Synjun atvinnuleyfa

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 14:27:56 (3407)

1997-02-12 14:27:56# 121. lþ. 68.4 fundur 295. mál: #A synjun atvinnuleyfa# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[14:27]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil alls ekki standa fyrir leyfisveitingum til atvinnurekenda ef nokkur minnsti grunur er um að þeir séu að hugsa sér einhvers konar þrælahald, að fá sér ódýrari vinnukraft heldur en er hér á boðstólum innan lands. Þeir verða auðvitað að hlíta því að borga þessu fólki eftir samningum og eftir því þarf að ganga. Það er hins vegar erfiðara þegar um er að ræða störf á einkaheimilum að fylgjast með því. Það er unnt að hafa góða vissu um þetta í fyrirtækjunum og verkalýðsfélögin eiga að hafa eftirlit með því að eðlilega sé gert við fólkið og því borguð sams konar laun og Íslendingum.

Þetta fólk er ekki komið til landsins. Gangurinn er sá að atvinnurekandi sækir um að fá að flytja inn vinnukraft og útlendingaeftirlitið gengur mjög strangt eftir því að ekki séu veitt leyfi til fólks sem komið er til landsins. Það á að fyrirbyggja að hingað komi fólk kannski með eitthvað vafasama fortíð, strandi hér og sæki um atvinnuleyfi. Það fær ekki atvinnuleyfi. Þetta fólk er ekki komið hingað sem ferðamenn heldur vil ég undirstrika að hér er verið að tala um viðskipti milli ráðuneytisins og atvinnurekenda.

Sumir atvinnurekendur sækja sérstaklega eftir þessu fólki og ég hef orðið var við það að þeir vilja það heldur heldur en Íslendinga og sumar neitanirnar eru þannig til komnar að við höfum haft grun um að þeir vilji bara miklu fremur útlendinga, þyki þeir agaðri vinnukraftur og kann það að vera rétt. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Hér eru að staðaldri vinnandi með fullu leyfi frá ráðuneytinu um 1.200 manns frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Íbúar Evrópska efnahagssvæðisins þurfa ekki að sækja um atvinnuleyfi, hafa sama rétt hér eins og við og hér gætu þá verið 1.500--2.000 erlendir ríkisborgarar í vinnu og við þurfum á þeim að halda til þess að halda atvinnulífinu gangandi í verulegum mæli.