Magnesíumverksmiðja

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 13:56:55 (3395)

1997-02-12 13:56:55# 121. lþ. 68.2 fundur 306. mál: #A magnesíumverksmiðja# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[13:56]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda sem hann sagði í upphafi lokaorða sinna að það er ekki óeðlilegt að þetta mál sé tekið hér til umræðu. Málið er afar stórt og reyndar merkilegt að það skuli ekki vera komið lengra í umræðu og upplýsingagjöf til þeirra stofnana sem um málið þurfa að fjalla á einhverju stigi. Ég verð að taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, og reyndar öðrum sem hér hafa tjáð sig, að upplýsingarnar sem hér komu fram í svari mínu við spurningu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar á dögunum komu sjálfsagt mörgum og þar á meðal þeim sem hér stendur mjög á óvart. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ef ekki annað kemur til þá held ég að það sé óhætt að endurskoða allar hugmyndir í sambandi við þessa verksmiðju, ef ekki kemur annað til. Því ef þetta væru staðreyndir, að auka losun gróðurhúsalofttegunda um allt að 100%, þá sé ég ekki hvernig við ættum að geta staðið við slíka framkvæmd.

Hins vegar hefur komið fram hjá hv. þm. Reykn., sem vafalaust hafa einhverjar nýrri upplýsingar um málið, að það kunni að vera allt aðrar hugmyndir uppi. Þá er sjálfsagt að taka það til skoðunar. Mér er líka tjáð það hér í framhjáhlaupi að frummatsskýrsla sé nú í vinnslu og hugsanlega væntanleg til Skipulags ríkisins innan skamms tíma. Þá er hægt að fara að fjalla um málið með öðrum hætti heldur en hér hefur verið gert og þá þarf að skoða allar hugmyndir. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spurði um hver verður kvöð okkar og skylda í sambandi við þessa samninga. Það er rétt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að við erum í samningaviðræðum. Fulltrúar umhvrn. eru þátttakendur í þessum viðræðum á alþjóðavettvangi um samninginn um losun þessara lofttegunda. Ég hef verið því fylgjandi að hann endaði með lagalegum skuldbindingum. En við höfum líka gert ráð fyrir því að í þeim samningi séu opnaðir þeir möguleikar að sjálfsögðu að þjóðir vinni sameiginlega að þessu verkefni og það sé litið á málið frá fleiri hliðum en bara skyldum einstakra þjóða því það gæti orðið þeim mjög erfitt og kannski illmögulegt að standa við slíkt. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Það var aðeins að lokum að ég tel að umræða um þessa verksmiðja og önnur sú umræða sem hér hefur verið að undanförnu í þjóðfélaginu um stóriðju og nýtingu orkunnar undirstriki nauðsyn þess að móta samræmda stefnu til lengri tíma þar sem reynt sé að samræma eða samhæfa, hvaða fallega orð sem við notum yfir það, sjónarmið stóriðjunnar, orkunýtingarinnar og umhverfismálanna svo og annarra atvinnugreina.