Staða þjóðkirkjunnar

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 11:18:38 (3457)

1997-02-13 11:18:38# 121. lþ. 70.1 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[11:18]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég er hér með nokkrar athugasemdir sem ég mundi gjarnan vilja að færu með inn í þingnefnd þar sem fjallað verður áfram um frv. um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

Þegar ég las frv. yfir fannst mér að það væri að ýmsu að gæta í því. Margt hefur komið fram hér ágætlega í umræðum og ég ætla að reyna að fjölyrða ekki um það. En frv. þetta er samið af nefnd sem skipuð var af kirkjuráði og voru þrír af fimm nefndarmönnum prestar. Í því er afskaplega vel gætt að öllu því er lýtur að því að prestar haldi óskoruðu valdi yfir kirkjum og söfnuðum og er víða nokkuð lævíslega að farið.

Í 38. gr. er ákvæði um að biskup skuli auglýsa laus prestaköll og síðan kemur orðrétt:

,,Nánari reglur um val á sóknarpresti og presti skv. 34. gr. skal setja í starfsreglur skv. 60. gr.``

Þegar lesnar hafa verið ívitnaðar greinar og skýringar við 38. gr. kemur í ljós að við val á sóknarpresti eða presti eiga að gilda lög nr. 44/1987 þar til kirkjuþing hefur sett slíkar starfsreglur. Þarna er beinlínis ætlast til að menn kaupi köttinn í sekknum. Ég sé ekki betur en prestum sé selt þarna sjálfdæmi með því að ákveða hvernig eigi að velja þá sjálfa til starfa. Skulu nú færð að því nokkur rök.

Kirkjuþing á að vera skipað 21 fulltrúa. Þar af skulu vera níu prestar og ellefu leikmenn úr hópi sóknarnefndarfólks. Mér dettur ekki annað í hug en að þessir níu prestar geti ráðið þarna því sem þeim dettur í hug því ekki þarf nema tvo fulltrúa leikmanna til að prestar ráði meiri hlutanum og þar með hvernig á að velja þá sjálfa í embætti. Ég tel álitamál hvort þrengja eigi þá kosti sem sóknarbörnum eru settir samkvæmt gildandi lögum um að velja sér sóknarprest.

Ýmislegt er fleira hægt um frv. þetta að segja og þá hnýt ég næst um 39. gr. þar sem aftur á að taka upp ótímabundna æviráðningu presta í embætti. En samkvæmt núgildandi lögum eru þeir skipaðir til fimm ára í senn. Þessi breyting er í algjöru ósamræmi við nýupptekna stefnu í ráðningu embættis- og starfsmanna ríkisins. Þá er þess að geta að á síðustu árum hafa komið upp harðvítugar deildur milli presta og þeirra sóknarbarna og hafa að minnsta kosti sumar þeirra verið torleystar. Deilur af þessu tagi mundu hverfa sjálfkrafa ef presturinn væri ráðinn með sömu skilmálum og aðrir opinberir starfsmenn. Það mundi tryggja að prestar sem ekki hefðu lag á að umgangast söfnuðinn og eru prestastéttinni til lítils sóma mundu velta úr embætti.

Kaflinn sem ber yfirskriftina Sóknir og prestaköll þarf sérstakrar athugunar við. Í 48. gr. segir:

,,Kirkjusókn er félag þess fólks innan þjóðkirkjunnar sem býr innan sóknarmarka.``

Í niðurlagi sömu greinar segir:

,,Sóknarmenn eiga rétt á kirkjulegri þjónustu í sókn sinni ...``

Ekki þætti mér það nú ofrausn að ákveða að þeir sem eru í þjóðkirkjunni ættu rétt til kirkjulegrar þjónustu í hvaða kirkjusókn sem væri.

