Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 18:21:32 (3332)

1997-02-11 18:21:32# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[18:21]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil víkja að því sem hv. þm. minntist á fyrr í máli sínu. Margir talsmenn á landsbyggðinni eru á móti þessu máli. Ég get sagt hv. þm. það að ég hef um skeið átt mjög marga fundi í mínu kjördæmi. Hv. þm. talaði mikið um það um daginn að mikil óánægja væri í kjördæmi Stefáns Guðmundssonar um þetta mál. Ég hef haldið marga fundi, mjög fjölmenna fundi þar sem aðeins einn maður á öllum þeim fundum og öllum þeim fjölda sem á þessum fundum var mættur, aðeins einn maður hefur mælt gegn þessu máli. Aðeins einn maður.

Ég vil líka að hv. þm. segi mér hverjir það eru í borgarráði sem eru á móti því að lækka orkuverð. Hv. þm. sagði það áðan að það væri andstaða í borgarráði gegn því að lækka orkuverð. Og ég spyr: Er líka andstaða hjá Reykjavík um það að fá arðgreiðslur til sín? Ég sagði að hér að arðgreiðslurnar í þessu falla ekki í eitthvert einkafyrirtæki. Arðgreiðslurnar út úr Landsvirkjun falla annars vegar til Reykvíkinga, Akureyringa og ríkisins. Ríkið hefur þegar ákveðið hvernig með stóran hluta af arðgreiðslunni verði farið. Til atvinnusköpunar á landsbyggðinni. Svo kemur hv. þm. og segir að hér sé verið að fjandskapast við landsbyggðina og við séum að vekja upp einhverja tortryggni milli landsbyggðar og þéttbýlis. Ef einhverjir eru að gera það, þá er það Alþb. Og ég ætla ekki að segja það, en það hvarflar að mér að það fari kannski í taugarnar á þeim, hv. þm. Reykv. að það eigi að verja fjármagni af arði Landsvirkjunar til þess að styrkja atvinnulíf á landsbyggðinni. Það skyldi þó aldrei vera.