Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 21:43:51 (3353)

1997-02-11 21:43:51# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[21:43]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það atvikaðist svo að þegar 2. umr. málsins fór fram gat ég ekki verið hér og tók af þeim ástæðum ekki þátt í henni. Ég gat heldur ekki hlýtt á mál manna, það sem menn höfðu þar fram að færa. Umræður í dag hafa þróast þannig að ég tel ástæðu til að leggja orð í belg og fara yfir nokkur atriði þessa máls. Og jafnvel þó að það kunni að vera í mínu máli eitthvað sagt af því sem áður hefur fram komið, þá tel ég það nauðsynlegt eins og umræðan hefur orðið í dag.

Ég vil fyrst segja um málið í heild að það er mjög einfalt, þetta er lítið þingmál um fáar breytingar á viðamiklum lagabálki og ákaflega skýrt því það snýst bara um einn hlut, það snýst bara um peninga. Peninga og ekkert annað en peninga. Fyrst og fremst. Það er aðalatriði málsins og annað getum við kallað víkjandi þætti í þessu máli. Og hvers vegna skyldi málið vera svona vaxið? Það hefur verið upplýst. En það er kannski rétt að rifja það upp að það er af því að einn eignaraðili vildi losna frá eign sinni, vildi koma henni í verð og fá peninga. En það gekk ekki upp þannig að hann gerði kröfu til þess að fá peninga í gegnum arð. Og iðnrh. var nokkur vandi á höndum því hann gat ekki án þess verið að eiga gott samstarf við þann eignaraðila því hann var í öðrum hugleiðingum --- að koma á stóriðju og vantaði orku til þess. Og þá var orðin nokkur tímaþröng í málinu og til þess að mál gætu gengið eftir varð að fá þennan eignaraðila til þess að ráðast í nokkuð viðamikla virkjun --- gufuaflsvirkjun á Nesjavöllum. Þess vegna urðu ráðherra og Reykjavíkurborg að semja og gerðu það þannig að Reykjavíkurborg fær arðinn sinn, iðnrh. og Framsfl. og Sjálfstfl. lofuðu Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ í leiðinni að láta þá hafa í peninga í bæjarsjóðina. Viðbótarskattfé --- það er ekki hægt að kalla þessa peninga neinu öðru nafni og kem ég að því aftur síðar. Um þetta snýst málið. Í staðinn fær iðnrh. sitt rafmagn í gegnum þessa virkjun sem borgin mun reisa. En hann fær líka annað í leiðinni sem honum leiðist ekki og það er að hann fær stjórnina í sínar hendur. Fyrirtækið, sem hefur verið nokkuð sjálfstæð stofnun, sem lýtur stjórn sem kosin er af Alþingi verður minna sjálfstæð stofnun sem lýtur beinu boðvaldi ráðherra í gegnum stjórn sem hann skipar. Þetta er kjarni málsins.

Öll umræðan í dag hefur snúist um það að þeir sem vilja málið í gegn í þessum búningi hafa áttað sig á því það er afar óþægilegt mál að fresta því að láta afkomubata fyrirtækisins koma fram í lægra verði til orkukaupenda, að fresta því um nokkur ár til þess að geta látið eignaraðilana fá peninga. Þá hafa menn orðið að búa til einhverja útgönguleið og hún hefur verið sú að reyna að telja fólki trú um það að þrátt fyrir allt eins og málið er vaxið þá ætli menn ekki að hafa það að aðalatriði að afla fjár í bæjarsjóð heldur að lækka raforkuverðið. Það er bara einfaldlega ekki rétt mál. Það kemur skýrt fram í frv. og málinu öllu og þessari margnefndu bókun sem hér hefur oft verið vitnað til að menn ætla að borga peninga út úr Landsvirkjun til eignaraðila. Og menn ætla að gera það fyrst og fremst næstu þrjú, fjögur árin. Það er aðalatriði málisins. Það er nokkuð létt að lofa því eða segja það öllu heldur að raforkuverð geti lækkað eftir árið 2000, sérstaklega fyrir sveitarstjórnir sem sækja um endurkjör árið 1998. Menn gætu þess vegna búið til sameiginlega bókun ráðherra og bæjarstjórna um það að skattar geti lækkað eftir árið 2000. Það væri alveg jafngóð bókun og þessi sem segir nákvæmlega jafnlítið.

