Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 20:33:29 (3343)

1997-02-11 20:33:29# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[20:33]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það vantar eitthvað af þeim sem ég vildi hafa í augsýn hér í þingsal þegar ég byrja ræðu mína. Ég vildi biðja hæstv. forseta að tryggja að þeir sem eðlilegt er að séu hér verði viðstaddir. Hér er kominn hv. þm. Stefán Guðmundsson, frsm. iðnn. og form., svo mér er ekkert að vanbúnaði að hefja ræðu mína.

Ég á nokkuð vantalað bæði við hæstv. ráðherra og hv. frsm. nefndarinnar alveg sérstaklega. Mér þætti vænt um ef þessir hv. þm. héldu sig í þingsal undir ræðu minni. Ég óska eftir því, virðulegur forseti, að hlutast verði til um að þessir hv. alþm. verði viðstaddir hér í þingsal.

Það er rétt að koma að því í upphafi, virðulegur forseti, að í því hléi sem liðið er frá því að fundi var frestað hefur komið mjög skýrt fram í fréttum sjónvarps fyrir um hálftíma síðan, að borgarstjórinn í Reykjavík, sem er aðili að því samkomulagi sem hér hefur verið kynnt af meiri hluta iðnn., gaf um það mjög ákveðnar yfirlýsingar í máli sínu að sú bókun sem kynnt hefði verið hér af hv. iðnn. breytti sáralitlu, og að borgarstjórinn í Reykjavík væri ,,ekki tilbúin til þess að víkja arðgjafarmarkmiðunum til hliðar``, svo ég fari orðrétt með ummæli sem borgarstjóri lét falla í sjónvarpinu áðan. Sama kom fram hjá talsmanni minni hluta borgarstjórnar, Vilhjálmi Vilhjálmssyni, þar sem hann sagði að ekkert nýtt kæmi fram í þessari bókun. Og aðspurður um hvaða ástæða væri þá fyrir henni, taldi borgarfulltrúinn hana helst vera að með henni væri verið að sannfæra einhverja alþm., þá væntanlega úr stjórnarliði, eða það las ég að minnsta kosti út úr þeim orðum, að það væri svona til huggunar einhverjum alþm. úr stjórnarliðinu.

Þetta eru efnisþættir sem snerta þetta mál sem ég tel rétt að komi fram því þeir staðfesta í rauninni það sem við talsmenn Alþb. höfum sagt í þessari umræðu, að ekkert væri gerandi með það framhaldsnál. sem hér er komið fram og kynnt var þingflokkum í gær, andstætt því sem haldið er fram af talsmönnum ríkisstjórnarinnar á Alþingi og hæstv. ráðherra. Þetta er staðan nú þegar við ræðum þetta mál við 3. umr.

Það segir sig auðvitað sjálft að yfirlýsing í formi bókunar frá þeim sem nú sitja á Alþingi eða þeim sem nú sitja í borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekkert bindandi gildi að nokkrum árum liðnum, fimm árum eða svo, þar sem verið er að vísa til að eignaraðilar Landsvirkjunar ætli sér að skuldbinda sig til að tryggja lækkun á raforkuverði. Það er bara ekkert slíkt sem þessir hv. þm. og hæstv. ráðherrar geta staðið á, nýbúnir að fella tillögu um að lögfesta þá lækkun raforkuverðs sem þeir telja sig bera svo mjög fyrir brjósti. Framsetning af þessu tagi er auðvitað ekki nokkrum bjóðandi. Hún er gerð deginum ljósari með þeirri yfirlýsingu sem ég var að vitna til og borgarstjórinn í Reykjavík gaf núna í sjónvarpinu og talsmaður minni hlutans í borgarstjórn tók undir. Því er kannski engin tilviljun að orðalagið ,,núverandi samkomulag`` er einmitt í þessari bókun. Það fellur alveg prýðilega að túlkun þeirra sem samkomulagið er gert við. Það þýðir ekkert fyrir hv. talsmenn ríkisstjórnarinnar og þar á meðal hv. formann iðnn. þingsins, sem enn er hlaupinn á dyr af einhverjum ástæðum, virðulegur forseti, og hefst ekki við hér í þingsal, en ég vildi óska eftir því að honum verði gert viðvart eða umræðunni frestað ef hv. þm. getur ekki verið viðstaddur hana. Ég bið virðulegan forseta að skera úr um hvernig á að halda þessu áfram.

(Forseti (StB): Forseti hefur gert ráðstafanir til að hv. formaður iðnn. verði hér.)

Virðulegur forseti. Sé það svo að hv. talsmaður meiri hluta iðnn. hefur ekki aðstæður til að vera hér þá geri ég enga athugasemd við að fundinum sé frestað því ekki erum við að reka á eftir lögfestingu þessa máls. Við teljum þvert á móti að það sé mikil þörf á að athuga málið frekar, bæði í þingsölum og annars staðar. Það er mjög einkennilegt, með því ofurkappi sem ríkisstjórnin leggur á að punkturinn verði settur aftan við þessa umræðu og málið lögfest, að þá geti þeir sem bera ábyrgð á málinu gagnvart þinginu ekki setið undir umræðum. Svo ég bið virðulegan forseta um að sýna skilning ósk minni um að ég fái að gera hlé á máli mínu á meðan þessi aðstaða er uppi.

(Forseti (StB): Forseti hefur gert ráðstafanir til að sækja hv. formann iðnn. og vildi biðja hv. ræðumann að doka við.)

Virðulegur forseti. Væri ekki ráð að gera hlé á fundinum á meðan beðið er eftir formanni iðnn.?

(Forseti (StB): Forseti verður að biðja hv. þm. velvirðingar á þessari töf og ef hann sættir sig við að gera stutt hlé á ræðu sinni munum við gera tíu mínútna hlé.)