Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 21:39:16 (3351)

1997-02-11 21:39:16# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[21:39]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég bara segi það og endurtek hér að farið var að ræða um arðgreiðslur í janúar 1979 (Gripið fram í.) og menn vita hverjir sátu þá í ríkisstjórn. Það er hins vegar rétt hvenær arður var greiddur út, og hvenær það var ákveðið. En umræðan fór af stað í tíð þessara ríkisstjórnar. (SvG: Og það var þeim að kenna?)

Hér hefur orðið umræða um þau ummæli sem látin voru falla í sjónvarpsviðtölum í kvöld og var vikið að því sem borgarstjórinn sagði. Borgarstjórinn sagði að það eigi ekki að víkja arðgjöfum til hliðar en benti síðan á bókun. Og hver er bókunin? Í bókuninni segir að sammæli eru um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað um aldamót. (SvG: Geti lækkað um aldamót.) Já, þetta er heila málið. Það er undirstrikað hér. Og hvað sagði svo Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson í þessu viðtali? Það er verið að reyna að rangtúlka það sem hann sagði. Hann sagði hreint og klárt: ,,Eigendur hafa sammælst um lækkun á orkuverði um 2--3% á ári og það er í fyrsta sinn sem svo hefur verið.``

Ég minni bara á það sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri í Reykjavík, sagði á fundi iðnn. og hér hefur komið fram í dag í máli Guðjóns Guðmundssonar, varaformanns nefndarinnar. Þá sagði borgarstjórinn í Reykjavík: ,,Með sameiginlegri bókun er verið að hnykkja á því að verðlækkun á raforku gangi fyrir arðgreiðslumarkmiðum.`` Þetta sagði borgarstjórinn í Reykjavík á fundi iðnn. Alþingis sem meira að segja hv. þm. Svavar Gestsson sat og átti að hlýða á.