Ég hef lýst skoðun minni á málinu að ég tel á afar skýran hátt. Ég er andvígur þessu. Ég tel að sá afkomubati sem menn sjá fram á á næstu árum í þessu fyrirtæki eigi að nýtast þeim sem eru viðskiptavinir og raunverulegir eigendur fyrirtækisins. Það á að lækka raforkuverðið númer eitt. Það á að vera aðalatriði málsins að lækka raforkuverðið og það á að vera næsta atriði þar á eftir að borga út arð af því sem menn raunverulega hafa lagt til fyrirtækisins. Ég er sammála því sem fram hefur komið hjá öðrum þingmönnum í umræðunni í dag að ég er ekki andstæðingur þess að borgaður sé arður af raunverulegri eign í fyrirtæki sem þessu sé það gert innan skynsamlegra marka.

Hér hefur verið nefnt að hluta af arðinum, þeim hluta sem rennur til ríkisins, verði varið til ýmissa jákvæðra aðgerða í atvinnumálum úti á landi og gott og vel með það. Að vísu býður það heim þeirri hættu að menn deili og drottni í krafti fjárins sem þekkt er úr mörgum sögum, að menn noti aðferð Egils Skallagrímssonar, menn byrji á því að taka af mönnum peningana og bjóða mönnum síðan hluta af þeim til baka ef þeir gera þetta og ef þeir gera hitt. Mér finnst það lakari aðferð en sú að láta peningana verða strax eftir í vösunum á þeim sem borga. Það er miklu einfaldari aðferð og skilvirkari. Og fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni eins og t.d. fiskvinnsluna sem veitir mörg þúsund mönnum vinnu og mörgum sinnum fleira fólki veitir fiskvinnslan vinnu heldur en stóriðjan --- heldur en samanlögð stóriðja á Íslandi. Samt borgar fiskvinnslan á Íslandi margfalt hærra verð en stóriðjan. Hún borgar kannski um fimm krónur fyrir hverja kwst. á meðan stóriðjan er að borga innan við eina krónu. Vissulega væri það drjúg aðgerð til þess að styrkja atvinnulíf á landsbyggðinni, t.d. fiskvinnsluna sem er rekin með tapi, sérstaklega botnfiskvinnslan um þessar mundir, að lækka raforkuverðið. Það væri aðgerð sem munaði nokkuð um ef menn létu peningana verða eftir þar í fiskvinnslunni.

En ég vil spyrja hv. þm. Stefán Guðmundsson, formann iðnn.: Hvaða ávinningur er af því fyrir fiskvinnsluna á landsbyggðinni að taka peningana af henni í gegnum raforkuverð, færa síðan iðnrh. peningana og láta hann um að deila þeim út, ekkert endilega til fiskvinnslunnar heldur til einhverra annarra? Hver er hagur fiskvinnslunnar af þessari aðgerð? Hver er hagur botnfiskvinnslunnar af þessari aðgerð? Er ekki betra að láta það vera að taka af þeim peningana og lækka verðið? Það er betra. Ég held að allir sjái það og sérstaklega hv. þm. Stefán Guðmundsson sem glöggur maður í þessum efnum. Hann veit að þetta er vitlaus aðferð. Hann verður bara að beygja sig fyrir því að ráðherra hans samdi um annað við Reykjavíkurborg í þessu efni.

Ég vil líka gera að gagnrýnisefni þá fjárhæð sem arður er greiddur af í þessu máli. Það var gerð grein fyrir tölum í þessu efni í nál. 2. minni hluta við 2. umr. málsins. Það er stór munur á því að vera að borga arð af 14.500 millj. kr. eða 2.000 millj. kr. Ég er hér með töflur frá Landsvirkjun þar sem þetta er sundurliðað frekar og fram kemur t.d. að framlög ríkisins í peningum eru ekki nema um 1.074 millj. kr., Reykjavíkurborgar 957 millj. kr. og Akureyrarbæjar 118 millj. kr. Það eru hin raunverulegu eiginfjárframlög. Mér finnst eðlilegt að borga þessum aðilum arð af því fé sem þeir hafa sannanlega lagt fram inn í þetta fyrirtæki af sínum tekjum. En mér finnst alveg fráleitt að vera að reikna mönnum arð af peningum sem þeir hafa aldrei lagt inn. Bara aldrei nokkurn tímann. Það hefðu einhvern tímann verið kallað okurvextir hér áður fyrr að menn gætu innheimt háa vexti af höfuðstól sem þeir ættu ekki nema að litlu hluta eða 1/7 hluta. Ég er algjörlega andvígur þeim reikningskúnstum sem koma fram í þessum þætti málsins sem eru til þess miðaðar að eignaraðilar geti tekið peninga út úr fyrirtækinu af því að þeir geta ekki reiknað rétt og eðlilega út nægilega háar fjárhæðir til sín til þess að þeir geti verið ánægðir og þá þarf að búa til svona fixformúlur til þess að sætta eignaraðila eða Reykjavíkurborg við það að geta ekki selt sinn eignarhlut.

