Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 22:11:44 (3354)

1997-02-11 22:11:44# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[22:11]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði um samkeppnislögin. Ég stóð í þeirri meiningu þegar þetta frv. var upphaflega lagt fram að samkeppnislögin frá 1993 mundu almennt gilda um Landsvirkjun. Hins vegar kom í ljós þegar farið var að fjalla um það í hv. iðnn. að menn töldu að til þess að taka af öll tvímæli í þeim efnum væri rétt að setja ákvæði inn í lögin um Landsvirkjun, þ.e. að samkeppnislögin skyldu gilda. Þar voru fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu sammála. En í 2. gr. samkeppnislaganna er gert ráð fyrir því að lögin taki til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum opinberum aðilum eða öðrum. Síðan er í II. kafla, 4. gr. talað um markaðsráðandi fyrirtæki. Það er alveg ljóst að Landsvirkjun er markaðsráðandi fyrirtæki og liggur við að hægt væri að kalla það einokunarfyrirtæki. 17. gr. samkeppnislaganna gerir ráð fyrir því hvernig skuli að staðið þegar slíkt ástand er uppi. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Samkeppnisráð getur gripið til aðgerða gegn samningum, skilmálum, athöfnum og aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Hin skaðlegu áhrif geta m.a. falist í:`` --- Og þar eru nokkur atriði tínd til svo sem sala og verðlagning, það að reynt sé að útiloka keppinautana frá markaði, síðan segir í 17. gr.:

,,Íhlutun [þ.e. Samkeppnisstofnunar] getur falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði.`` --- Þ.e. Samkeppnisstofnun getur gripið inn í. Með öðrum orðum getur Samkeppnisstofnun óskað eftir skýringum frá Landsvirkjun þegar ný gjaldskrá er sett hvaða forsendur liggi að baki þeirri nýju gjaldskrá sem verið er að setja, hvort hún sé í samræmi við verðlagsbreytingar sem orðið hafa. Þannig getur Samkeppnisstofnun lagt mat á það hvort stjórn Landsvirkjunar haldi sig innan eðlilegra marka í þessum efnum af því að fyrirtækið er markaðsráðandi einokunarfyrirtæki. Með öðrum orðum er með þessu að vissu leyti verið að koma á verðlagseftirliti.