Biskupskosning

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 11:29:31 (3459)

1997-02-13 11:29:31# 121. lþ. 70.2 fundur 302. mál: #A biskupskosning# (kosningarréttur við biskupskjör) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[11:29]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég sit í hv. allshn. og mun því fá tækifæri til að fjalla um þetta mál sem og hitt fyrra sem var til umræðu hér áðan. En ég vil nota tækifærið vegna þessa frv. og vekja athygli á því að gildandi lög um biskupskosningu, sem nú á að fara að breyta, munu falla úr gildi ef hið fyrra frv. sem var hér til umræðu áðan, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, verður að lögum. Samkvæmt því frv. er gert ráð fyrir því að það verði kirkjuþing sem ákvarði hvaða fyrirkomulag verður í framtíðinni haft á biskupskjöri. Eins og alþjóð veit er ansi stutt í næsta biskupskjör og þess vegna mjög eðlilegt að þau lög sem nú eru í gildi verði færð til samræmis við það sem rétt þykir ef fyrra frv. verður ekki að lögum á þessu þingi. Ég fagna í sjálfu sér þeim breytingum sem hér eru lagðar til, þ.e. að sérþjónustuprestar, aðstoðarprestar og fleiri fái atkvæðisrétt til biskupskjörs. En þar sem þetta er hugsanlega seinasta tækifærið sem við alþingismenn fáum til að tjá okkur um biskupskjör vil ég nota tækifærið og láta í ljós þá skoðun mína að ég tel að það eigi mun fleiri að hafa aðgang að biskupskjöri, mun fleiri leikmenn en eru á kirkjuþingi þótt leikmenn séu einir ellefu þar. Ég tel að biskup Íslands sé það mikilvægur embættismaður að sóknir og sóknarnefndir eigi að hafa þar mun meiri áhrif og ég vil því nota tækifærið og láta í ljós þá skoðun mína með von um að tekið verði tillit til þess í framtíðinni við ákvarðanir kirkjuþings. Reyndar er ég þeirrar skoðunar, eins og kom fram í ræðu minni í gær, að kirkjuþing eigi að vera mun stærri og lýðræðislegri stofnun ekki síst ef sjálfstæði kirkjunnar eykst og verður meira. Ég segi það vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að það sé samhljómur á milli þess sem þjóðin vill og þess sem kirkjan vill og þess vegna verði þetta að vera mjög mikilsverður lýðræðislegur vettvangur. Ef valdið fer frá Alþingi þá verði tryggt að á kirkjuþingi komi sjónarmið hins almenna sóknarbarns til skila og að söfnuðir hafi ákveðið vald við biskupskjör sem annars staðar í kirkjunni.