Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 20:58:19 (3344)

1997-02-11 20:58:19# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[20:58]

Hjörleifur Guttormsson (frh.):

Virðulegur forseti. Hér hafa þau tíðindi orðið að hv. formaður iðnn. er kominn í þingsal og fagna ég því sérstaklega. Það er dálítið merkilegt að stjórnarliðið vill leggja ofurkapp á að hraða lögfestingu þessa frv. en þeir sem bera ábyrgð á málinu gagnvart þinginu koma því svo ekki við að vera viðstaddir og hafa reitt fram frhnál. við þess umræðu og erfitt að átta sig á því hvernig þetta á að ríma saman. En það er reyndar eins með margt fleira. Það fer eins og með yfirlýsingarnar, þar rekst eitt á annars horn í sambandi við þær.

Ég ætla að ræða hér nokkuð frekar við hv. þm. Stefán Guðmundsson í sambandi við þær yfirlýsingar, sem hann gaf, þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu í dag við 2. umr. málsins. Hv. þm. gerði það að sérstöku máli og sérstöku tilefni í atkvæðaskýringu að Alþb. hefði setið í ríkisstjórn þegar fyrst var greiddur arður frá Landsvirkjun til eigenda sinna. Þetta hefur orðið tilefni sérstakra frétta í fjölmiðlum sem hafa endurómað þessa speki hv. þm. út um landið. Ég skoraði á hv. þm. að draga ummæli sín til baka í dag í framhaldi af því að ég benti hv. þm. á hvernig þessu hefði verið háttað á tilvitnuðu ári sem hv. þm. nefndi. Það er rétt að fara aðeins frekar yfir það fyrst þetta á að vera ein helsta afsökun Framsfl. fyrir að standa nú að því að leggja á raforkunotendur í landinu milli 500 og 700 millj. kr. --- að það hafi verið í ríkisstjórn á árinu 1979 sem tekið var upp á því að úthluta arði til eigenda Landsvirkjunar. Í nefndri ríkisstjórn hafi verið mjög skuggalegir menn, ekki framsóknarmennirnir sem vermdu þá ráðherrastóla hluta úr árinu heldur þrír ráðherrar Alþb. sem hv. þm. nafngreindi sérstaklega. Það er sjálfsagt að fara yfir þetta með hv. þm. fyrst áhugi hans er svona mikill og ég sé að hv. þm. hefur sennilega hlaupið út í bæ til að nesta sig frekar í sambandi við þetta efni svo við getum haldið hér áfram. (StG: ... sannara reynist.) Virðulegur forseti. Hv. þm. Stefán Guðmundsson má eigi við bindast í sæti sínu vegna söguáhuga og frammíkalla. (Gripið fram í.)

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Það er rétt að fara aðeins nánar yfir það erindi sem ég kynnti í dag um þetta efni. Þannig er mál með vexti að á síðasta ársfjórðungi 1979, nánar tiltekið frá 15. október það ár, urðu stjórnarskipti í landinu og ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar lét af völdum eftir að Alþfl. hafði hlaupið þar undan merkjum og stjórnin hafði ekki lengur meiri hluta. Við tók ríkisstjórn undir forsæti Benedikts Gröndals, formanns Alþfl., og var minnihlutastjórn Alþfl. og sat hún til 8. febr. 1980 eða í tæpa fimm mánuði. Á þeim tíma, nánar tiltekið 23. nóvember að haldinn er stjórnarfundur í Landsvirkjun sem tekur á arðgreiðslumálum og tekur ákvarðanir um þau efni. Niðurstaðan var tilkynnt á minnisblaði frá Landsvirkjun til borgarstjóra og ráðuneytisstjóra iðnrn. Sú niðurstaða varðaði ekki árið 1979 heldur fyrri ár, arðgreiðslur vegna áranna 1976 og 1977 sem þar var um að ræða. Það er rétt að ég færi þetta minnisblað hér inn í þingtíðindi af þessu gefna tilefni. Það er dagsett 12. des. 1979 á bréfsefni Landsvirkjunar til borgarstjóra og ráðuneytisstjóra iðnrn. frá Halldóri Jónatanssyni. Afrit: Aðalsteinn Guðjohnsen, með leyfi forseta:

,,Á fundi sínum föstudaginn 23. nóvember sl. fjallaði stjórn Landsvirkjunar um arðgreiðslur til eigenda. Ekki var farið inn á þá braut að samþykkja að sinni almennar reglur hér að lútandi, heldur samþykkt að afgreiða sérstaklega arðgreiðslur vegna áranna 1976 og 1977, en árið 1976 er sjöunda rekstrarár fyrri áfanga Búrfellsvirkjunar, og samkvæmt 10. gr. reglugerðar um Landsvirkjun verður arður fyrst greiddur frá því ári.

