Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 22:45:53 (3365)

1997-02-11 22:45:53# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. minni hluta SvG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[22:45]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég hafði satt að segja hafði ekki hugsað mér að fara í ræðuhöld mikið meir í kvöld vegna þess að það er búið að ræða þessi mál talsvert og ég var búinn að segja hér áður að ég teldi einsýnt að stjórnarliðið ætlaði að klára málið og að við hefðum svo sem gert það sem við gætum til að koma í veg fyrir það. En málið er svona og stjórnarliðið hlýtur að ráða þessu úr því að það vill fara þessa leið þó að það sé leitt til þess að vita vegna þess að ég held að það sé ákveðinn þrái í þessu máli og þvermóðska sem væri gott að vera laus við satt að segja. En látum það vera.

Það sem varð til þess að ég bað um orðið áðan var fyrst og fremst það að ég tel að yfirlýsing hæstv. iðnrh. dugi ekki sem yfirlýsing í þessu máli vegna þess að bókunin heldur ekki nema allir aðilar bókunarinnar séu sammála um innhald hennar. Hæstv. iðnrh. kýs að heyra ekki það sem ég segi um fund iðnn. í þessu máli. Hann kýs að hafa það eitt eftir í þessu máli sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson sagði fyrr á þessum sólarhring sem ég tel að hafi ekki verið alveg nógu nákvæmt.

Hins vegar sagði borgarstjórinn í Reykjavík í kvöldfréttum sjónvarpsins alveg afdráttarlausan og skýran hlut í þessu máli þannig að það þarf ekkert að velkjast í vafa um að borgarstjórinn telur að arðgjafarmarkmiðunum megi ekki víkja til hliðar --- fyrir hverju?---- fyrir verðlagsmarkmiðunum. Það liggur þannig, herra forseti. Þessi sjónarmið hafa komið þarna fram.

Nú veit ég að hv. þm. Stefán Guðmundsson vill trúa öðru og hans skoðun er önnur í málinu. (Iðnrh.: Það er munur á arðgreiðslu og arðgjöf.) Það er alveg hárrétt. Það er verulegur munur á arðgreiðslu og arðgjöf en borgarstjórinn hefur aftur og aftur ítrekað að þessi arðgjafar- og arðgreiðsluatriði séu forgangsverkefni. Út af fyrir sig ætla ég ekkert að fara að setja á hérna einhverjar gagnrýniræður um borgarstjórann í Reykjavík á þessum fundi hér á síðkvöldi. En veruleikinn er þessi. Mér finnst núna kannski að menn séu loksins farnir að ræða þessi mál í rólegheitum og þess vegna finnst mér full ástæða til að velta því fyrir sér hvort ekki væri ástæða til að gera hlé á umræðunni til þess að skýra hlutina aðeins betur vegna þess að hér er greinilega um grundvallarágreining um túlkun að ræða og það er slæmt í svo stóru máli eins og þessu. Ég segi það alveg eins og er. Þess vegna kvaddi ég mér hér hljóðs til þess að hvetja enn þá einu sinni til þess reyna a.m.k. að ná saman um túlkun á þessari bókun sem er afskaplega óljós og óskýr pappir. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst hann afar klénn að ýmsu leyti.

Varðandi málið að öðru leyti þá liggur það þannig að verið er að taka um það ákvörðun, ef frv. verður samþykkt, að borgaður verði arður af eign eignaraðilanna í fyrirtækinu. Eignarstofninn er umdeildur. Ég tel hann allt of hátt reiknaðan. Aðrir telja að hann eigi að vera þessir 14 milljarðar. Ég tel að hann sé sjö sinnum hærri en nemur raunverulegum framlögum þessara aðila.

Í þessu efni þegar komið er að máli af þessu tagi eru þrír möguleikar uppi varðandi framtíðina hjá svona fyrirtæki. Einn er sá að nota hugsanlega hagkvæmni fyrirtækisins til þess að lækka orkuverðið. Annar er sá að nota hugsanlegan arð fyrirtækisins í framtíðinni til þess að borga niður skuldir og þriðji er sá að nota arðinn í framtíðinni og afganginn fyrst og fremst, ef hann er einhver, til þess að borga arð til svokallaðra eigenda. Það kemur í ljós í þessum umræðum að allir vilja í orði kveðnu nota ávinninginn til verðlagslækkunar, allir. Það er enginn ágreiningur um það. Það er enginn hér sem segir: ,,Það á ekki að nota arðinn til verðlagslækkunar heldur í eitthvað annað`` það eru allir sammála um það. Ágreiningurinn snýst um hitt, að menn telja að þessir hlutir séu ekki skýrir í niðurstöðum samninganna og ég held þess vegna að það ástæða væri til þess að hinkra aðeins með málið og skoða það betur.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi sagði í sjónvarpinu í kvöld að þessi bókun væri meira og minna markleysa. Það væri ekkert sérstakt í henni og ekkert nýtt. En hún hefði kannski verið sett á blað til þess að hugga einhverja þingmenn, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson orðaði það. Ég held að það hefði frekar verið til þess að róa einhverja þingmenn. Ég held nefnilega að hinn pólitíski veruleiki sé sá að menn hafi þvælt saman þessari bókun til þess að róa óánægju í stjórnarflokkunum báðum, öllum stjórnmálaflokkunum í raun og veru með þetta mál. Og hvað sem hv. þm. Stefán Guðmundsson segir, þá veit hann alveg eins vel og ég að í öllum stjórnmálaflokkunum sem hér eiga fulltrúa er mikil óánægja með þetta frv., öllum stjórnmálaflokkunum.

Ég þarf ekki að segja margt um Alþb. í þeim efnum. Það hefur komið hér fram. Ég bendi á afstöðu Kvennalistans í þessu máli þar sem greinilega voru mjög skiptar skoðanir. Ég bendi á afstöðu þingflokks jafnaðarmanna þar sem voru skiptar skoðanir í þessu máli. Ég bendi á þá afstöðu sem fram kom hjá einstökum þingmönnum Sjálfstfl. bæði í umræðum og svo atkvæðagreiðslum í dag, bæði hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og hv. þm. Agli Jónsson. Í rauninni er það því svo þegar upp er staðið að allir flokkarnir eru meira og minna lamaðir í þessu máli nema einn, þ.e. Framsfl. sem er það á yfirborðinu og það er auðvitað fyrst og fremst af tillitssemi við hæstv. iðnrh. en ekki af því að menn séu þar svo ánægðir með málið. Það þekki ég líka. Ég er því sannfærður um að menn séu hér að keyra málið allt of hart fram miðað við stöðu þess og í rauninni er hér tiltölulega lítill minni hluti að ná fram lendingu hjá meiri hluta Alþingis og ég er satt að segja fjarska ósáttur við það.

En ég endurtek: Ég skora á hæstv. iðnrh. að beita sér nú fyrir því að gert verði hlé á 3. umr. og bókunin og allt umhverfi málsins verði skýrt aðeins betur og spyr hann svo að lokum: Hvaða nauðsyn er á því að gera þetta mál að lögum í dag eða á morgun?