Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 18:24:18 (3334)

1997-02-11 18:24:18# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[18:24]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég á aðild að frhnál. meiri hluta iðnn. og þeim brtt. sem hann flytur þannig að ég þarf ekki að hafa langt mál nú við 3. umr. málsins. Það er ljóst að frá því að það var rætt við 2. umr. hefur málið tekið nokkrum breytingum. Ég átti ekki samleið með meiri hlutanum þegar málið var rætt hér fyrir jól og skilaði sérstöku nefndaráliti og ég tel ástæðu í ljósi þess að ég á aðild að frhnál. meiri hluta iðnn. að rifja upp helstu áherslur sem voru í áliti 1. minni hluta við 2. umr. málsins.

Í því áliti kom fram að þær áherslur sem 1. minni hlutinn legði væru í fyrsta lagi að skerða ekki eftirlitsmöguleika Ríkisendurskoðunar, að eftirlit með gjaldskrá Landsvirkjunar vegna einokunaraðstöðu þess yrði tryggt hjá Samkeppnisstofnun, að skýrt yrði kveðið á í nefndaráliti um jöfnun orkuverðs og að arðgreiðslumarkmið yrðu víkjandi fyrir gjaldskrármarkmiðum.

Það er ljóst, herra forseti, að um tvö þessara atriða, þ.e. varðandi eftirlits- og endurskoðunarmöguleika Ríkisendurskoðunar og þann þátt sem snýr að Samkeppnisstofnun, um að lög Samkeppnisstofnunar nái til Landsvirkjunar, hefur náðst verulegur árangur og raunar verið komið verulega til móts við þær breytingartillögur sem ég flutti ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni og hv. þm. Sighvati Björgvinssyni.

Ég vil aðeins fara nokkrum orðum um þetta mál, í fyrsta lagi varðandi Samkeppnisstofnun. Um það voru deildar meiningar hvort nauðsynlegt væri að kveðið yrði á um það í þessu frv. hvort lögin um Samkeppnisstofnun mundu ná til Landsvirkjunar. Það var mín skoðun að svo væri og ég vil skýra það nokkuð af hverju það er nauðsynlegt að mínu mati. Í fyrsta lagi er kveðið á um það í 8. gr. frv. að stjórn Landsvirkjunar setji gjaldskrá fyrir Landsvirkjun. Ég tel að með slíku ákvæði, þar sem stjórnin setur einhliða gjaldskrá fyrir Landsvirkjun án þess að kveðið sé á um að lögin um Samkeppnisstofnun nái til Landsvirkjunar, geti Samkeppnisstofnun ekki haft afskipti af gjaldskránni eða gripið inn í t.d. ef henni berst kvörtun um að óeðlileg breyting hafi átt sér stað á gjaldskránni eða að Samkeppnisstofnun geti af sjálfsdáðum gripið þar inn í. Það er mín skoðun að með þeirri brtt., sem nú hefur náðst samstaða um og kemur hér til atkvæðagreiðslu við lok 3. umr., geti Samkeppnisstofnun gripið inn í og haft afskipti af gjaldskránni, bæði í því tilviki að henni berist kvörtun þar að lútandi og eins að hún geti gert það af sjálfsdáðum. Það er mín skoðun á þessu máli. Þess vegna fagna ég brtt. og tel ástæðu til þess að þakka meiri hlutanum fyrir það og hæstv. iðnrh. að samkomulag hafi náðst um það að flytja þessa brtt.

Varðandi Ríkisendurskoðun er ljóst að í brtt. meiri hlutans nú er ekki eins afdráttarlaust kveðið á um aðkomu Ríkisendurskoðunar að þessu máli og gert var í þeirri brtt. sem 1. og 2. minni hluti fluttu við 2. umr. málsins. Þar var kveðið afdráttarlaust á um það að lögin um Ríkisendurskoðun giltu um Landsvirkjun. En ég tel engu að síður að bæði brtt. sem meiri hlutinn flytur núna og einnig það sem fram kemur í frhnál. um eftirlits- og endurskoðunarmöguleika Ríkisendurskoðunar tryggi að fullu að Ríkisendurskoðun hafi þá möguleika sem hún þarf til eftirlits og endurskoðunar, þ.e. ef samkomulag næst þá um að breyta lögum um Ríkisendurskoðun sem verður til umfjöllunar í þinginu fljótlega.