Stjórnin ákvað að arðgreiðslur vegna 1976 skyldu miðast við endurmetin höfuðstólsframlög í árslok 1975 og vegna 1977 við endurmetin höfuðstólsframlög í árslok 1976. Var samþykkt að leggja til grundvallar ekki aðeins höfuðstólsframlög vegna Búrfellsvirkjunar og Búrfellslínu II, heldur einnig vegna Sigöldu, þótt hún komi ekki í rekstur fyrr en í lok 1978. Á hinn bóginn væri ekki stætt á því að taka með í grundvöllinn greiðslur að fjárhæð 41 millj. kr. frá hvorum eiganda vegna tapreksturs 1970.

Jafnframt samþykkti stjórnin að ekki komi til greina að greiða arð þegar um taprekstur væri að ræða svo sem vegna 1978, er tapið nam 597 millj. kr. og 1979, er tapið verður fyrirsjáanlega um 1.000 millj. kr.

Niðurstaða stjórnarinnar var sú að miða arðgreiðslurnar í þetta sinn við 3% af endurmetnum höfuðstólsframlögum og er þá tekið tillit til hinnar erfiðu fjárhagsstöðu Landsvirkjunar, auk þess sem ekki var talið eðlilegt að ganga lengra en þetta í upphafi arðsgreiðslna. Var þess vænst, að eigendur gætu eftir atvikum fellt sig við þessa niðurstöðu.

Með hliðsjón af framangreindu yrðu arðgreiðslur vegna 1977 og 1978 þessar til hvors eiganda.``

Síðan eru tíunduð höfuðstólsframlög hvors eigenda samanber fskj. og 3% arður af endurmetnum höfuðstólsframlögum í lok undanfarandi árs og það er á árinu 1975 til 1976 og samtölur raktar. Síðan segir aftur orðrétt, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt þessu yrðu arðgreiðslur alls kr. 147.348.492 til beggja eigenda, sem skiptast þannig milli ára og eru þannig í samanburði við hagnað Landsvirkjunar hlutaðeigandi ára.``

Þetta er fært inn og einnig arðgreiðslur alls í hlutfalli af hagnaði 1976 10,6%, 1977 15,9%. Alls er þessi upphæð, sem tilvitnuð hefur verið um 147 millj. kr., meðatalshlutfall af hagnaði 13%. Þegar þessi ákvörðun var tekin í stjórn Landsvirkjunar var ráðherra iðnaðarmála alþýðuflokksmaðurinn, þáv. þm., Bragi Sigurjónsson.

Ég taldi rétt og nauðsynlegt að koma þessu efni á framfæri vegna mjög ástríðuþrungins málflutnings hv. formanns iðnn. í dag til þess að reyna að festa það á spjöld sögunnar, og sérstaklega að koma því inn í höfuðin á þeim sem enn kunna að styðja Framsfl., að það hefðu verið vondir alþýðubandalagsmenn sem hefðu borið ábyrgð á því og komið því til leiðar að byrjað var að greiða arð til eigenda Landsvirkjunar.

Nú er það vissulega svo, virðulegur forseti, að ég er ekkert að vísa því út í hafsauga að það komi til greina að aðilar geti fengið arð af framlögðu fjármagni. Ég hefði í sporum hv. þm. Stefáns Guðmundssonar ekki verið að taka þetta mál upp jafnvel þótt hann hefði trúað því sem hann var að segja vegna þess að samanburðurinn við það sem Framsfl. er að gera í dag dag undir forustu þess flokks er ekki hliðstæður gjörningur og um var að ræða á þessum tíma. Hér er verið að bæta um betur, virðulegur forseti, í sambandi við það sem hér er verið að lögfesta með breytingum á lögum og leggja á raforkugreiðendur í landinu skatt sem nemur nálægt 10% ofan á raforkuverð með því að lögfesta þann samning sem hér hefur verið kynntur og fylgir þessu frv.

