Lögmenn

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 11:50:55 (3464)

1997-02-13 11:50:55# 121. lþ. 70.5 fundur 255. mál: #A lögmenn# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[11:50]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að eftirlit með störfum bæði einkafyrirtækja og fyrirtækja í félagaformi er með ýmsu móti af opinberri hálfu og af ýmsum ástæðum. Það er því alls ekki svo að verið sé að taka lögmenn eina út úr og setja þá eina undir opinbert eftirlit. Það hefur verið talið nauðsynlegt út frá sjónarmiðum neytendaverndar að hafa eftirlit með störfum lögmanna. Samkvæmt gildandi lögum er það í höndum stjórnar Lögmannafélagsins sjálfs. Það hefur verið óumdeilt. Lögmenn fara með mikilsverð mál fyrir einstaklinga á grundvelli sérþekkingar sinnar. Það er mikilvægt að sem mest traust ríki á störfum þeirra og því hefur hvarvetna verið talið nauðsynlegt að hafa slíkar reglur. En nútímastjórnsýsluhættir eru á annan veg en fyrrum. Það þykir ekki eðlilegt að stéttir hafi eftirlit með sjálfum sér eins og verið hefur og þess vegna er sú breyting lögð til sem felst í frv. En hún ræðst einnig af því að með frv. er verið að leggja til að félagafrelsið verði virkt þannig að menn verði ekki skuldbundnir til að vera aðilar að Lögmannafélaginu. Það leiðir af sjálfu sér að félagið getur í þeim tilvikum ekki verið eftirlitsaðili með utanfélagsmönnum og eðlilegt að skipa þá eftirlitinu með heildstæðum hætti í samræmi við nútímastjórnsýsluviðhorf þannig að það taki jafnt til allra hvort sem þeir eru félagsmenn í Lögmannafélaginu eða ekki.