Niðurrif húsa

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 14:08:04 (3398)

1997-02-12 14:08:04# 121. lþ. 68.3 fundur 320. mál: #A niðurrif gamalla húsa# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., TIO
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[14:08]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Svavar Gestsson hafi haft rétt fyrir sér að vekja athygli á þessu máli. Mig langar aðeins að koma því að í þessari stuttu umræðu að auðvitað eru friðunarákvæði sem tengjast húsum íþyngjandi fyrir eigendurna og það er sérstakt vandamál sem þarf að taka á. Mig minnir hins vegar að svo sé í lögum að ef húsfriðunarnefnd gerir athugasemdir við uppbyggingu gamalla húsa sem leiðir til þess að húsbyggjandinn hefur af því kostnað að fara eftir athugasemdunum, þá ber húsfriðunarnefnd að greiða kostnaðarmuninn. En staðreyndin er hins vegar sú að þetta lagaákvæði hefur aldrei verið mjög virkt, ég leyfi mér jafnvel að efast um að það hafi nokkurn tíma verið virkt og að þessu leyti er full ástæða til þess að endurskoða þennan lagaramma með það fyrir augum að gera þeim sem eiga gömul hús auðveldara að standa vörð um þau menningarverðmæti sem þessi gömlu hús eru.