Nú kann vel að vera að einhver hafi af ásettu ráði verið að leiða hv. þm. út í þessa keldu. Það kann að vera. Þessi eini maður í Skagafirði, sem hv. þm. fann í jólahléi, og var eitthvað óánægður með þann gjörning sem hér er uppi, kann kannski að hafa verið að plata hv. þm. og komið honum á þetta spor. Ég átta mig ekki á því. En það var upplýst hér að klappað væri fyrir þessum gjörningi Framsfl. um gjörvallan Skagafjörð. Það hefði fundist einn maður sem hv. þm. fékk á fund og kom því á framfæri við hv. þm. formanni iðn. að hann væri ekki alls kostar ánægður með þennan gjörning Framsfl. En það er auðvitað von að menn séu áfram um að lögfesta þetta sem fyrst, fyrst landslýðurinn bíður bara í ofvæni eftir því að fá þessi gleðitíðindi frá Alþingi, þ.e. að raforkuverðið verði hækkað um 10% með þeirri skattlagningu sem verið er að innleiða sem meginreglu og sem borgarstjórinn í Reykjavík telur að ríki ofar öllum öðrum markmiðum og hefur komið á framfæri í sjónvarpinu nýverið og undirstrikað af talsmanni minni hlutans, Vilhjálmi Vilhjálmssyni borgarfulltrúa, að sú bókun sem fylgir með frhnál. breyti ekki nokkrum sköpuðum hlut, breyti engu, sé flutt til að sannfæra einhverja alþingismenn, eins og hv. borgarfulltrúi Vilhjálmur Vilhjálmsson orðaði það í sjónvarpinu. Þannig eru nú refirnir skornir hér á þingi um þessar mundir.

Ég ætlast auðvitað ekki til þess að hv. þm. Stefán Guðmundsson hafi þetta allt saman fast í huga og hafi gert þetta af ásettu ráði. Ég þekki hv. þm. ekki að því að vera framsóknarmönnum illkvittnari en gengur og gerist í Framsfl. Ég hef minnst á það í umræðunni að framsóknarmenn, helstu áróðursmeistarar þeirra, eru í sérflokki þegar þeir eru að afsaka sínar gerðir gagnvart þeim sem þeir vænta að séu kjósendur þeirra. Þá ganga þeir allra manna lengst í því að koma sér upp vopnabúri af þessu tagi, sem hv. þm. Stefán Guðmundsson er að beita á Alþingi, til varnar þessum gerðum. Ég kannast við þetta frá blautu barnsbeini austur á landi. Ég þekki vel þessi vinnubrögð.

Það fyrsta sem ég heyrði um þingmann sem var lengi á Alþingi, sat í ríkisstjórn og hét Lúðvík Jósepsson, var að ekki væri hægt að trúa einu einasta orði sem sá þingmaður segði og því var sáldrað kerfisbundið út um Austurland. Það voru framsóknarmenn sem gengu fram í því af því hann væri svo lyginn. Þetta var það fyrsta sem ég heyrði um þann ágæta þingmann sem ég átti eftir að kynnast að öðru. En þetta var dæmigert fyrir vinnubrögð áróðursmanna Framsfl. Það voru ekki fremstu menn sem voru settir í þetta. Það voru fótgönguliðar. Þessu var hvíslað að fótgönguliðinu og þannig hefur því miður Framsfl. alið upp sitt lið eins og hv. þm. Stefán Guðmundsson sem var byrjaður að þæfa snjóinn í nóvembermánuði 1979 í fyrsta sinn í vonarsæti til að komast inn á þing og var kosinn 2. desember 1979. Hann fékk þau viðfangsefni, til viðbótar framkvæmdastjórn í Útgerðarfélagi Skagfirðinga, að sitja á Alþingi Íslendinga og hefur gert það síðan með sóma að ég hef tekið eftir og yfirleitt ekki skorið sig úr meginlínunni hjá framsóknarmönnum fyrr en hann byrjaði á þessu sem hér kemur fram og gengur í þau óþverraverk sem á að lögfesta. Það er bágt til að vita af góðum dreng, virðulegi forseti, að leggjast svo lágt til varnar sínum gerðum og skal ég ekki eyða frekari orðum að því.

Ég vil aðeins nefna það að ég hef litið á reikninga Landsvirkjunar áranna 1979, 1981 og 1982. Ég sé þess ekki merki að þar hafi verið um arðgreiðslur, endurtekning á því að ræða sem ákveðið var af stjórn Landsvirkjunar í nóvember 1979. Ég hef hins vegar ekki farið ofan í málið í hólf og gólf. Ég vil því ekkert kveða upp úr um það hvernig þessu var háttað í einstökum atriðum. Það skyldi maður ekki gera nema að betur athuguðu máli. Í rauninni skiptir þetta aurkast úr búri Framsfl. engu í sambandi við efni þess máls sem hér er um að ræða. En tilgangurinn var augljós og er því miður ekki talsmönnum Framsfl. til sæmdar. Það verð ég að segja.

