Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 17:33:56 (3324)

1997-02-11 17:33:56# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[17:33]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, hæstv. iðnrh. var ekki að mata mig á þessum upplýsingum og þurfti ekki til því ég hef haft það fyrir vana minn að þegar ég hef þurft að flytja hér mál og ég tala nú ekki um að vinna að þeim í nefndum, að hafa nennu af að setja mig inn í þau. Ég hef gert það og ég hef lesið mig nokkuð til í þessu máli. Ég hvika ekkert frá því að þessar arðgreiðslur voru árið 1979 0,89% en er áformað að verði í dag 0,7%. Sem sé, arðgreiðslurnar eru lægri núna en áður var.

Hitt til viðbótar þessu, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, að núverandi ríkisstjórn hefur ákveðið að verulegur hluti af arðgreiðslu sem fellur til ríkissjóðs á að fara til atvinnusköpunar úti á landi. Og svo er það kjarni málsins þ.e. að lækka á orkuverðið. Það er tekin ákvörðun um að lækka orkuverð um 2--3% á ári frá árinu 2001 til 2010 og ég held að við hljótum að þakka fyrir það og það er breytt stefna.