Staða þjóðkirkjunnar

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 11:11:19 (3453)

1997-02-13 11:11:19# 121. lþ. 70.1 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[11:11]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. benti á er ákvæði um það í samningnum sjálfum að 3. gr., sem fjallar um fyrirkomulag á launagreiðslunum og með hvaða hætti það skuli vera og hvaða fjölda starfsmanna eigi að greiða laun, megi taka til endurskoðunar eftir 15 ár. En eðli máls samkvæmt getur Alþingi að sjálfsögðu alltaf tekið ákvarðanir um það að breyta þeirri skipan sem nú er á varðandi þjóðkirkjuna. Það er ekkert sem bindur hendur Alþingis í þessu efni. Við erum hér að staðfesta með formlegum hætti það sem í raun var verið að gera árið 1907 varðandi kirkjueignirnar og síðan launagreiðslur þar á móti. Og kjósi Alþingi að fella niður þjóðkirkjuskipulagið og breyta stjórnarskránni að því leyti eða gera það að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu með almennum lögum þá er það auðvitað hægt. Þá fara einfaldlega fram viðræður um það á milli ríkis og kirkju hvernig fara skuli með efndir samningsins og við erum ekki að breyta þar í neinu frá því sem verið hefur frá 1907. Ég geri ekki ráð fyrir því að nokkrum þingmanni, hvorki þá né nú, hafi dottið í hug að ætla að taka kirkjujarðirnar frá kirkjunni án þess að hún fengi neitt þar á móti, enda stæðist það heldur ekki stjórnarskrána. Þannig er í raun ekki verið að gera neina þá breytingu frá því sem verið hefur og ekkert verið að binda hendur ríkisvaldsins. En auðvitað verða menn að semja þá um lúkningu þeirra mála ef sú staða kemur upp og það hefðu menn hvort eð er þurft að gera því að jarðirnar voru í vörslu ríkisins.