Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 18:41:33 (3339)

1997-02-11 18:41:33# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[18:41]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Við 2. umr. þessa máls lét ég í ljós þá skoðun að ég væri ekki alveg sannfærð um að sú breyting sem frv. gerir á Landsvirkjun sé réttlætanleg í ljósi þess að verið er að frysta Landsvirkjun sem einokunarfyrirtæki í allt að tíu ár. Slíkt mundi hægja á því að tillögur orkulaganefndar sem pólitísk samstaða hefur náðst um geti komist til framkvæmda. Að auki tók ég undir það með 1. minni hluta iðnn. að laga þyrfti ákvæði frv. þannig að gjaldskrá Landsvirkjunar heyrði undir samkeppnislög, að Ríkisendurskoðun komi að endurskoðun Landsvirkjunar og að eitthvað þurfi að segja skýrar um það að stefnt skuli að lækkun rafmagnskostnaðar í samræmi við samning eigenda Landsvirkjunar.

Nú hefur það gerst, eins og hv. þm. Stefán Guðmundsson, formaður iðnn., gerði grein fyrir í sinni framsögu áðan, að í framhaldi af sameiginlegri bókun eigenda Landsvirkjunar frá 10. febrúar 1997, hefur meiri hluti iðnn. lagt fram brtt. sem taka á gagnrýni okkar í 1. og 2. minni hluta varðandi Samkeppnisstofnun og Ríkisendurskoðun. Og í framhaldi af orðum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan þá vil ég gjarnan nota tækifærið og spyrja hæstv. iðnrh. sem hér er staddur hver skilningur hans er á brtt. meiri hlutans, þ.e. þar sem stendur: ,,Ákvæði samkeppnislaga gilda um Landsvirkjun.`` Ég vildi gjarnan fá það útskýrt hér á eftir vegna orða hans. En það er skilningur okkar í 1. minni hluta að Samkeppnisstofnun komi þarna í staðinn fyrir það sem áður var Þjóðhagsstofnun, sem eins konar eftirlitsaðili með einokunarfyrirtæki varðandi gjaldskrá.

Í frhnál. meiri hluta iðnn. kemur einnig fram umtöluð bókun eigenda Landsvirkjunar um arðgreiðslur og gjaldskrármarkmið. Þó að sú yfirlýsing sem kemur fram í nefndarálitinu sé auðvitað ekki jafngild lögum eða lagaákvæði, þá tel ég að sú viljayfirlýsing sem þar birtist á þingskjali komi að verulegu leyti til móts við sjónarmið 1. minni hluta þó að það sé alveg rétt hjá hv. þm. Alþb. að það segir hvergi í þessari bókun að arðgreiðslur víki fyrir gjaldskrármarkmiðum. Það segir eins og fram hefur komið í þessari umræðu orðrétt í 2. lið bókunarinnar: ,,Sammæli er um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót með þeim hætti sem samkomulagið gerir ráð fyrir.``

[18:45]

Hér hefur verið spurt hverju það breyti að þetta komi inn í frhnál. Ég tel að það breyti töluverðu að þetta sé birt á þingskjali þannig að þessi samningur er ekki bara einhvers staðar lokaður úti í bæ. Því tel ég það vera mikilvægt skref að þetta sé komið á þingskjal þó vissulega sé það ekki eins sterkt og ef þetta væri lögfest. En vegna þessa svo og hins að ekki reyndist pólitískur vilji til að fara aðrar leiðir til að breyta Landsvirkjun, þ.e. að koma til móts við óskir Reykjavíkurborgar um að losa sig út úr fyrirtækinu eða fá af því arð, þá tel ég þessa lendingu vera ásættanlega.

Önnur af hinum tveimur leiðunum sem til umræðu voru var að ríkið keypti Reykjavíkurborg út úr fyrirtækinu. Það virðist augljóst að ríkið hefur ekki bolmagn til þess. Og ef það ætti að fara hina leiðina, síðustu leiðina, þ.e. ef breyta ætti Landsvirkjun í hlutafélag virðist ljóst að þá mundi fyrirtækið opnast fyrir erlendum fjárfestum þar sem óljóst er hvort íslenski hlutabréfamarkaðurinn mundi ráða við að kaupa hlut Reykjavíkurborgar eða þau hlutabréf sem föl yrðu. Ég tel að það sé rétt mat. Það er pólitískt viðkvæmt mál að opna orkufyrirtækin að svo stöddu fyrir erlendum fjárfestum og þarf mjög mikla pólitíska umræðu sem hefur ekki átt sér stað. Í ljósi alls þessa skrifa ég undir frhnál. meiri hluta iðnn. ásamt þeim í 1. minni hluta, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Sighvati Björgvinssyni auk fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Ég tel þetta ásættanlega lendingu og mun því greiða atkvæði með þessu frv. og þess vegna greiddi ég atkvæði gegn frávísunartillögu 2. minni hluta við 2. umr. málsins.

Ég tel að þessi niðurstaða sé vel ásættanleg fyrir Reykjavíkurborg þó að hún geti ekki losað sig út úr fyrirtækinu fyrr en hugsanlega eftir tíu ár. Þó er í raun og veru ekkert því til fyrirstöðu að þetta verði endurskoðað fyrr og ég tel að krafa eigenda um hófsamlegan arð sé mjög eðlileg.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég taka undir með hv. borgarstjóra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og borgaryfirvöldum og segja að ég er fylgjandi því að sem mestur jöfnuður ríki í landinu og á milli landshluta svo og að það sé bæði eðlilegt og sanngjarnt að hægt sé að glöggva sig á því hve mikil verðjöfnun er í einstökum tilvikum og verðlagning á raforku sé sæmilega gagnsæ, þar með talinn flutningskostnaður.

Fram undan eru mjög miklar breytingar á sviði orkumála ef marka má álit orkulaganefndar og vonandi verður sú breyting sem hér verður gerð á Landsvirkjun ekki til þess að svokallað landsnet komist ekki á, en það virðist næsta raunhæfa skrefið í átt til þeirra breytinga sem fram undan eru, m.a. til þess að hægt verði að aðskilja framleiðslu, vinnslu, sölu og dreifingu á raforku.