Viðræðuáætlanir

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 14:36:43 (3410)

1997-02-12 14:36:43# 121. lþ. 68.5 fundur 307. mál: #A viðræðuáætlanir# fsp. (til munnl.) frá félmrh., BirnS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[14:36]

Birna Sigurjónsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tel að staðan í kjaraviðræðum eins og hún blasir við okkur nú beri þess vitni að breytingar á samningaviðræðum hafa ekki skilað því sem til var ætlast. Mig langar að vitna í orð Elnu Katrínar Jónsdóttur í Kennarablaðinu í janúar sl. þar sem hún segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Gerð viðræðuáætlana og tímalegt upphaf samningaviðræðna hefur ekki orðið samningamönnum ríkisins hvati til þess að mæta betur undirbúnir til leiks. Miklum tíma hefur verið sóað í þessum viðræðum í almenn pólitísk ræðuhöld.``

Það hlýtur að vekja undrun að sá aukni tími sem hefði átt að fást með breyttum og lengri tíma til viðræðna skuli ekki nýttur betur en raun ber vitni og málum í kjaraviðræðunum skuli eftir sem áður stefnt í óleysanlegan hnút.