Staða þjóðkirkjunnar

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 10:59:11 (3446)

1997-02-13 10:59:11# 121. lþ. 70.1 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[10:59]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans við ýmsum þeim spurningum sem upp komu í umræðunni. En það var ein spurning sem mig langaði til að bæta við, ekki síst í framhaldi af ræðu hans núna. Ég benti á það í ræðu minni um þetta mál að Samband ungra sjálfstæðismanna hefði ályktað um að þeir telji aðskilnað ríkis og kirkju vera æskilegan og meiri hluti þjóðarinnar virðist vilja það samkvæmt skoðanakönnunum. Ég benti á þetta í ræðu minni, án þess að ég telji raunhæft að slíkt skref verði stigið nú. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann telji að sú breyting sem nú er fyrirhuguð, þ.e. að færa kirkjujarðirnar endanlega yfir til ríkisins og að á móti komi laun frá ríkinu, muni ekki gera það erfiðara í framtíðinni að aðskilja ríki og kirkju eins og meiri hluti þjóðarinnar virðist vilja og Samband ungra sjálfstæðismanna m.a.