Virðulegi forseti. Hv. formaður iðnn. og hæstv. iðnrh. hafa verið að verja sinn gjörning með því sérstaklega að landsbyggðin eigi að njóta eða endurgreiða landsbyggðinni þá skattlagningu sem hún á að bera og reyndar landsmenn allir því að þannig sé um hnútana búið að ráðstafa eigi um helmingnum af væntanlegum arði ríkisins af Landsvirkjun til atvinnuppbyggingar á landsbyggðinni. Þetta á að vera sú sárabót sem á að róa geð manna úti um landið. Raunar hefur þessi plástur verið dreginn upp áður því hann var notaður hér sem ein aðalhuggunin í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Það voru frægar 80 millj. kr. sem settar voru inn á 6. gr. fjárlaga sem heimildarákvæði. Og nú spyr ég hv. talsmenn iðnn., eru þetta óskyld efni, þessar 80 millj. sem eru á 6. gr. fjárlaga þannig frá gengnar? Ég leyfi mér, með leyfi forseta, að vitna til 6. gr. 5.16 þar sem segir: ,,Að ráðstafa, að fengnum tillögum iðnaðarráðherra, allt að 80 m.kr. til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu. Sérstaklega skal huga að atvinnusköpun á þeim landsvæðum sem ekki njóta góðs af atvinnustarfsemi sem tengist uppbyggingu á orku- og stóriðjusviði.`` Er þetta eitthvað skylt því máli sem við ræðum hér, þeim fyrirheitum um endurgreiðslu á væntanlegum arðgreiðslum frá Landsvirkjun sem fullyrt er og dregið var fram við 2. umr. málsins, og reyndar þegar við 1. umr., að ætti að vera hin mikla sárabót fyrir landsbyggðina?

[21:15]

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að það er eins með þetta, þessar 80 millj. sem kannski er sama féð, það hefur ekki enn þá verið skýrt, eins og dregið var fram við afgreiðslu fjárlaga. Hér er verið að veifa peningum mjög ósmekklega, veifa silfri eftir formúlu Egils Skallagrímssonar hins aldna, sem Framsfl. ætlar að nota til þess að sáldra út um byggðir landsins í von um að það hitti einhverja réttláta. Nema svo fari, sem er þó öllu líklegra, að Framsfl. velji úr, forusta hans velji úr þá sem eiga að njóta. Það eru þessar aðferðir sem á að taka upp. E.t.v. er búið að auglýsa þetta, það kann að hafa farið fram hjá mér að hæstv. iðnrh. sé búinn að auglýsa eftir umsóknum um þessar 80 millj. (Gripið fram í: Það hefur hann ekki gert.) Og hver á síðan að úthluta og eftir hverju á að fara um úthlutun á þessu stórfé, á þessari miklu sárabót vegna 38 milljarða sem á að verja í uppbyggingu stóriðjufyrirtækja og orkutengdra framkvæmda í landinu á næstu tveimur árum? Nei, landsbyggðarfólk mundi ekki vilja skipta á þessu og þeirri skattlagningu, þeirri hækkun raforkuverðs sem hér er á ferðinni.

Virðulegur forseti. Það er auðvitað mjög margt sem þörf væri á að ræða í sambandi við þetta efni hér. Ég minni enn á það sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluta iðnn. um þetta þar sem boðað er að breyting muni koma fram á orkulögum innan tíðar. Hæstv. iðnrh. muni koma hér með breytingu á orkulögum til þess að innleiða markaðsbúskapinn á orkusviðinu. Það er það sem er í vændum. Og þá gæti nú farið að þyngjast undir fæti að standa við loforðin upp úr aldamótum um lækkun á raforkuverði, að tiltekin fyrirtæki verði skuldbundin til þess að standa að lækkun á raforkuverði eftir að væri búið að koma með einhverju móti, ég átta mig svo sem ekki á hvernig, upp samkeppni í sambandi við meginorkuframleiðslu í landinu eftir formúlunum frá Brussel, sem er undirstaða þeirra væntanlegu tillagna sem hæstv. iðnrh. er að undirbúa að koma inn í þingið. Þá gæti líka orðið erfiðara að standa við stóru orðin um verðjöfnun, þegar sú blessun væri gengin yfir og búið væri að innleiða markaðsbúskapinn. Þá gæti orðið þungt fyrir að ætla einstaka fyrirtækjum að fara að taka þátt í verðjöfnunaraðgerðum varðandi orkubúskap í landinu og sölu á orku. Það sem hér er á ferðinni er því aðeins upphafið á vegferð sem við eigum eftir að sjá betur í hvaða átt vísar eftir að tillögurnar koma sem hæstv. iðnrh. er að boða í sambandi við grundvallarbreytingar í orkumálum landsmanna.