Ég verð að segja við hæstv. iðnrh. að ég hefði talið eðlilegra í hans sporum að hann leitaði eftir því að kaupa Reykjavíkurborg út úr þessu fyrirtæki og að hann notaði eigendaframlög þess upp á 957 millj. kr. sem grundvallartölu í þeim samningum, semdi um verð á eignarhlut Reykjavíkurborgar út frá þeirri tölu. Ég held að það hefðu orðið mjög viðráðanlegir samningar fyrir ríkið og ásættanlegir fyrir Reykjavíkurborg. Það hefði verið miklu eðlilegra að leysa málið þannig, hreint og skýrt, fyrir opnum tjöldum, fremur en með þeirri aðferð að reyna að dylja málið með ýmsum hætti eins og gert er í frv.

Þá bendi ég líka á að sveitarfélögin tvö sem hlut eiga að þessu máli og í þessu fyrirtæki hafa notið góðs af eignaraðild sinni umfram raunveruleg framlög. Þeim hefur verið greitt svonefnt ábyrgðargjald þrátt fyrir að lán Landsvirkjunar sé með einfaldri ríkisábyrgð og ríkið eitt standi í allri ábyrgð fyrir lánunum þá hefur ábyrgðargjaldið sem fyrirtækið er látið borga ekki runnið allt til ríkisins heldur skipst í eignarhlutföllum þannig að sveitarsjóðirnir hafa verið að fá til sín hluta af þessu ábyrgðargjaldi án þess að standa nokkurn tímann undir ábyrgðinni. Það hefur verið veruleg ívilnun til þessara sveitarsjóða og raunverulega dulin arðgreiðsla. Það er ekkert annað en dulin arðgreiðsla. Og gert er ráð fyrir því að halda þessu áfram. Þannig er gert ráð fyrir því að ábyrgðargjaldið á þessu ári verði 120 millj. kr. og renni til eignaraðila, væntanlega með sama hætti og verið hefur. Það verða 132 milljónir á næsta ári og 141 árið 1999 og 132 milljónir árið 2000 eða um 500 milljónir á þessum fjórum árum sem eiga að líða áður en menn ætla að fara að lækka gjaldskrána hjá Landsvirkjun. Þarna er hálfur milljarður í viðbótararðgreiðslur umfram það sem menn tala um berum orðum. Bara á þessum fjórum árum.

Fram til þessa hefur ríkið fengið greiddan arð og ábyrgðargjald um 726 millj. kr. af 1.074 millj. kr. Það hefur fengið um 75% í arð af þessum eignarhlut. Og svipað fyrir hina eignaraðilana, t.d. hefur Reykjavíkurborg fengið 650 millj. kr. í arð og ábyrgðargjald --- ég tek það saman --- af 957 millj. kr. framlagi. Þetta er nú ágæt ávöxtun fjár. Ég held að það sé varla hægt að ætlast til þess að betur verði gert.

Virðulegur forseti. Ég geri líka alvarlegar athugasemdir við þennan útreikning á eigendaframlögum og hvernig arðurinn er síðan reiknaður út af þeim og enn fremur því að gert er ráð fyrir að ábyrgðargjöldin renni áfram skipt til allra eignaraðila jafnvel þó aðeins einn þeirra í raun standi undir ábyrgðinni. Mér því finnst málið í heild ekki vera álitlegt. Það er ekki ástæða til að amast við öllu í því en mér finnst að ekki hafi verið ástæða til þess að fara fram með það. Ég sé engar framfarir í þessu þingmáli fyrir orkukaupendur, fyrir þá sem borga raforkuna á Íslandi. Þetta er einfaldlega það að eigendur fyrirtækisins eru að gera samkomulag sín á milli um að skipta á milli sín peningum. Þetta fjallar fyrst og fremst um það. Mér finnst satt að segja að það hefði mátt láta ógert.

