Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 17:14:31 (3320)

1997-02-11 17:14:31# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta StG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[17:14]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir frhnál. meiri hluta iðnn. um Landsvirkjun. Það hljóðar svo:

,,Nefndin hefur fjallað á ný um málið eftir 2. umr. og fengið á sinn fund Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra, Halldór J. Kristjánsson, ráðuneytisstjóra í iðnaðarráðuneytinu, Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda og Lárus Ögmundsson, skrifstofustjóra í Ríkisendurskoðun.

Meiri hlutinn leggur til að gerðar verði tvær breytingar á frumvarpinu.

Í fyrsta lagi að við 8. gr. frumvarpsins bætist ákvæði er taki af öll tvímæli um að ákvæði samkeppnislaga eigi við um alla þætti í rekstri Landsvirkjunar.

Í öðru lagi telur meiri hlutinn eðlilegt, með vísan til þeirrar meginreglu að Ríkisendurskoðun annist endurskoðun reikninga fyrirtækja sem ríkissjóður á að hálfu eða meira, að stofnunin tilnefni endurskoðendur Landsvirkjunar, í samráði við borgarendurskoðun Reykjavíkur og endurskoðanda Akureyrarbæjar. Nefndin leggur því til að ársfundur Landsvirkjunar kjósi endurskoðendur fyrirtækisins samkvæmt sameiginlegri tillögu Ríkisendurskoðunar, borgarendurskoðunar Reykjavíkur og endurskoðanda Akureyrarbæjar.

Meiri hluti iðnaðarnefndar telur jafnframt eðlilegt að Ríkisendurskoðun hafi heimild til þess að gera stjórnsýsluendurskoðun á fyrirtækjum sem ríkið á meiri hluta í, líkt og er um Landsvirkjun. Til þess að svo megi verða með óyggjandi hætti þarf að breyta 9. gr. fyrirliggjandi frumvarps til laga um Ríkisendurskoðun, 262. mál, og kveða þar sérstaklega á um stjórnsýsluendurskoðun hjá fyrirtækjum sem ríkið á meiri hluta í en Ríkisendurskoðun annast ekki fjárhagsendurskoðun hjá vegna ákvæða í sérlögum. Meiri hlutinn áréttar þessa tillögu um breytingu á 262. máli (Ríkisendurskoðun) og vísar henni til þeirrar nefndar sem fjalla mun um frumvarpið.

Eignaraðilar Landsvirkjunar hafa gert sameiginlega bókun, dags. 10. febrúar 1997, þar sem fram kemur að þeir eru ásáttir um að styðja þær breytingar sem meiri hluti iðnaðarnefndar leggur til að gerðar verði á frumvarpinu. Jafnframt kemur fram í bókuninni að eignaraðilarnir séu sammála um eftirfarandi varðandi arðgreiðslur og gjaldskrármarkmið:

,,1. Frá stofnun Landsvirkjunar hefur verið ákvæði um arðgreiðslur til eigenda af sérstökum eiginfjárframlögum og Landsvirkjun hefur í nokkur skipti greitt arð til eigenda sinna. Þetta ákvæði er nú í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun.

2. Núverandi samkomulag ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar felur í sér málamiðlun um arðgreiðslur til eigenda. Sammæli er um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót með þeim hætti sem samkomulagið gerir ráð fyrir.`` --- Ég ætla að endurtaka það sem hér segir vegna þess hversu það hefur verið í umræðunni síðustu daga og í dag: ,,Sammæli er um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót með þeim hætti sem samkomulagið gerir ráð fyrir.`` --- Og hverju gerir samkomulagið ráð fyrir? Það gerir ráð fyrir því að orkuverð skuli lækka um 2--3% eftir árið 2001--2010. Hér er það einmitt staðfest, sem hefur verið haldið fram í umræðu um þetta mál frá upphafi, að arðgreiðslurnar séu víkjandi fyrir lækkun orkuverðs.

,,3. Endanleg ákvörðun um arðgreiðslur verður tekin af eigendum á ársfundi Landsvirkjunar og verður þá höfð hliðsjón af raunverulegri afkomu fyrirtækisins. Verði verulegar breytingar á rekstrarforsendum mun það hafa áhrif á endanlega ákvörðun eigenda um arðgreiðslur á viðkomandi ári.``

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Guðný Guðbjörnsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er sammála áliti þessu og þeim breytingartillögum sem lagðar eru til.``

Undir nefndarálitið skrifa Stefán Guðmundsson, sem er formaður nefndarinnar, Guðjón Guðmundsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Sigríður A. Þórðardóttir, Árni R. Árnason, Sighvatur Björgvinsson, Hjálmar Árnason og Pétur H. Blöndal.

Ég veit ekki hvort ég þarf að hafa um þetta fleiri orð nú í upphafi. Sjálfsagt munum við eiga eftir að ræða þetta frekar, en hér eru tekin af ákveðin vafaatriði má segja sem hv. þingmenn drógu í efa að væri fullkomlega tryggilega gengið frá og ég vona að meiri hluti þingmanna sætti sig við þau sjónarmið. Ég held að sú yfirlýsing sem hér er vitnað til og liggur fyrir frá eignaraðilum fyrirtækisins eigi að tryggja það að svo verði.

