Magnesíumverksmiðja

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 13:54:00 (3394)

1997-02-12 13:54:00# 121. lþ. 68.2 fundur 306. mál: #A magnesíumverksmiðja# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[13:54]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram finnst mér að menn ættu að fagna því almennt að þetta mál komi til umræðu hér á þingi. Mér finnst ekki seinna vænna að málefni þessarar verksmiðju komi hér fram, hvað svo sem fyrir liggur eða hvernig menn meta málið. Mér skilst að búið sé að ráðstafa allverulegum fjárhæðum til undirbúnings málsins og auðvitað skiptir öllu að meginlínurnar séu sæmilega skýrar þegar upp er lagt, áður en menn fara að verja stórfé til slíks undirbúnings.

Ég viðurkenni að magnesíumframleiðsla er einn af þeim kostum sem eðlilega eru til athugunar hér á landi. Þegar ég var ráðherra iðnaðarmála var þetta eitt af þeim verkefnum sem var til athugunar, að vísu lagt til hliðar bæði af hagkvæmni og umhverfisáhrifum árið 1982. Það kom út skýrsla um málið 1981 sem var unnin á vegum Iðntæknistofnunar. En hér er dregið fram svo stór þáttur sem snertir þetta mál að menn þurfa umfram allt að átta sig á honum hið allra fyrsta hvort lengra verður haldið í raun miðað við okkar alþjóðlegu skuldbindingar um losun á gróðurhúsalofttegundum. Hér hafa engin svör komið fram um það nema efasemdir nokkurra hv. þm. að upplýsingar Hollustuverndar byggi á staðreyndum. En það hef ég ekki metið og hef ekki aðstæður til að meta hér og nú. En ég tel að hér sjái menn framan í vandamál sem á eftir að hafa áhrif hérlendis frá deginum í dag að telja í sambandi við áform stjórnvalda um nýtingu á orku og kosti í atvinnumálum. Og ef menn líta á svarið með tilliti til stóriðjufyrirtækjanna og að við erum þegar að keyra fram úr skuldbindingum og fram undan er að draga úr losun koltvíoxíðs, (Forseti hringir.) væntanlega með lagalega skuldbindandi samningi sem hæstv. umhvrh. og hans fulltrúar taka þátt í á alþjóðavettvangi að verði lagalega skuldbindandi, þá sjá menn hvað hér er í rauninni á ferðinni í þessum efnum. (Forseti hringir.) Íslendingar verða að vera samkvæmir sjálfum sér. Við getum ekki vænst þess að fá alþjóðasamning um lífræn þrávirk efni og losun þeirra í hafið eins og verið er að vinna að af hálfu umhvrn. annars vegar og hins vegar að segja, ja, þetta kemur okkur nú eiginlega ekki við, við viljum bara fela þetta.