Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 22:35:52 (3360)

1997-02-11 22:35:52# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[22:35]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil svara fyrri spurningu hv. þm. mjög skýrt um að ég tel enga ástæðu til að gera hlé á umræðunni. Ég tel einmitt að svör við eðlilegum spurningum af því tagi sem ég lagði fram áðan eigi að fást í svona umræðu. Þar eigi þessi mál að skýrast. Það getur út af fyrir sig verið sjónarmið að mál séu rædd ítarlega --- og það er auðvitað þannig sem við vinnum þetta hér í þinginu að mál eru rædd ítarlega í iðnn. og mér er kunnugt um að iðnn. Alþingis hefur farið mjög rækilega ofan í þetta mál, velt upp mörgum flötum og haldið marga fundi um málið. En ég tel eðlilegast að í umræðu af þessu tagi eigi sér stað skoðanaskipti og menn spyrji þeirra spurninga sem áleitnar eru og það hef ég gert í þessari umræðu. Ég treysti því að fá skýr svör í umræðunni frá hæstv. iðnrh. Ég beindi spurningum mínum til hæstv. iðnrh. og þaðan vænti ég þess að fá svör. Ég tel enga ástæðu til að varpa þeim spurningum neitt annað eða beina þeim annað. Það er hæstv. iðnrh. sem hlýtur að svara spurningunum.

Hin spurningin er, eins og hv. þm. sagði, akademísk í sjálfu sér. Ég tel að það séu engar forsendur til að svara því almennt hvort það sé ástæða til að losa Reykjavíkurborg eða Akureyri undan þessum samningi. Ég tel að það sé mál sem þyrfti að skoða mikið betur, m.a. í ljósi þess hvernig við viljum verðleggja þetta fyrirtæki. Ég hlýddi t.d. með mikilli athygli á ræðu hv. 5. þm. Vestf. um það hvernig hann taldi eðlilegt að eignarhlutur þessa fyrirtækis væri verðlagður. Mér skildist á hv. þm. að miðað við það væri hlutur Reykjavíkurborgar metinn eitthvað á 900 millj. kr. Auðvitað væri það allt annar flötur sem þar með væri verið að velta upp í þessari spurningu heldur en þeir mörgu milljarðar sem menn höfðu í huga að eignarhlutur Reykjavíkurborgar væri metinn á.