Viðræðuáætlanir

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 14:37:53 (3411)

1997-02-12 14:37:53# 121. lþ. 68.5 fundur 307. mál: #A viðræðuáætlanir# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[14:37]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svörin. Þau leiddu í ljós að allverulegur fjöldi viðræðuáætlana hefur verið gerður. Það væri forvitnilegt að fá það nánar fram hvernig gengur og að hve miklu marki unnið er í samræmi við þessar viðræðuáætlanir. Mér hefur heyrst á talsmönnum verkalýðshreyfingarinnar að þetta gangi allt mjög stirðlega og nánast ekki neitt þó að einstök dæmi séu um annað. Menn eru að lýsa óánægju sinni með þær kröfur sem Verslunarmannafélag Reykjavíkur hefur sett fram og er greinilegt að það er ekki fullkomin eining um stefnuna.

Það er ánægjulegt að hæstv. félmrh. skuli vera svona bjartsýnn varðandi framgang samninga. Auðvitað vonum við öll að sú bjartsýni rætist og að við náum samkomulagi áður en fer í verra. En ég er ekki svona bjartsýn, því miður, og þar hef ég sérstaklega fyrir mér orð verkalýðsleiðtoga sem hafa birst í blöðum að undanförnu og orð þeirra sem m.a. hafa verið að koma á fund hv. félmn. að undanförnu. Við sjáum hvað setur. Ég tel sem sagt að það hafi ræst að viðræðuáætlanir yrðu miklu fleiri og viðameiri en menn ætluðust til. Reyndar var það von hæstv. félmrh., eins og fram kom í ræðum hans, að það yrðu heildarsamtökin sem gerðu þessar áætlanir en það fór nú öðruvísi. Það eru einstök sambönd sem áskilja sér rétt til þess að gera sínar áætlanir og þannig er þetta á vinnumarkaðinum. Auðvitað á hver að semja fyrir sig. En viðræðuáætlanirnar miðast miklu meira við samflotshugmyndina sem greinilega er ekki viðhöfð að þessu sinni.