Beiðni um skýrslur

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 13:32:28 (3383)

1997-02-12 13:32:28# 121. lþ. 68.93 fundur 185#B beiðni um skýrslur# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[13:32]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í upphafi þingsins lögðum við alþýðubandalagsmenn fram allmörg þingmál sem snertu stöðu fjölskyldunnar, lífskjör og kjarabaráttu. Meðal þessa voru beiðnir um nokkrar skýrslur og sumar þeirra eru ekki komnar enn þrátt fyrir ákvæði þingskapa um að það eigi að skila slíkum skýrslum í síðasta lagi tíu vikum eftir að beiðni er borin fram. Þær skýrslur sem hér er um að ræða og ekki eru komnar enn eru í fyrsta lagi skýrsla um afleiðingar langs vinnutíma hér á landi. Það er hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og aðrir þingmenn Alþb. og óháðra sem biðja um þá skýrslu. Í öðru lagi er um að ræða beiðni hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur o.fl. um skýrslu um innheimtu vanskilaskulda og er þeirri skýrslubeiðni beint til hæstv. dómsmrh. Og í þriðja lagi er um að ræða beiðni hv. þm. Ragnars Arnalds o.fl. um skýrslu um þróun launa og lífskjara. Mér er kunnugt um að ein þessara skýrslna er væntanleg alveg næstu daga, þ.e. sú skýrslubeiðni sem lögð var fram til hæstv. félmrh. um afleiðingar langs vinnutíma hér á landi. En ég vil fara þess á leit við hæstv. forseta að það verði kannað hvenær hinar skýrslurnar eru væntanlegar og fara fram á að því verði hraðað eins og mögulegt er vegna þess að efni þessara skýrslna snertir að verulegu leyti þá kjarasamninga sem nú standa yfir eða eru að fara í hönd og beint efni þessara kjarasamninga. Ég vil fara fram á það við forseta að það verði kannað og rekið á eftir þessum skýrslum.

Síðan vil ég segja það, hæstv. forseti, að okkar reynsla er sú að þessi tíu vikna tími heldur ekki og það þarf ekki að vera vegna þess að menn slái slöku við í ráðuneytunum heldur vegna þess að hér sé um að ræða gríðarlega mikið verk sem taki lengri tíma að vinna. Og þá finnst mér spurning hvort ekki á að taka á þessum beiðnum með sérstökum hætti af forsn. eða forseta þegar þær eru samþykktar á hverjum tíma. Og ég beini því til hæstv. forseta og að menn íhugi það við endurskoðun þingskapa hvort breyta þarf ákvæðum þeirra um þessa fresti.