Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 22:56:26 (3367)

1997-02-11 22:56:26# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[22:56]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að frá sjónarmiði þjóðarbúsins og efnahags- og atvinnumála sé skynsamlegast að nota peningana til þess að lækka orkuverðið og borga niður skuldir. Ég tel að það að greiða arð til eigenda sé mál sem ekki eigi að vera fremst á þessu blaði. Um það hefur deilan snúist allan tímann. Og í svokallaðri bókun frá í gærmorgun stendur að það sé sammæli aðila að forgangsverkefni sé að orkuverð geti lækkað á næstu öld. Það er ekki sterkt til orða tekið. Það er ekki mikill forgangssvipur yfir því, herra forseti.

Í öðru lagi vil ég segja að hæstv. iðnrh. hefur ekki svarað því hvaða ástæða er til þess að hann knýr á um afgreiðslu málsins núna þegar það liggur fyrir, og hefur sérstaklega komið fram á þessu kvöldi, að samningsaðilar bókunarinnar frá í gær skilja hana hvor með sínum hætti, þ.e. þeir aðilar sem hafa verið nefndir hér og er ég þá ekki að gera lítið úr Akureyrarbæ sem hefur ekki komið við sögu í kvöld. Ég hefði talið skynsamlegra að fara yfir málið og reyna að greiða úr misskilningnum. Ég hefði talið það betra og skynsamlegra fyrir alla aðila vegna þess að umhverfi málsins er breytt eins og hv. þm. Einar Guðfinnsson rakti mjög vel í kvöld þó svo að hann kysi að taka trú á túlkun iðnrh. sem úrslitaafl í þessu máli.