Staða þjóðkirkjunnar

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 17:01:10 (3317)

1997-02-11 17:01:10# 121. lþ. 66.4 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[17:01]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka alveg ágæta ræðu og gladdist í hjarta mínu yfir því hversu vel hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hefur kynnt sér málið og vildi óska þess að hún væri enn þá virkari en hún er í kirkjulegu starfi í landinu.

Það er reyndar af svo mörgu að taka í andsvari að það er varla hægt að koma því á framfæri. En nefndarskipanin varðandi kristnihátíðarnefnd sem allir hafa nefnt endurspeglar einmitt þjóðfélagið. Hún endurspeglar það að þessir ágætu menn, þessir karlar, voru skipaðir. Þeir settu sig ekki sjálfir í stöðurnar heldur voru þeir skipaðir í þær. Ég er hins vegar sammála því að það er ástæða til að gera þarna breytingu á og þyrfti að vera hægt að koma því svo fyrir.

Mig langar að spyrja hv. þm. um hvað hún eigi við með aðskilnaði ríkis og kirkju og eins með vísan til aðskilnaðar ríkis og kirkju í Svíþjóð því mér er kunnugt um að aðskilnaður ríkis og kirkju í þar er ekk eins langt kominn og á Íslandi.

Þá vil ég einnig geta þess að prestskosningarnar eru ekki niður lagðar í raun og veru eins og þingmaðurinn hélt fram. Hins vegar er meginreglan sú að kjörmenn velja úr hópi umsækjenda þann er gegna skuli kallinu. Kjörmenn eru sóknarnefndarmenn og varamenn þeirra og þeir kjósa fyrir hönd safnaðarins. Þannig fækkaði reyndar í hópi þeirra sem höfðu atkvæðisrétt til þessa valds. Það er rétt en ekki þannig að söfnuðurinn komi ekki áfram að vali á sóknarpresti.

Varðandi djáknana, flest orkar tvímælis þá gert er. Ég fagna því að þeir koma til starfa og það er feikinóg að gera og starfa innan kirkjunnar fyrir miklu fleiri. Ég undrast það hins vegar svolítið, herra forseti, að annars vegar vill hv. þm. skýrari lög um sóknarnefndir, kirkjusóknir, héraðsfundi og fleira sem fellt er brott að mestu leyti en hins vegar að kirkjan ráði meiru sjálf. Meiningin er nefnilega sú að kirkjuþing kemur til með að setja þessar reglur og þar með er sjálfstæði kirkjunnar aukið vegna þess að kirkjan og hennar stjórnvald fær möguleikann á að stjórna þessu sjálf.