Staða þjóðkirkjunnar

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 11:15:38 (3455)

1997-02-13 11:15:38# 121. lþ. 70.1 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[11:15]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hér er kannski verið að rugla einhverju saman. Þegar við tölum um þær miklu breytingar sem verið er að gera þá erum við að tala um verkefni sem verið er að flytja frá ríki yfir til kirkju. Hins vegar er ekki nein grundvallarbreyting að því er varðar eignastöðuna. Það er verið að færa eignir formlega til ríkisins sem hafa verið í vörslu hennar og staðfesta það sem verið hefur að á þeim grunni greiði ríkið prestum laun. Það hefur aldrei verið ætlan ríkisins, var það ekki heldur 1907, að taka eignir kirkjunnar án greiðslna af ríkisins hálfu. Greiðslurnar hafa verið í þessu formi. Ef ríkið kýs á einhverju stigi að rifta þessum samningi og hætta að greiða prestum laun þá verður einhvern veginn að bæta kirkjunni það vegna þeirra jarða sem ríkið hefur fengið. Það er kjarni málsins, hefur alltaf verið grundvöllur þessa, og verður engin breyting á við þetta að jarðirnar eru undirstaðan undir launagreiðslunum, hafa verið það og hér er ætlunin að það verði. En það hefur aldrei verið markmið ríkisvaldsins að taka þessar jarðir bótalaust af kirkjunni. Enda sæi ég ekki mikla sanngirni í því og það mundi heldur ekki standast ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarréttarákvæði hennar.