Ég óttast líka að sú stefna sem hér er verið að innleiða og þetta frv. er hluti af, muni verða til þess að sú tiltölulega sæmilega sátt sem ríkt hefur um Landsvirkjun sem meginorkuöflunarfyrirtæki í landinu eigi eftir að breytast til hins verra og margt af því sem tengist aðgerðum til orkuöflunar. Reyndar er af svo mörgu að taka að ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma hér við 3. umr. þessa máls. En það væri illa farið vegna þess að úr samstarfinu við Framsfl. á árunum 1978--1983, að frátöldum fimm mánuðum sem minnihlutastjórn Alþfl. sat að völdum, var þó sammæli um að koma upp einu öflugu orkufyrirtæki í landinu, landsvirkjun í eiginlegri merkingu, sem meginorkuöflunarfyrirtæki landsmanna, tryggja lagningu stofnlína með hringtengingu um landið og tryggja verðjöfnun frá þessu fyrirtæki á öllum afhendingarstöðum út frá byggðaflutningshringnum. Um þetta var tiltölulega góður friður í þeim ríkisstjórnum sem ég átti sæti í á þessum árum. Og m.a. stóðu að þessu og höfðu átt sinn hlut í að koma þessari stefnu fram innan Framsfl. menn eins og Steingrímur Hermannsson og Helgi Bergs, sem hlúðu að málinu á þessum tíma og stóðu við þá samninga sem þar að lutu og höfðu mikinn áhuga á framgangi þessa máls sem Framsfl. er nú að spilla með þeim hætti sem fyrir liggur. Það er ekki það eina sem verið er að moka yfir í stefnu Framsfl. þessa mánuðina af því sem fyrrv. formaður átti góðan hlut í að koma fram. Það fara að verða ansi fá stráin sem upp úr standa frá þeim tíma sem Steingrímur Hermannsson hafði forustu í Framsfl. ef litið er yfir gjörðir þeirra sem nú fara með völdin í þeim flokki og þá stefnu sem birtist okkur hér dögum oftar í þinginu. Og ég verð að segja að það er mikil raun að vera vitni að því hvernig þessum flokki, sem sótt hefur alldrjúgt fylgi til landsbyggðarinnar, er komið og stefnu hans, hvað sem um Sjálfstfl. má segja sem vissulega leikur tveimur skjöldum í þessu máli og getur gert það í skjóli Framsfl. sem hefur alla forustu í þessu, hefur stjórnarformennskuna í Landsvirkjun og hefur þá sem ráða í ráðuneytum og ráða fyrir málum sem aðalábyrgðaraðilar í sambandi við orkumálin gagnvart þinginu.

Ég vil eindregið vara við því sem hér er að gerast. Ég tel að það sé mikið óheillaspor sem hér er verið að stíga og því miður er hætt við að þeir gái ekki að sér sem eru ábyrgðaraðilar í þessum málum, þeir ætli ekki að taka mark á neinu sem heyrist, ekki þessum eina í Skagafirði sem hv. þm. Stefán Guðmundsson heyrði í í löngu jólahléi þingsins, sá eini sem ekki klappaði fyrir stefnunni og leyfði sér að hafa aðra skoðun. Verið gæti að það yrðu eitthvað fleiri í þeim hópi þegar hv. þm. kemur af þingi til þess að hitta umbjóðendur sína. En þá er það of seint að því er þetta mál varðar, því miður.

Virðulegur forseti. Það er mjög sérstakt hvernig keyrt er fram með þetta mál hér á Alþingi, hvaða ofurkapp er lagt á að að lögfesta málið. Þetta fer að minna á gamla daga þegar þingmönnum var haldið á Alþingishúsinu og þeir máttu helst ekki fara út úr húsi og gæti þá komið upp í hugann dagsetning frá árinu 1949 í því samhengi. Svo mikið kapp er lagt á að þrýsta þessu máli fram og lögfesta það að leitun er að öðru eins. Það verður að gera hlé á umræðum um mál eins og um málefni þjóðkirkjunnar. Þau fá ekki að vera í friði á dagskrá þingsins fyrir ofurkappi Framsfl. til þess að lögfesta þetta mál og teygist síðan úr þessu vegna þess að menn hafast ekki við í þingsal. Þetta er illa farið gagnvart þinginu og enn þá verr gagnvart þjóðinni.