[22:00]

Það hefði verið meira púður í því ef ríkisstjórnin hefði komið fram með frv. um breytingar í orkumálum í framhaldi af skýrslu um það efni þar sem sýnd hefði verið stefna ríkisstjórnarinnar í orkumálum, hvernig standa ætti að því að virkja, hverjir ættu að gera það og hvernig standa ætti að því að dreifa orkunni og selja hana. Það er pólitískt mál sem hefði verið vel þess virði að þingið eyddi einum vetri í að takast á um. En þetta er bara einfalt peningamál og sem slíkt fremur ómerkilegt.

Þá vil ég að lokum, virðulegur forseti, víkja að einu atriði málsins sem mér hefur orðið að umhugsunarefni fyrst og fremst fyrir það að ég hef ekki alveg áttað mig á því hvað fyrir mönnum vakir með þeirri brtt. sem ég ætla að víkja að.

Það er að lagt er til að við 8. gr. frv. bætist ákvæði um að Landsvirkjun falli undir samkeppnislög. Í frhnál. meiri hluta iðnn. segir ,,að við 8. gr. frumvarpsins bætist ákvæði er taki af öll tvímæli um að ákvæði samkeppnislaga eigi við um alla þætti í rekstri Landsvirkjunar.``

Þetta hefur verið skýrt þannig í umræðu a.m.k. af einum hv. þm. sem stendur að því að flytja tillöguna að þar sé um að ræða gjaldskrána. Að Samkeppnisstofnun eigi að fylgjast með því að gjaldskráin sé á hverjum tíma eins og hún á að vera eftir einhverjum mælikvörðum sem ég veit ekki hverjir eru. Ég hef verið að fara í gegnum samkeppnislögin undir þessari umræðu til að reyna að átta mig á því hvernig Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð geta sinnt því hlutverki að hafa stjórn á gjaldskrá fyrirtækisins. Ég sé ekki nema eitt ákvæði í lögunum sem er hugsanlegt að samkeppnisráð geti beitt. Það er ákvæði í 17. gr. samkeppnislaga. En það er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Íhlutun getur m.a. falið í sér að samkeppnisráð grípi til ákvörðunar um verð og viðskiptakjör einstakra fyrirtækja eða fyrirtækjahópa, enda verði að mati samkeppnisráðs ekki með öðru móti komið í veg fyrir skaðleg áhrif á samkeppni í viðkomandi grein.``

Með öðrum orðum á samkeppnisráð að grípa inn í á þessum lagaforsendum til þess að koma í veg fyrir skaðleg áhrif af því að það skorti samkeppni. Ég sé ekki hvernig samkeppnisráð á að geta beitt þessu lagaákvæði til að geta stýrt gjaldskrárákvörðunum stjórnar Landsvirkjunar á hverjum tíma. Fyrirtækis sem í raun er einokunaraðili en með þessu frv. er ekki verið að breyta því að Landsvirkjun er í meginatriðum einokunarfyrirtæki og á að vera það áfram samkvæmt frv. þannig að ég átta mig ekki á því hvernig samkeppnislög geta mætt þeim fullyrðingum sem hér hafa verið settar fram úr ræðustóli um að með því að fella Landsvirkjun undir samkeppnislög eigi að vera hægt að hafa eftirlit með gjaldskrá fyrirtækisins með svipuðum hætti og Þjóðhagsstofnun hefur sinnt því hingað til. En það er meira í þessu en bara þetta atriði varðandi gjaldskrána því að tillaga nefndarinnar kveður á um að rekstur Landsvirkjunar falli undir öll ákvæði samkeppnislaga. Þá fer nú málið að vandast. Hvernig á Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð --- og ég beini þessu máli til hæstv. ráðherra og formanns iðnn. því ég veit að þeir hafa fylgst með þessum fyrirspurnum mínum og munu svara þeim hér á eftir --- að bregðast við þessu lagaákvæði? Þegar þessi tillaga hefur orðið að lögum hvernig á þá Samkeppnisstofnun að vinna sitt verk gagnvart Landsvirkjun? Ég hef verið að reyna að setja mig inn í það og ég fæ ekki annað séð en að það geti orðið nokkuð öðruvísi en menn hafa ætlast til.

