Synjun atvinnuleyfa

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 14:18:31 (3404)

1997-02-12 14:18:31# 121. lþ. 68.4 fundur 295. mál: #A synjun atvinnuleyfa# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[14:18]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Til þess að fyrirbyggja misskilning er rétt að taka það fram að það má skipta atvinnuleyfum í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða atvinnuleyfi veitt útlendingi persónulega. Dæmi um slík leyfi er óbundið atvinnuleyfi, námsmannaleyfi og atvinnurekstrarleyfi. Samtals var 187 útlendingum veitt þess háttar leyfi á síðasta ári og engri umsókn synjað. Hins vegar eru atvinnuleyfi veitt atvinnurekanda og þau leyfi heimila honum að ráða útlending í starf hér á landi. Hér er um að ræða tímabundið atvinnuleyfi og leyfi til að ráða útlending í vist, þ.e. au pair leyfi og á árinu 1996 var atvinnurekendum heimilað að ráða samtals 1.019 útlendinga í störf hér á landi. Í einu tilviki var um að ræða umsókn sem var tvívegis synjað og enn fremur var synjað um tímabundið atvinnuleyfi vegna þess að í gildi var leyfi til vistráðningar. Hér er því um að ræða synjanir sem snerta samtals 39 útlendinga.

Á það er rétt að minna að helstu skilyrði til þess að ráðherra sé heimilt að veita atvinnuleyfi er að finna í 7. gr. laga nr. 133/1994, um atvinnuréttindi útlendinga, en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,að kunnáttumenn verði ekki fengnir innan lands, atvinnuvegi landsins skorti vinnuafl eða aðrar sérstakar ástæður mæli með leyfisveitingu``.

Í ljósi þess að undanfarin ár hefur verið hlutfallslega mikið atvinnuleysi hér á landi hef ég talið rétt að þrengja meira en áður að útgáfu atvinnuleyfa. Það má segja að það sé verklagsregla að synja um atvinnuleyfi beri umsóknin með sér að ekki hafi verið leitað aðstoðar vinnumiðlunar við að finna starfsmann og einnig hefur ráðuneytið synjað um leyfi hafi þótt ástæða til að ætla að ekki hafi verið látið nægilega á reyna að fá atvinnulausan einstakling til að gegna starfinu.

Af framansögð leiðir að í nær öllum tilvikum hefur verið synjað um atvinnuleyfi með tilvísun til mikils atvinnuleysis og bent á að íslenskur starfsmaður eigi að vera tiltækur til að gegna starfinu. Þess má geta að sótt var um heimild til að ráða útlendinga til starfa við fiskvinnslu í 16 tilvikum, í 12 tilvikum vegna aðstoðar á heimilum, í sex tilvikum vegna ræstinga, hreingerninga og þrifa, í þremur tilvikum til aðstoðar í eldhúsi og vegna verslunarstarfa í einu tilviki. Langflestar umsóknirnar sem synjað var komu frá fyrirtækjum og einstaklingum þar sem atvinnuleysi hefur verið hlutfallslega mikið, þ.e. á Suðurnesjum, í Reykjavík og í nágrannabyggðum höfuðborgarinnar, þ.e. samtals í 31 tilelli. Fimm voru frá fyrirtækjum á Vestfjörðum og þrjár synjanir vegna fyrirtækja á Norðausturlandi. Synjanirnar snertu fyrst og fremst ríkisborgara frá Filipseyjum, þ.e. 20 einstaklinga, frá Tælandi 11 einstaklinga, fjóra frá Víetnam og einn einstaklingur frá eftirtöldum löndum: Búlgaríu, Litáen og Sierra Leóne. Þess er rétt að geta að einstaklingar frá Filippseyjum og Tælandi eru einnig mjög margir með gild atvinnuleyfi hér á landi, þ.e. 181 á sl. ári frá Filippseyjum og Tælandi.

Á undanförnum árum hafa félmrh. borist allmargar umsóknir um atvinnuleyfi vegna ráðningar á fólki frá Suðaustur-Asíu í ýmiss konar þjónustustörf, t.d. aðstoð við barnagæslu, matseld og þrif fyrir einstaklinga. Ráðuneytið hefur fengið ábendingar um að aðbúnaði þessa fólks og félagslegu öryggi sé að ýmsu leyti áfátt. Það hefur verið nefndur óhóflegur vinnutími og að reynt sé að sniðganga umsamin ráðningarkjör. Ráðuneytið hefur haft verulegar áhyggjur af stöðu þessa fólks og þar af leiðandi hefur verið tregða á því að veita leyfi vegna ráðningar á fólki til aðstoðar á einkaheimilum þar sem erfitt er að fylgjast með að farið sé að settum reglum um aðbúnað og vinnuumhverfi starfsmanna. Í ráðuneytinu er verið að leita leiða til að tryggja stöðu framangreinds hóps útlendinga. Ráðuneytið hefur efnt til fundar með útlendingaeftirlitinu og Alþýðusambandinu um málefnið í því skyni að freista þess að herða þessar kröfur og auka eftirlit og það er verið að vinna að tillögum í ráðuneytinu í þessu skyni. (Forseti hringir.) Þá hafa ráðuneytinu borist ábendingar um að ekki væri farið að lögum varðandi ráðningu útlendinga í störf á Íslandi, og það hefur verið farið fram á það við rannsóknarlögregluna að kanna það, og fullyrðingar um að pólskir ríkisborgarar hefðu verið ráðnir til starfa hér á landi og krafðir um fjárupphæðir vegna ráðningar. Rannsóknarlögreglan taldi ekki ástæðu til aðgerða í því máli. Enn fremur hefur Vinnueftirlitið verið beðið að kanna aðbúnað erlendra manna á vinnustöðum og sem betur fór reyndist hann í lagi.