Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 11:35:43 (3461)

1997-02-13 11:35:43# 121. lþ. 70.4 fundur 258. mál: #A almenn hegningarlög# (punktakerfi) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[11:35]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um meðferð opinberra mála vegna breytinga á tilhögun sektarinnheimtu og punktakerfis vegna umferðarlagbrota.

Markmið frumvarpsins er annars vegar að auka skilvirkni við innheimtu sekta og meðferð sektamála og hins vegar að heimilt verði að svipta ökurétti vegna uppsafnaðra punkta vegna umferðarlagabrota, samkvæmt svokölluðu punktakerfi, sem gert er ráð fyrir að tekið verði upp. Þær lagabreytingar sem lagðar eru til eru liður í heildarendurskipulagningu á meðferð sektamála. Frumvarpið er byggt á áliti nefndar sem dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði 21. febrúar sl. til að gera tillögur um úrbætur á innheimtu sekta og sakarkostnaðar.

Sektarrefsingu er ætlað að hafa sérstök og almenn varnaðaráhrif, þ.e. að hafa þau áhrif að fólk fremji ekki afbrot og að brotamenn sjái að sér. Mikilvægt er að sektarinnheimta sé skilvirk til að varnaðaráhrifum verði náð. Brotamenn og aðrir verða að geta gengið að því vísu að refsingu verði framfylgt. Í frv. þessu er lagt til að meðferð sektamála verði einfölduð, sakborningar verði hvattir til að greiða sektir fyrr og innheimta sekta verði réttlátari, skilvirkari og hagkvæmari en nú er.

Til að miða að því að sektarinnheimta verði skilvirkari en nú er er í 1. gr. frv. þessa lagt til að hegningarlögum verði breytt á þann veg að hámarksfrestur til greiðslu sektar sem lögreglustjóri getur samið um við sakborning verði eitt ár. Lögreglustjórum er heimilt að leyfa sektarþola að greiða sekt með afborgunum. Afborgunarsamningar hafa oft verið gerðir til langs tíma, jafnvel til nokkurra ára. Þetta verður að telja óæskilegt þar sem lögreglustjóraembættum er ekki ætlað að vera lánastofnanir og þau eru illa í stakk búin að inheimta slíka samninga.

Þá er í 2. gr. frv. lagt til að í 4. og 5. mgr. 54. gr. almennra hegningarlaga verði lögbundnar vararefsingar vegna sekta sem gengist er undir hjá lögreglustjóra. Fyrirmynd þessa ákvæðis er sótt í dönsku hegningarlögin. Gert er ráð fyrir að þessi heimild taki einungis til sekta sem nema allt að 100.000 krónum. Að gildandi rétti verður vararefsing ekki fullnustuð án atbeina dómstóla. Því hefur reynst nauðsynlegt að gefa út ákærur í þeim málum sem lögreglustjórasáttir hafa verið gerðar um en sektir ekki greiðst. Útgáfa ákæra hefur þá þjónað þeim tilgangi einum að fá ákvörðun dóms um vararefsingu. Þessi tilhögun hefur haft ýmis vandkvæði í för með sér við ákvörðun refsinga, auk þess sem um tvíverknað er að ræða sem hefur í för með sér mikla vinnu fyrir starfsmenn lögreglustjóraembætta og dómara. Ætla má að með ákvæðum laga um meðferð opinberra mála sé vel tryggt að sakborningar hljóti réttláta málsmeðferð hjá lögreglu. Rétt er þó að taka fram, að sakborningur á þess ávallt kost að mál gangi til dómstóla, ef hann er ósáttur við sektarboð lögreglustjóra. Sá réttur verður að sjálfsögðu ekki tekinn frá sakborningi.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að í 4., 5. og 6. mgr. 100. gr. umferðarlaga verði lögfest ákvæði er heimili að staðla sektarfjárhæðir og tímalengd sviptingar ökuréttar vegna umferðarlagabrota, að leggja saman sektir við ákvörðun refsingar vegna tveggja eða fleiri umferðarlagabrota og að veita afslátt af sektum vegna umferðarlagabrota ef greitt er innan 30 daga frá því að sektin var á lögð.

Í samræmi við fyrirmæli laga um meðferð opinberra mála lætur ríkissaksóknari lögreglustjórum í té staðlaðar leiðbeiningar um sektarfjárhæðir vegna umferðarlagabrota. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessar leiðbeiningar verði í reglugerð. Þær verði því sýnilegri borgurunum sem horfir til aukins réttaröryggis.

Sanngirnissjónarmið liggja að baki tillögum um fullkomna samlagningu sekta, auk þess sem með þeirri tilhögun er ætlað að skerpa varnaðaráhrif refsinga vegna umferðarlagabrota. Það stríðir gegn jafnræðissjónarmiðum að brotamönnum sem fremja brot með stuttu millibili verði ákvörðuð vægari refsing fyrir hvert brot en þeim sem fremja sjaldan brot og að brotamenn geti vænst þess að fá afslátt af sektargreiðslum ef þeir neita sök eða draga að greiða sektir.

Ákvæði, er heimilar að veita sakborningum 25% afslátt af sektarfjárhæð ef greitt er innan 30 daga frá sektarákvörðun, er ætlað hvetja viðkomandi til að greiða sektir án dráttar og kostnaðarsamra innheimtuaðgerða. Í framkvæmd hefur afsláttur verið veittur við innheimtu gjalda af umráðamönnum bifreiða vegna stöðubrota og hefur sú tilhögun reynst mjög greiðsluhvetjandi.

Sektir vegna umferðarlagabrota eru fyrirferðarmesta tegund sektarrefsinga. Svipting ökuréttar er viðurlagategund sem er nátengd slíkum sektum.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að í 2. mgr. 101. gr. umferðarlaga verði lagður grundvöllur að svokölluðu punktakerfi vegna umferðarlagabrota. Með því er átt við að tilteknum brotum á umferðarlögum samsvari einn eða fleiri punktar og að við hvert brot sem ökumaður gerist sekur um fái hann tiltekinn fjölda punkta sem færist í ökuferilsskrá. Að óbreyttum lögum verður sviptingu ökuréttar ekki beitt vegna síendurtekinna umferðarlagabrota nema um sé að ræða brot sem teljast stórfelld. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að unnt verði að svipta ökumann, sem fengið hefur tiltekinn fjölda punkta, ökurétti í allt að þrjá mánuði. Þessari tilhögun er ætlað að hafa aukin varnaðaráhrif, en sýnt þykir að svipting ökuréttar eru þau viðurlög við umferðarlagabrotum sem mest varnaðaráhrif hafa. Gert er ráð fyrir því að dómsmálaráðherra setji, að fenginni umsögn ríkissaksóknara, reglugerð um punktakerfi vegna umferðarlagabrota, þar sem m.a. verði kveðið á um það hvaða vægi einstök umferðarlagabrot skuli hafa í punktum talið við ákvörðun um beitingu sviptingar ökuréttar.

Punktakerfi sem hér um ræðir hefur verið tekið upp m.a. í Bandaríkjunum, Kanada, Japan, Ástralíu, Bretlandi og Þýskalandi og rætt er um að koma slíku kerfi upp í Noregi. Hvarvetna sem punktakerfi hefur verið tekið upp hefur það verið talið hafa áhrif í þá veru að fækka umferðarlagabrotum og draga verulega úr slysatíðni.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.