Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 22:34:09 (3359)

1997-02-11 22:34:09# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[22:34]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir ágæta og málefnalega ræðu og yfirferð yfir þetta mál. Mér finnst hún hafa verið á rólegum og íhugulum nótum sem kannski hefur verið skortur á stundum í þessum umræðum. Ég verð hins vegar að segja að margt af því sem hann sagði varðandi málið og að það rímaði ekki alveg það sem sagt væri hér og af borgarstjóranum í Reykjavík og borgaryfirvöldum, var svipað og ég sagði hér fyrir kvöldmatinn. Þannig að í sjálfu sér var ekkert nýtt í því fyrir mér sem ég heyrði borgarstjórann segja en hv. þm. hefur þá væntanlega verið kominn heim til sín að borða saltkjöt og baunir og ég get unnt honum þess.

En það sem mig langaði til að segja við hv. þm. í tilefni af þessu er þetta: Er ekki málið á því stigi að það væri eðlilegt að gera hlé á 3. umr. og fá botn í málið? Ég spyr. Ég tel að hv. þm., sem byggði afstöðu sína á bókuninni og rökum sem í henni voru, en telur nú að eitthvað hafi breyst, þá spyr ég hvort honum finnist ekki eðlilegt að það verði gert hlé þannig að það fengist botn í málið ef hann er þá á annað borð hægt að fá.

Í öðru lagi langar mig svo til að spyrja hann einnar spurningar sem kannski er meira og minna akademísk spurning en skiptir samt máli. Telur hann að það kæmi til greina að halda þannig á málum að Akureyri og Reykjavík yrðu losuð út úr Landsvirkjun og skipulag fyrirtækisins og eignarhald endurskipulagt á nýjan leik?