Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 23:26:04 (3379)

1997-02-11 23:26:04# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. minni hluta SvG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[23:26]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Stefáni Guðmundssyni og þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel að hún hafi í raun og veru verið góð og skýrt mjög margt. Það sem liggur núna fyrir er eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er greinilegt að eignaraðilar túlka niðurstöður bókunar frá í gær með mismunandi hætti. Nú getur hv. þm. auðvitað komið upp og reynt að mótmæla mér í þessu efni en þetta er mín skoðun og reyndar fleiri þingmanna sem hér hafa talað. Þannig að það er óvissa um forgangsröðina, hvort fyrst komi verðlag eða arðgreiðslur. Og það er raunar mjög merkilegt að þó að umræðan hafi staðið svona lengi þá er ágreiningurinn jafnskýr og afgerandi í lok hennar og í upphafi.

Í öðru lagi liggur fyrir að það er mikill ágreiningur um eigendahlutann og hvað það er sem eigendur hafa í raun og veru borgað inn í fyrirtækið. Þar höfum við sett fram ákveðin sjónarmið og aðrir önnur sjónarmið. Og þar munar hvorki meira né minna en 10--20 milljörðum kr., það er ekki lítið. Og það er alvarlegt að í lok umræðunnar skuli þessi ágreiningur raunverulega vera óleystur og að menn hafi ekki komist til botns í honum að einu eða neinu leyti.

Í þriðja lagi kemur hér að mínu viti fram djúpstæður pólitískur ágreiningur um mikilvægi raforkuverðs í efnhags- og atvinnulífi landsmanna. Ég er þeirrar skoðunar að skynsamlegast sé fyrir þjóðina og atvinnufyrirtækin að orkuverð sé eins lágt og mögulegt er. Ég held að það sé skynsamlegast og heppilegast þegar um er að ræða fyrirtæki okkar og að við séum ekki að leggja á það skatta í leiðinni. Og það er óumdeilt að verið er að leggja skatta á orkuverð til atvinnufyrirtækjanna og heimilanna í landinu sem nemur u.þ.b. 10% af því orkuverði sem almenningur borgar fyrir orkuna á hverju ári. Hér er auðvitað um að ræða mjög alvarlegan pólitískan ágreining og ég sakna þess að við 3. umr. skuli ekki vera hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem rakti þessi mál mjög vel í ræðum sínum og lagði á það áherslu, að ef við ætluðum að tryggja góð lífskjör í landinu þá ættum við ekki að leggja aukaskatta á orkuverð. Það væri skynsamlegra fyrir þróun atvinnulífsins að atvinnulífið fengi orkuna á því verði sem orkan kostar en ekki ætti að leggja á skatta í millitíðinni og nota síðan þá skatta til að dreifa út til fyrirtækja eftir einhverjum misjöfnum reglum. Þær eru sjálfsagt yfirleitt vel hugsaðar en hafa gefist misjafnlega, að ekki sé meira sagt.

Þessi atriði, herra forseti, liggja fyrir í lok umræðunnar. Og ég bæti því svo við: Borgarstjórinn í Reykjavík hefur skýrt frá því að hún telur í raun og veru að bókunin frá í gær breyti engu, arðgreiðsluáherslurnar séu á sínum stað. Ég las hér fyrr upp bókun frá Pétri Jónssyni borgarfulltrúa um sama mál, að í reynd breytti þessi niðurstaða engu --- arðgreiðslurnar hefðu forgang. Og ég vísa einnig til yfirlýsingar Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarfulltrúa í sjónvarpinu í kvöld þar sem hann sagði einnig þetta sama, að í rauninni breytti þessi bókun engu. Ég held að í þessu efni snúist málið ekki um það hvort menn treysta borgarstjóranum í Reykjavík til að standa við orð sín eða ekki. Ég vil algjörlega víkja frá mér öllum svigurmælum um að ég hafi verið að gefa í skyn að henni sé ekki treystandi í þessu máli, ég tel að henni sé treystandi. Ég tel hins vegar að vandinn sé sá að túlkun borgarstjórans og iðnrh. á bókuninni er ekki hin sama. Þess vegna dugir bókunin ekki til að loka þessari umræðu. Og því harma ég að stjórnarliðið skuli ekki hafa fallist á óskir mínar um að fresta 3. umr. til að ná samkomulagi um það hvað felst í raun og veru í bókuninni. Um það er fullur ágreiningur núna þegar umræðunni er að ljúka.