Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 23:14:41 (3376)

1997-02-11 23:14:41# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[23:14]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. iðnrh. þar sem hann tekur undir þau sjónarmið sem ég setti fram um 3. lið yfirlýsingarinnar, sem fjallar um það hvernig staðið skuli að ákvörðunum um greiðslu arðs. Þetta er atriði sem skiptir mjög miklu máli og það er meðal mikilvægustu hlutverka stjórnar þessa fyrirtækis, Landsvirkjunar, eins og margra annarra fyrirtækja, að taka afstöðu til og taka ákvörðun um meðferð hagnaðar fyrirtækisins. Það er ekki einfalt mál. Það getur verið í mörgum tilvikum nauðsynlegt að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins með því að greiða ekki neinn arð út. Það er ein leiðin, eins og hefur komið fram í þessari umræðu, og greiða þá niður skuldir.

Aðalatriði málsins er það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra og ég fagna. Það er sá skilningur að hér og nú er ekki búið að taka ákvörðun um það endanlega fyrir mörg næstu ár að arður skuli greiddur út, heldur verður að taka afstöðu til málsins hverju sinni og það er aðalatriði málsins.