Þá þarf 54. gr. athugunar við:

,,Sóknarprestur skal ráða því hvernig afnotum af kirkjunni skuli háttað, enda ber hann ábyrgð á því sem þar fer fram.``

Þarna kemur að því sem þarf að staldra örlítið við að mínum dómi. Formaður Prestafélagsins lét hafa það eftir sér í fréttum fyrir stuttu að koma þyrfti í veg fyrir að fólk leitaði með prestverk til annarra presta en síns sóknarprests. Annar prestur, starfandi á biskupsstofu kom því á framfæri að þessi mál mætti leysa með því að færa svokölluð aukaprestverk sem greitt er fyrir inn í fasta kaupið. Næðist þetta fram þá er búið að svínbinda söfnuðinn við sóknarprestinn og mundi það gera eitt af tvennu, nema hvort tveggja væri, að efna til ófriðar í prestaköllum og fjölga úrsögnum úr þjóðkirkjunni. Mér þætti ekki óeðlilegt að tekið væri fram í lögum að sóknarnefnd færi með húsbóndavald yfir sóknarkirkjunni. Sóknarpresturinn hefði forgang að kirkjunni með sín prestverk og sóknarnefnd hefði rétt til að lána öðrum prestum kirkjuna til kirkjulegra athafna og að sóknarbörn ættu rétt á að nota sína eigin kirkju þótt fenginn væri annar prestur til að framkvæma kirkjulega athöfn. Þá þarf einnig að taka skýrt fram að sóknarnefnd fari með öll fjármál og mannaforráð sóknarinnar og þá þarf að koma skýrt fram að sóknarpresturinn sé starfsmaður safnaðarins. Ég tel óeðlilegt að prestar telji sig hafa húsbóndavald yfir starfsmönnum kirkjunnar og fjármálum. Að hafa húsbóndavald yfir starfsmönnum er óbein fjármálastjórn.

Það hefur færst í vöxt að fólk sæki meira en áður til presta sem ekki eru þeirra sóknarprestar. Þetta verða menn að viðurkenna hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þá hefur mér skilist að prestar teljist vera sálnahirðar eða sálgæslumenn. Ekki ætla ég að draga það í efa heldur finnst mér það mikið á eftir tímanum að menn eigi ekki rétt á að leita nema til eins prests á þeim stöðum þar sem um fleiri presta er að ræða.

Mér finnst þetta frv. minna að verulegu leyti á þann hugsunarhátt, reglur og venjur sem voru algildar um aldamótin 1800. Frv. er því að mínum dómi talsvert á eftir tímanum og verði það samþykkt án breytinga er þess ekki að vænta að það leysi þann vanda sem kirkjan hefur átt við að stríða á undanförnum árum. Mér sýnist vanta í þetta frv. ákvæði um hvernig leysa megi með allsherjaratkvæðagreiðslu ýmis ágreiningsefni sem upp kunna að koma innan sóknarinnar því þar sem kirkjusókn telst félag þá er eðlilegt að málum sé þar skipað á lýðræðislegan hátt.

Niðurstaða af því sem ég hef verið að segja er í stuttu máli að það er álitamál hvort rétt er að þrengja rétt fólks í þjóðkirkjunni til að velja sér sóknarprest eða prest. Ég vil líka taka fram sérstaklega að það mæla engin rök með því að sóknarprestur geti útilokað sóknarbarn frá kirkjulegri þjónustu í kirkju sinni ef það kýs þjónustu annars prests. Einnig vildi ég leggja áherslu á að það hefur tíðkast í vaxandi mæli að fólk leiti með kirkjulega þjónustu til þess prests sem það kýs helst sjálft. Það er varhugavert að hamla gegn þeirri þróun. Ég vil að lokum segja að það er umhugsunarefni hvort rétt sé að kirkjuþing setji um það reglur hvernig eigi að velja presta. Það á að mínum dómi að ákveðast með lögum frá Alþingi enda er ég þjóðkirkjumanneskja og tilheyri þeim minni hluta landsmanna sem vilja að kirkjan verði áfram þjóðkirkja.