsmanna. Ég er fylgjandi því að um samskipti ríkisvalds og kirkju gildi skýrar reglur, kirkjan aðlagi sig að nútímaþjóðfélagi eins og unnt er án þess að tapa ímynd sinni sem þáttur í þjóðmenningunni. En ég er ekki reiðubúinn að breyta sambandi ríkis og kirkju í grundvallaratriðum.

Ég geri mér að sjálfsögðu ljóst að það er trúfrelsi í landinu samkvæmt stjórnarskrá og þessi afstaða mín hefur ekkert með það að gera. Þeir sem eru ekki í þjóðkirkjunni hafa fullan rétt og trúarskoðanir forseta Íslands, hver sem hann er á hverjum tíma, finnst mér ekki eiga mikið erindi inn í þessa umræðu. Forseti Íslands hefur að sjálfsögðu sinn rétt til að hafa þær trúarskoðanir sem honum sýnist í landi þar sem trúfrelsi ríkir. Það hefur ekkert með samband ríkis og kirkju að gera.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég hef aðstöðu til þess að vinna að þessu máli í allshn. Ég held að það sé áríðandi að þessi löggjöf fái mjög vandaða meðferð á Alþingi eins og önnur mál. Þetta er afar mikilvæg löggjöf. Það er mjög mikilvægt að þjóðkirkjan hafi skýra löggjöf til þess að starfa eftir. Það er afar mikilvægt að svigrúm hennar og sjálfstæði sé aukið án þess að rjúfa tengslin við ríkisvaldið. Þetta frv. gerir ráð fyrir slíku.