Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 18:10:44 (3326)

1997-02-11 18:10:44# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[18:10]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, gerði hér að umtalsefni þá sameiginlegu bókun sem mjög hefur verið til umfjöllunar í dag frá eignaraðilum Landsvirkjunar. Út af fyrir sig get ég verið sammála honum um það að ekki er nú allt þar á gullaldarmáli og í sannleika sagt er stjórnarandstöðunni gefið þar óþarflega mikið fóður til umræðunnar um þetta mál í dag. Hins vegar breytir það ekki þeirri staðreynd að það er undirrituð sameiginleg bókun að það sé forgangsverkefni stjórnar Landsvirkjunar og stjórnenda að lækka raforkuverðið. Það sé forgangsverkefni á undan öllum undirbúningi og aðgerðum til arðgreiðslu. Ég vil þess vegna spyrja hv. 8. þm. Reykv. hvort það sé svo að hann telji að borgarstjórinn í Reykjavík hafi nú þegar undirbúið og ætlað sér að ganga á bak þessa samkomulags. Ber að skilja orð hv. þm. svo að hann hafi upplýsingar um það að borgarstjórinn í Reykjavík ætli ekki að virða það samkomulag að verðlækkun hafi forgang? Ég vil fá svar við þessu, hæstv. forseti, hjá ágætum og hv. þm. Svavari Gestssyni.