Beiðni um skýrslur

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 13:35:51 (3385)

1997-02-12 13:35:51# 121. lþ. 68.93 fundur 185#B beiðni um skýrslur# (aths. um störf þingsins), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[13:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ein af þessum skýrslum er frá mér og ég verð að biðjast velvirðingar á því að hún skuli ekki vera komin fyrr en hún verður lögð hingað inn á skrifstofuna í dag. En til þess liggja orsakir. Þessi skýrsla var tilbúin fyrir jól en þá stóðu yfir viðræður og samningar milli aðila vinnumarkaðarins um styttingu vinnutíma í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins og mér fannst viðkunnanlegra að segja frá stöðunni eins og hún væri að verða og telja upp þá samninga sem voru í burðarliðnum. Þess vegna frestaðist þetta nú en sú skýrsla er væntanleg í dag.

Varðandi skýrslugjafir almennt þá er það rétt sem fram kom hjá hv. ræðumanni að það er iðulega töluverður frestur á því að skýrslum sé skilað og stundum farið fram yfir tilskilinn tíma. En það er líka misjafnlega mikið verk að útbúa þessar skýrslur. Ráðuneytin eru störfum hlaðin og það er ekkert mjög einfalt að leysa það ef þarf að taka fólk úr öðrum verkum langtímum saman til þess að undirbúa skýrslur. Og ég vil beina því líka til forsn. að hún reyni að hafa hemil á skýrslubeiðnum sem er ákaflega tímafrekt að svara. Út af fyrir sig er ég ekki að biðjast undan því að gefa svör eða skýrslur en það er bara annað en gaman ef það er mjög mikið verk að svara þeim og ég vil biðja forseta að hafa það í huga.