Synjun atvinnuleyfa

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 14:24:06 (3405)

1997-02-12 14:24:06# 121. lþ. 68.4 fundur 295. mál: #A synjun atvinnuleyfa# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[14:24]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þessar upplýsingar. Mér fannst þetta mjög athyglisvert, ekki síst þessar tölur um einstaklinga frá Austur-Asíu sem eru býsna fjölmennir í hópi þeirra sem hafa fengið atvinnuleyfi. Og það kemur fram að allstórum hópi hefur verið synjað um atvinnuleyfi. Þetta vekur upp spurningar um það hvort hér sé ákveðin tilhneiging til þess að flytja inn ódýrt vinnuafl, þ.e. vinnuafl sem er ódýrara en það sem hér fæst og hefur það þó verið auglýst víða um lönd sem fremur ódýrt vinnuafl og til þess gert að laða að erlenda fjárfestingu. En ég tel að þetta sé atriði sem þurfi að athuga nánar. Þetta er að vísu það sem maður sér frá öðrum löndum. Það er mikil hreyfing á vinnuaflinu en þessar tölur um fólk frá Austur-Asíu eru sérstaklega athyglisverðar og væri fróðlegt að fá að vita hvort þetta fólk hefur verið komið hingað, t.d. þegar verslanir eru að biðja um atvinnuleyfi þá hafa menn ákveðinn einstakling í huga og hann er þá væntanlega kominn til landsins. Síðan væri fróðlegt að fá að vita hvað verður um þetta fólk, hvað verður um þá sem er synjað um atvinnuleyfi. Þá væri það líka fróðlegt að fá það fram hvort vinnuveitendur, t.d. úti á landi eru að leita eftir útlendingum til þess að borga lægri laun eða hver ástæðan er. Verkalýðsfélögin hafa reyndar vakið athygli á því að það sé sérkennilegt að atvinnurekendur séu reiðubúnir til þess að borga flugfar fyrir erlent vinnuafl, bæði til landsins og frá því en ekki þegar Íslendingar eiga í hlut. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ég þakka þessi svör. Hér er um mál að ræða sem forvitnilegt væri að skoða nánar og það er greinilegt að ráðuneytið er að athuga ýmsar hliðar þessa máls.