Markmið samkeppnislaga er tíundað í 1. gr. laganna og samkvæmt anda 1. gr. ber auðvitað samkeppnisráði að vinna eða Samkeppnisstofnun. Það eru nefnd þrjú atriði sem markmið.

Í fyrsta lagi á að ,,vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri.`` --- Nú spyr ég: Hvernig ætlar Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð að vinna að því að ryðja úr vegi takmörkunum í samkeppni í orkusölu, orkudreifingu og orkuöflun? (Iðnrh.: Ég skýri þetta á eftir.) Það er gott að hæstv. ráðherra kallar hér fram í að hann ætli að skýra þetta á eftir því það þarf að skýra þetta.

Í öðru lagi á Samkeppnisstofnun að ,,vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum.`` --- Hvernig á að vinna gegn fákeppni í þessu miðað við óbreytt lög hjá Landsvirkjun að öðru leyti?

Í þriðja lagi á Samkeppnisstofnun að ,,auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.`` --- Þ.e. að orkumarkaðnum, hvort heldur sem um er að ræða virkjun, dreifingu eða sölu.

Út frá öllum þessum þremur markmiðum álykta ég sem svo að Samkeppnisstofnun hljóti að vinna á þann veg að koma á samkeppni í þessari atvinnugrein, brjóta niður einokun Landsvirkjunar og hlutast til um að stofnuð verði önnur fyrirtæki sem verði keppinautar Landsvirkjunar. Þetta er út af fyrir sig pólitískt viðfangsefni sem er mjög áhugavert og forvitnilegt að ræða um. En þetta er bara ekki viðfangsefni þessa máls. Því spyr ég: Hvers vegna eru menn með þessari brtt. að tengja samkeppnislögin við Landsvirkjun fyrst menn vilja ekki breyta Landsvirkjun og afnema einokunina? Menn geta ekki bæði sagt: Við ætlum að viðhalda einokuninni eins og hún hefur verið í öllum meginatriðum --- en sagt svo í hinu orðinu: Við ætlum að láta Samkeppnisstofnun vinna sitt verk á Landsvirkjun um að koma þar inn samkeppni. Annað hvort verður að víkja.

Ég gæti vitnað í fleiri ákvæði í þessum lagabálki sem öll vísa veginn á sama hátt; að stofnunin eigi að hlutast til um aðgerðir sem stuðla að því að koma á samkeppni og á þann hátt muni verðinu vera stýrt, með samkeppni, og svo trúa menn því að sú samkeppni muni þá hafa í för með sér lægra verð. Þetta er hin almenna kenning og hinn almenni grundvöllur sem samkeppnislögin standa á.

Mér sýnist á öllu að það sé einfaldara að setja annað ákvæði um eftirlit með gjaldskrá Landsvirkjunar sem stjórnin setur samkvæmt þessu lagafrv. sem væri bara að hafa það óbreytt frá því sem nú er að Þjóðhagsstofnun komi að þessu máli eins og verið hefur. Þannig viðhaldi menn opinberu aðhaldi og stýringu að nokkru leyti á gjaldskránni og hafa það fyrirkomulag þangað til stjórnvöld hafa gert það upp við sig hvort þau ætla að breyta eða umbylta orkukerfinu. En það hefur komið fram áfangaskýrsla um það efni sem vísar til þess að áhugi sé á því að gera verulegar breytingar á skipan orkumála. Ég mundi ráðleggja hæstv. ríkisstjórn að vinna frekar úr því máli og þegar það lægi fyrir að gera þá þær breytingar á þennan veg í tengslum við hinar almennu lagabreytingar á skipan mála í orkumálum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja meira um þetta lagafrv. Ég hygg að við 2. umr. málsins hafi verið farið rækilega yfir öll þessi helstu gagnrýnisatriði sem ég hef sett fyrir mig í málinu og ég þarf því ekki að fara frekar út í þau en ég hef gert hér að nokkru leyti. Ég læt það því duga sem framlag af minni hálfu til umræðu um þetta mál.