Það segir svo í þessum brtt. er lýtur að Ríkisendurskoðun:

,,Við 3. efnismgr. 7. gr. bætist: samkvæmt tillögu Ríkisendurskoðunar, borgarendurskoðunar Reykjavíkur og endurskoðanda Akureyrarbæjar.``

Í 7. gr. frv. stendur: ,,Ársfundur Landsvirkjunar kýs löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til að endurskoða reikninga fyrirtækisins.`` Og samkvæmt brtt. okkar bætist við málsgreinina: ,,samkvæmt tillögu Ríkisendurskoðunar, borgarendurskoðunar Reykjavíkur og endurskoðanda Akureyrarbæjar.

Hin brtt. er við 8. gr. og hljóðar svo:

,,Við efnismgr. 8. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði samkeppnislaga gilda um Landsvirkjun. ``

En í frv. segir svo um þetta atriði í 8. gr.:

,,1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:

Stjórn Landsvirkjunar setur gjaldskrá fyrir Landsvirkjun.`` Og samkvæmt brtt okkar bætist við: ,,Ákvæði samkeppnislaga gilda um Landsvirkjun.``

Þarna er tekinn af allur vafi um þetta efni. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ræddi þessi mál ítarlega við upphaf umræðu um þetta mál. Eins og ég sagði held ég að tryggilega sé gengið frá þessu þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa um það. Vissulega hef ég fullyrt að þetta væri svona. En ég er auðvitað enn sáttari við það að nú skuli vera búið að binda þetta á þennan hátt þannig að menn ættu ekkert að þurfa að vera að velkjast í vafa hver stefnan er.

Ég vil aðeins koma að því í sambandi við þessar arðgreiðslur sem mikið eru ræddar og mér finnst að mörgu leyti að menn fjalli ekki um af mikilli sanngirni. Mér finnst nefnilega eins og menn vilji láta að því liggja að þessar arðgreiðslur sem úr fyrirtækinu eru greiddar til eigenda fyrirtækisins falli til einhvers þröngs félags eða ákveðinna einstaklinga í þjóðfélaginu. En svo er alls ekki. Arðgreiðslurnar falla til eigenda fyrirækisins. Og hverjir eru þeir? Það eru íbúar Reykjavíkur og Akureyrarbæjar og ríkissjóður. Þetta eru þeir sem njóta þessara arðgreiðslna úr fyrirtækinu, það eru eigendur fyrirtækisins, það er Reykjavíkurborg, íbúar Reykjavíkur og Akureyrar og síðan ríkið sem fer með 50% eignaraðild. Og nú liggur það fyrir að ríkisstjórnin hefur ákveðið að verulegum hluta þeirrar arðgreiðslu sem fellur til ríkisins verði varið til atvinnuuppbyggingar og atvinnusköpunar á landsbyggðinni til þeirra byggðarlaga sem liggja utan þeirra svæða sem annars njóta arðgreiðslunnar, þ.e. Reykjavíkur og Akureyrar. Það er gríðarlega mikið mál að sú ákvörðun hafi verið tekin og landsbyggðin á eftir að njóta þess. Þess vegna finnst mér að sú umræða sem hér hefur farið fram um þetta, að þetta sé eitthvað byggðalega fjandsamlegt mál, sé alvarlegur og mikill misskilningur sem mér finnst satt að segja vera settur fram til þess að blekkja í þessum málum.

Ég vék að því fyrr í dag þegar ég ræddi um þetta mál að það er ekkert nýtt að arðgreiðslur skuli vera greiddar til eigenda þessa fyrirtækis, eigenda Landsvirkjunar. Ég sagði að það hefði verið fyrst gert árið 1979. Þá var það svo að þeir sem núna hafa harðast talað í þessu máli sátu í þeirri ríkisstjórn sem þá var við völd. Annars vegar var það hv. þm. Svavar Gestsson sem þá var viðskrh. (SvG: Heilbrrh.) heilbrrh. --- Nei. (SvG: Jú.) Ég er ekki alveg viss um það. Ég er ekki alveg viss um að hv. þm. muni það. Og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var þá iðnrh. og hv. þm. Ragnar Arnalds var menntmrh. Þá var þessi arður greiddur sem hlutfall af eigin fé upp á 0,89%. Núna er þetta sem hlutfall af heildareiginfé 0,7% sem er lægra heldur en var á árinu 1979. (Gripið fram í: Af hvaða stofni reiknar þingmaðurinn það?) Af hvaða stofni? Ég sagði, af heildareiginfé fyrirtækisins. (Gripið fram í.) Eigið fé fyrirtækisins núna? Ég veit það ekki. Ætli það sé ekki talið upp á um 24--26 milljarða kr. ef ég man rétt. Ég er ekki með töluna hérna fyrir framan mig, en ég er ekki viss um að það fari langt frá.

Virðulegur forseti. Ég þarf ekki í þessari umræðu að hafa fleiri orð um þetta. Ég fagna þeirri samstöðu sem orðið hefur í nefndini að við skyldum ná þar öll saman nema fulltrúar Alþb. sem áttu ekki samleið með okkur í þessu máli og harma ég það. Og ég harma það kannski enn meira að þeir skuli reyna að nota þetta mál til þess að ala á einhverri úlfúð og tortryggni milli þéttbýlis og dreifbýlis. Það er mikill misskilningur. Hér er einmitt reynt að taka af öll tvímæli um að það er sterk og ákveðin viljayfirlýsing ríkisstjórnarinnar að verja verulegu fjármagni af þeim arðgreiðslum sem ríkið fær í sinn hlut til þess að styrkja atvinnulíf á landsbyggðinni og ég segi það hér úr þessum ræðustól að það er fagnaðarefni því að svo sannarlega veitir ekki af því.