Ég vil vitna til frhnál. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Meiri hluti iðnaðarnefndar telur jafnframt eðlilegt að Ríkisendurskoðun hafi heimild til þess að gera stjórnsýsluendurskoðun á fyrirtækjum sem ríkið á meiri hluta í, líkt og er um Landsvirkjun. Til þess að svo megi verða með óyggjandi hætti þarf að breyta 9. gr. fyrirliggjandi frumvarps til laga um Ríkisendurskoðun, 262. mál, og kveða þar sérstaklega á um stjórnsýsluendurskoðun hjá fyrirtækjum sem ríkið á meiri hluta í en Ríkisendurskoðun annast ekki fjárhagsendurskoðun hjá vegna ákvæða í sérlögum. Meiri hlutinn áréttar þessa tillögu um breytingu á 262. máli (Ríkisendurskoðun) og vísar henni til þeirrar nefndar sem fjalla mun um frumvarpið.``

[18:30]

Ég veit að hæstv. forseti er að hlýða á mál mitt vegna þess að frv. um Ríkisendurskoðun sem hér verður til umfjöllunar er flutt á vegum forsn. Ég tel mjög mikilvægt og veit að víðtækur skilningur er á því á Alþingi og vilji til þess að Ríkisendurskoðun geti framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun á Landsvirkjun. Því vænti ég þess að samkomulag náist um að breyta frv. til laga um Ríkisendurskoðun eins eins og það lítur út núna þannig að 9. gr. þess frv. verði breytt. Hún hljóðar nú svo í frv. sem liggur fyrir þinginu:

,,Ríkisendurskoðun getur framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun hjá þeim stofnunum, sjóðum, félögum og fyrirtækjum sem um ræðir í 6. gr.``

Þarna þyrfti að mínu viti að bætast við: ,,þó svo að sérlög mæli fyrir um annan hátt á fjárhagsendurskoðun``, til þess að það sé fullkomlega tryggt að Ríkisendurskoðun hafi þann möguleika að láta fara fram stjórnsýsluendurskoðun á Landsvirkjun. Það er einmitt vegna þeirrar brtt. sem meiri hlutinn beitir sér fyrir og ég stend að og vegna þess sem kveðið er á í frhnál. og í trausti þess að samstaða náist um að breyta frv. sem liggur fyrir þinginu, 9. gr. þess sem mundi kveða afdráttarlaust á um í lagatexta að Ríkisendurskoðun gæti látið framkvæma umrædda stjórnsýsluendurskoðun, að ég hef dregið til baka þær brtt. sem ég hef flutt og styð meiri hlutann og það frhnál. sem hv. formaður iðnn. hefur mælt fyrir og þær brtt. sem hann lýsti hér áðan.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessi mál. Miklar umræður hafa orðið um arðgreiðslurnar og gjaldskrármarkmiðin og það er alveg ljóst að það var eitt þeirra atriða sem 1. minni hluti lagði áherslu á að arðgreiðslumarkmiðin yrðu víkjandi fyrir gjaldskrármarkmiðunum. Ég geri mér grein fyrir því og hef hlustað á það að mismunandi túlkun og merking lögð er í þá sameiginlegu bókun sem undirrituð hefur verið af hæstv. iðnrh., borgarstjóra og bæjarstjóranum á Akureyri um þetta mál og ég ætla ekki að blanda mér í þær deilur. Ég tel þó nokkurs virði, virðulegi forseti, þessa sameiginlega bókun varðandi arðgreiðslurnar og gjaldskrármarkmiðin sem hér liggur fyrir og vil enn einu sinni vitna í þá setningu sem oft hefur verið vitnað hér í áður á þessum degi, með leyfi forseta:

,,Sammæli er um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót með þeim hætti sem samkomulagið gerir ráð fyrir.``

Virðulegi forseti. Það eru skiptar skoðanir um þetta. Ég hefði auðvitað kosið að þetta hefði verið ákveðnara en það er hér sett fram. En ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta er sameiginleg bókun undirrituð af þessum aðilum og lengra verður ekki komist í því máli. Ég kýs að líta svo á að samkvæmt þessari bókun og samkvæmt fyrri yfirlýsingu hæstv. iðnrh. einnig verði arðgreiðslumarkmiðin víkjandi fyrir gjaldskrármarkmiðunum.