Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 18:50:02 (3340)

1997-02-11 18:50:02# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[18:50]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði hvernig ég vildi túlka það atriði í brtt. meiri hluta hv. iðnn. sem snýr að Samkeppnisstofnun þar sem skýrt er kveðið á um að samkeppnislög skuli gilda um Landsvirkjun. Í 2. gr. samkeppnislaga er alveg skýrt kveðið á um að samkeppnislögin taki til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum.

Í II. kafla laganna, 4. gr., er fjallað um markaðsráðandi fyrirtæki og skilgreint hvað séu markaðsráðandi fyrirtæki. Það er alveg ljóst að Landsvirkjun er markaðsráðandi fyrirtæki sem er meginorkuframleiðandi í landinu. Í 17. gr. sömu laga, þ.e. samkeppnislaganna, er fjallað um eftirlit með samkeppnishömlum. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Samkeppnisráð getur gripið til aðgerða gegn samningum, skilmálum, athöfnum og aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni.``

Þetta þýðir að Samkeppnisráð getur gripið til aðgerða gagnvart Landsvirkjun. Hvaða aðgerðir geta þetta verið? Jú, Samkeppnisstofnun getur óskað eftir því að Landsvirkjun sendi sér allar breytingar á gjaldskrá sem gerðar verða af stjórninni. Stofnunin getur líka óskað eftir því að rökstutt sé af hverju slíkar breytingar eru gerðar og getur borið það saman við almenna verðlagsþróun sem hefur orðið á þeim tíma sem gjaldskrárbreytingin tekur til, með öðrum orðum óskað eftir því að fá upplýsingar um hvaða forsendur séu fyrir gjaldskrárbreytingunni. Þetta þýðir að þarna er komið upp, af því að um markaðsráðandi einokunarfyrirtæki er að ræða, verðlagseftirlit með fyrirtækinu. Síðan getur stofnunin gripið til aðgerða ef hún er ekki sátt við þær breytingar sem verið er að gera. Í 17. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Íhlutun getur falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði.``

Stofnunin gæti því í raun og veru bannað gjaldskrárbreytingar sem hún teldi að færu langt umfram það sem forsendur væru til staðar um. Þetta er meginatriðið í þessu og það er verið að tryggja þetta af því að fyrirtækið er markaðsráðandi einokunarfyrirtæki.